Sjúkraþjálfarinn í forystusveit lífeyrissjóðakerfisins

Sjúkraþjálfarinn í forystusveit lífeyrissjóðakerfisins

 Sjúkraþjálfarinn sem skipti um starfsvettvang

 „Mín tilfinning er sú að í lífeyrissjóðakerfinu ríki metnaður og fagmennska og þar bendi ég ekki síst á Gildi lífeyrissjóð sem ég þekki best til. Það liggja tækifæri í því að fræða og upplýsa almenning betur um lífeyrissjóðakerfið og gæti það haft jákvæð áhrif á umræðu og ímynd kerfisins í heild. Fræðsla er gríðarlega mikilvæg, það þekki ég vel sem sjúkraþjálfari.

Mér kom þægilega á óvart að upplifa að á stjórnarfundum í lífeyrissjóðakerfinu er umræðan ekki ósvipuð því sem gerist og gengur í samfélaginu. Menn eru þar gagnrýnir í hugsun og velta fyrir sér málum og varpa fram erfiðum spurningum. Mér finnst það reyndar skylda mín og hlutverk sem stjórnarmanns að velta upp erfiðum spurningum, leita svara og hlusta á sjónarmið sjóðfélaga.“

Ingibjörg Ólafsdóttir sviðsstjóri þjónustusviðs Eflingar stéttarfélags frá og með 1. september 2019. Undir sviðið heyrir móttaka erinda, afgreiðsla umsókna í orlofs-, fræðslu- og sjúkrasjóði og þjónusta VIRK starfsendurhæfingar. Hún var áður ráðgjafi og síðar sviðsstjóri VIRK á vegum Eflingar frá því í desember 2010.

Ingibjörg var varamaður í stjórn Gildis lífeyrissjóðs en varð aðalmaður á árinu 2018 og 2019 var hún kjörin í aðalstjórn sjóðsins. Á ársfundi Landssamtaka lífeyrissjóða vorið 2019 var hún kjörin í stjórn þeirra til þriggja ára.

„Hlutirnir gerðust hratt og ég finn til gríðarlegrar ábyrgðar sem fylgir því að sitja í tveimur stjórnum í lífeyrissjóðakerfinu. Hlutverk stjórnarmanns er miklu umfangsmeira en sem svarar til þess að undirbúa sig fyrir fundi stjórnar og sitja þá. Allir eru af vilja gerðir til að upplýsa og aðstoða nýliða við að komast inn í mál sem eru sum hver bæði umfangsmikil og flókin. Já, ég viðurkenni fúslega að ég hef stundum misst svefn vegna þessa en það er bara eðlilegt. Ég vil einfaldlega standa mig vel í því sem ég tek mér fyrir hendur.“

 „Ofvirka starfsstéttin“

Ingibjörg fetaði fremur óvenjulega slóð á starfsferli sínum. Hún menntaði sig á sínum tíma í sjúkraþjálfun og starfaði um árabil sem sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfari. Svo kom að tilteknum vegamótum í tilverunni. Ingibjörg lýsir sjálf leiðinni sem hún valdi til að halda áfram för sinni og hvers vegna. 

„Ég játa fúslega á mig að vera dálítið ofvirk. Ég þekki reyndar varla nokkurn sjúkraþjálfara sem ekki er meira eða minna ofvirkur, þeir eru ofvirk stétt sem sækist eftir áskorunum! 

Satt að segja sá ég mig ekki fyrir mér standa við meðferðarbekkinn orðin fimmtug eða sextug, þar sem þetta er líkamlega erfitt starf. Ég þurfti að skipta um starfsvettvang. Þess vegna fór ég í viðskiptafræði í Háskóla Íslands árið 2007 og lauk því námi 2010. Þetta var erfiður tími og ég hefði ekki getað klárað þetta nema með stuðningi fjölskyldunnar. 

Á jólaföstu 2010 hóf ég störf hjá Eflingu sem VIRK ráðgjafi. Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins stofnuðu Virk í maí 2008. Stéttarfélög og atvinnurekendur á opinberum vinnumarkaði slógust síðan í hópinn með því að undirrita stofnskrá Virk snemma árs 2009.“ 

Hef þjónustað 400 einstaklinga

„Ég hef verið ráðgjafi hjá VIRK í níu ár og lært margt af þeim sem ég starfa með og starfa fyrir. VIRK ráðgjafar eru starfsmenn stéttarfélagsins og vinna m.a. með starfsfólki á kjaramálasviði og sjúkrasjóði Eflingar. 

