Reynsla úr Heimaeyjargosinu notadrjúg í bankahruni

Reynsla úr Heimaeyjargosinu notadrjúg í bankahruni

Arnar Sigurmundsson hættir í stjórnum Lífeyrissjóðs Vestmannaeyja og Landssamtaka lífeyrissjóða í vor eftir áratugastarf á vettvangi lífeyrissjóða. Hann var formaður LL, helsti talsmaður og „andlit“ lífeyrissjóðakerfisins í bankahruninu og hafði áður glímt við afleiðingar eldgoss á Heimaey. 

Miklum tíðindum sætir þegar Eyjamaðurinn orðvari hverfur af sviði lífeyrissjóðanna.

Arnar tók fyrst sæti í stjórn Lífeyrissjóðs Vestmannaeyinga, eins og hann hét þá, árið 1980. Guðmundur Karlsson, framkvæmdastjóri Fiskiðjunnar í Eyjum og stjórnarmaður í lífeyrissjóðnum, var kjörinn til Alþingis. Arnar tók við af honum og hefur verið í stjórn sjóðsins síðan þá, að fáeinum árum undanskildum.

Hann var kjörinn stjórnarmaður í Sambandi almennra lífeyrissjóða 1993 og hefur verið í stjórn Landssamtaka lífeyrissjóða frá stofnun 1998, þar af formaður frá 2006 til 2012. Hann og Haukur Hafsteinsson, framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins ­­– LSR, eiga það sameiginlegt að hafa verið í stjórn LL frá upphafi.

  • Arnar var í tvo áratugi  framkvæmdastjóri Samfrosts sf., sameiginlegs þjónustufyrirtækis frystihúsanna í Eyjum og stjórnarformaður Samtaka fiskvinnslustöðva 1987-2014. Hann tók virkan þátt í að sameina Samtök fiskvinnslustöðva og Landssamband íslenskra og stofna Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi.  Arnar var bæjarfulltrúi í Eyjum um árabil, stjórnarmaður  í Sparisjóði Vestmanneyja,  formaður stjórnar Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins frá stofnun 1997 til 2004 , stjórnarmaður í Vinnuveitendasambandi Íslands og síðar stjórnarmaður í Samtökum atvinnulífsins til 2015, svo hið helsta sé nefnt.

Síðast en ekki síst. Arnar er skákmaður og hefur í fjórgang hampað skákmeistaratitli Vestmannaeyja. Hann nálgast mörg viðfangsefni sín líkt og hann sitji við skákborð; spáir í stöðuna og mögulega leiki langt fram í taflið. Hann hefur orð á sér fyrir að vera íhugull og slyngur samningamaður sem segir ekki meira en hann telur rétt vera og hægt sé að standa við. Honum er treyst og hann hefur lag á að leysa hnúta.

 Formennskan varð sólahringsstarf

Síðasta vikan í september og  allur október 2008 standa upp úr ef ég lít um öxl, enda alveg ótrúlegur tími þegar 90% af fjármálakerfinu hrundu. Þá breyttist formennska í Landssamtökum lífeyrissjóða á svipstundu úr aukastarfi í sólarhringsstarf!

Hrunið sjálft var bara byrjunin með tilheyrandi höggum sem lífeyrissjóðir urðu fyrir, einnig stórir fjárfestingarsjóðir og félög á markaði yfirleitt.

Samskiptin við skilanefndir föllnu bankanna urðu gríðarlega tímafrek og það reyndi mjög á stjórnir og starfsfólk lífeyrissjóðanna að greiða úr málum sjóða sinna.

Stjórnvöld leituðu eftir því að lífeyrissjóðir kæmu að mörgum verkefnum til að koma gangverki samfélagsins af stað á nýjan leik. Við stóðum að viljayfirlýsingu um nýjan Landspítala í nóvember 2009 og ræddum um að taka þátt í að fjármagna Vaðlaheiðargöng en upp úr þeim viðræðum slitnaði. Við ræddum um að fjármagna samgöngumiðstöð á Reykjavíkurflugvelli, Sundabraut og fleira.

Þessi verkefni urðu ekki að veruleika þá en lífeyrissjóðirnir stofnuðu Framtakssjóð Íslands í desember 2009 til að stuðla að endurreisn atvinnulífsins og það var mikið gæfuspor.

Stjórn og forystusveit  Landssamtaka lífeyrissjóða kom víða við sögu og álagið var mikið. Það mæddi mjög á stjórnendum og starfsfólki lífeyrissjóða í bankahruninu og þá var nú aldeilis lán að hafa Hrafn Magnússon, framkvæmdastjóra LL, sér við hlið. Við vorum helstu talsmenn LL og  lífeyrissjóðanna í hruninu.

