Fjármálaleikar 2020 - undankeppni

Fjármálavit undirbýr undankeppni í Fjármálaleikum 2020

Fjármálavit sendi nýverið dreifibréf á alla grunnskóla landsins þar sem greint var frá því að úrslit Evrópukeppni í fjármálalæsi milli grunnskóla í Evrópu færu fram í lok apríl í Brussel, Belgíu. Undankeppnir eru haldnar í hverju þátttökulandi og af því tilefni verða fjármálaleikar milli íslenskra nemenda í 10. bekk dagana 4. – 13. mars 2019. Keppt er milli skóla. 

Um þátttöku í Fjármálaleikum

Nemendur fá tækifæri til að taka þátt og keppa fyrir hönd síns skóla og svara spurningaleik í fjármálalæsi. Hver og einn nemandi sem ákveður að taka þátt skráir sig til leiks og svarar 64 spurningum. Við skráningu gefur nemandi upp nafn og í hvaða skóla hann er og þar með er viðkomandi skóli orðinn þátttakandi í leiknum. Hver þátttakandi þarf að vera með Facebookreikning eða hafa aðgang að einum slíkum. Ekki er gerð krafa um að allir nemendur í árgangi taki þátt til að vera með, en lágmarksfjöldi þátttakenda úr hverjum skóla er tíu. Í fámennum skólum geta fleiri en einn árgangur spilað til að fylla upp í þá tölu.
Sá skóli sem hlutfallslega fær flest stig stendur uppi sem sigurvegari. Á meðan á leiknum stendur geta þátttakendur spilað hvenær sem er á tímabilinu, tekið hlé á spilun og byrjað aftur þar sem frá var horfið. Hér skiptir hópeflið máli og að hver og einn klári allar spurningar. Leikurinn er spilaður á vefslóðinni fjarmalaleikar.is þar sem nú er hægt að skoða leikinn frá því í fyrra.

Fjármálavit stendur að keppninni fyrir hönd íslenskra nemenda en Samtök fjármálafyrirtækja og Landssamtök lífeyrissjóða hafa staðið að baki Fjármálavits undanfarin ár.

Ekki er gert ráð fyrir að kennarar skrái skólann sinn til leiks. Þegar nemendur skrá sig til leiks, tiltaka þeir í hvaða skóla þeir eru og þá er skólinn sjálfkrafa orðinn þátttakandi.

Fjármálavit hvetur grunnskóla til að virkja nemendur til þátttöku í fjármálaleikunum hér heima og þannig stuðla að frekari vitundarvakningu um mikilvægi fjármálalæsis.