Mér þykir afskaplega vænt um vinnustaðinn minn, félagsmenn Eflingar og samstarfsfólkið. Það er í senn áskorun og mikilvæg lífsreynsla að fá tækifæri til að styrkja þjónustuþega VIRK til að standa upp eftir veikindi og önnur áföll í lífinu. Til að mynda er bæði gaman og krefjandi að sitja með ungu fólki og aðstoða það við að skerpa framtíðarsýnina og setja sér markmið. Einnig hef ég skilning á því þegar félagsmenn okkar þurfa að skipta um starfsvettvang og fara í líkamlega léttara starf. 

Sjálf hef ég aðstoðað og þjónustað tæplega fjögur hundruð félagsmenn í Eflingu við að takast á við erfiðar félagslega aðstæður og veikindi. 

Engir tveir dagar eru eins í vinnunni þar sem starfsemi VIRK er í stöðugri þróun og tekur hröðum breytingum. VIRK ráðgjafar hjá Eflingu sinna líka fólki af erlendu bergi, sem þarf á aðstoð og þjónustu að halda. Þannig kynnumst við öðrum menningarheimum eða annars konar heilbrigðis- og menntakerfum en við þekkjum hér. Þetta þykir mér sérlega gefandi og fræðandi, því ég er forvitin að eðlisfari.“

 Stolt yfir frumkvæði Gildis 

Í viðtali sem birt var í fyrra hér á Lífeyrismál.is var haft orðrétt eftir Páli Harðarsyni, forstjóra Kauphallar Íslands: 

„Gildi kom fyrstur fram með ítarlega og nokkuð afgerandi hluthafastefnu og tók fyrstur lífeyrissjóða að birta hvernig hann greiðir atkvæði á hluthafafundum og hverja hann styður í stjórnarkjöri. Jafnframt hefur Gildi að mörgu leyti látið sig stjórnarhætti meira varða, að mér virðist, heldur en flestir eða allir aðrir lífeyrissjóðir.“ 

Viðmælandinn nú, Ingibjörg Ólafsdóttir, vitnar til ummæla Kauphallarforstjórans og segist stolt yfir því að vera í forystusveit lífeyrissjóðs sem sýni afgerandi frumkvæði til að bæta starfshætti í umhverfi sínu. 

„Lífeyrissjóðakerfið er ekki fullkomið frekar en mörg önnur mannanna verk. Það er margt í því kerfi sem er vel gert en það tekur tíma að breyta og bæta það sem þarf að lagfæra. Gildi lífeyrissjóður hefur verið í forystu í virku aðhaldi á hluthafafundum félaga sem sjóðurinn á hluti í. Við viljum vera virkir eigendur og fylgja markaðri stefnu um starfskjör og fjárfestingar. Slíkt er merki um breytta tíma, gjarnan má kalla það vakningu í kerfinu í heild. 

Á dögunum komst Gildi lífeyrissjóður í fréttir þegar hann seldi allan hlut sinn í sjávarútvegsfyrirtæki eftir að hluthafafundur samþykkti viðskipti tengdra félaga. Gildi lagðist gegn þessum viðskiptum og brást við niðurstöðunni með því að selja sig út úr félaginu. 

Ég er afar stolt og ánægð með það hvernig hluthafastefnu Gildis var framfylgt í þessu tilviki. Við gerum kröfur til félaga um góða stjórnarhætti og fylgjum sannfæringu og stefnu sjóðsins hvað svo sem líður afstöðu eða ákvörðunum annarra hluthafa í sömu félögum. 

Sömuleiðis bendi ég á að Gildi fór fyrstur lífeyrissjóða að birta opinberlega upplýsingar um allar bókanir sínar og atkvæðagreiðslur á ársfundum félaga og fyrirtækja. Það var jákvætt skref og fleiri sjóðir hafa fylgt í kjölfarið. 

Ýmsum kann að virðast slík upplýsingamiðlun gagnvart sjóðfélögum og samfélaginu sjálfsögð og eðlileg en þannig var ekki litið á málin fyrir örfáum árum. Slík skref eru jákvæð og ég sé fyrir mér að upplýsingamiðlun og fræðsla verði enn efld og styrkt hjá einstökum lífeyrissjóðum og lífeyriskerfinu í heild.“