Þegar Hrafn hætti 2011 vorum við svo stálheppin að fá Þóreyju S. Þórðardóttur til starfa sem framkvæmdastjóra. Hún er flinkur og öflugur lögmaður, hefur staðið sig frábærlega og verið okkur mikill styrkur í starfseminni.“

 Menn búa sig hvorki undir eldgos né bankahrun

– Tæplega nokkur maður getur búið sig undir atburð á borð við efnahagshrun á Íslandi. Varstu ekki fullur örvæntingar og kvíða þegar mest gekk á og útlitið var sem svartast?

„Ég er borinn og barnfæddur Eyjamaður og hef upplifað ýmislegt á heimaslóð. Enginn býr sig undir áföll í atvinnulífi og ég hef þurft að takast á við nokkur slík. Enn síður búa menn sig undir eldgos í sjálfri heimabyggðinni!

Ég þurfti eins og aðrir að bjarga eigin búslóð og sinna öðrum björgunarstörfum  fyrstu dagana í Heimaeyjargosinu 1973. Eftir að fjölskyldan fékk húsnæði til bráðabirgða í Reykjavík og ég hafði skilað af mér  verkefnum hóf  ég störf fyrir Viðlagasjóð í Eyjum. Skömmu eftir goslok í júlí 1973 var ég  ráðinn fram-kvæmdastjóri Viðlagasjóðs Vestmannaeyja og gegndi því  fjölþætta og krefjandi starfi til ársloka 1976. Eftir það hóf ég störf  fyrir sjávarútvegsfyrirtæki í Eyjum og samtök í sjávarútvegi  á landsvísu.

Er ekki sagt að átök herði menn?

Eftir á að hyggja er ég ekki í vafa um að reynslan á gostímanum hjálpaði mér mikið til að komast í gegnum bankahrunið. Einnig hjálpaði löng reynsla mín  af samskiptum á vinnumarkaði og við stjórnvöld og fjölmiðla.

Gosið gerði ekki boð á undan sér og það gerði bankahrunið ekki heldur. Gert var ráð fyrir frekar harkalegri lendingu í efnahagsmálum þegar liði á árið 2008 en ekki hvarflaði að nokkrum manni  að bankakerfið hryndi á nokkrum dögum. Ríkið tók Glitni í fangið, svo leið vika þar til Landsbankinn féll og Kaupþing fór sömu leiðina þremur dögum síðar.

Þessi tími var engu líkur á sinn hátt og er þá eldgosið með talið!“ 

Fortíð lífeyrissjóðanna gerð upp

– Hafa lífeyrissjóðirnir gert upp þennan tíma svo vel og fullnægjandi sé?

„Ég tel svo vera, já. Höggið var mikið og þungt. Lífeyrissjóðakerfið bognaði vissulega en brotnaði ekki. Ég man að við hjá LL fengum Benedikt Jóhannesson, tryggingastærðfræðing og núverandi fjármálaráðherra, til að fara í Kastljósið um miðjan október 2008 til að ræða umfang eignatjóns lífeyrissjóðanna. Hann taldi að 20-25% eigna hefðu tapast og fór nærri staðreyndum þar því niðurstaðan síðar varð 22% þegar  viðamikil óháð úttekt á fjárhagstjóni sjóðanna var birt í febrúar 2012.

Höggið var mismikið eftir samsetningu eigna sjóðanna, allt frá 10-12% í sumum sjóðum upp í um 30% hjá þeim sem fengu á sig versta brotið í ólgusjónum.

Lífeyrisréttindi voru skert í nokkrum  sjóðum en sem betur fór voru þeir furðufljótir að ná vopnum sínum á nýjan leik og það hefur gengið vel að ávaxta eignir þeirra á undanförnum árum. Árið 2016 er að vísu undantekning en lakari afkoma þá stafar af sterkari krónu, lækkandi vöxtum og því að hlutabréfaverð stóð að mestu í stað. Svo verður að hafa í huga að nokkur ár þar á undan voru mjög góð.

Þú spyrð um uppgjör við fortíðina og því til til að svara að Alþýðusamband Íslands hvatti til þess vorið 2010  að starfsemi lífeyrissjóða í aðdraganda hrunsins yrði rannsökuð sérstaklega. Það var gert, góðu heilli.

Við leituðum til Magnúsar Péturssonar, þáverandi ríkissáttasemjara, og hann fékk Hrafn Bragason, fyrrverandi hæstaréttardómara, sem hlutlausan rannsakanda og stjórnanda verkefnisins. Rannsóknin tók hálft annað ár og kostaði um 80 milljónir króna sem lífeyrissjóðirnir sjálfir borguðu.

Rannsóknarskýrslan var umfangsmikil, vel unnin og upplýsandi. Um hana varð mikil umræða í samfélaginu. Mér finnst það hafa verið afskaplega farsælt að við skyldum eiga frumkvæði að rannsókninni og þar með lauk „hruntíma“ lífeyrissjóðakerfisins.

Með skýrsluna í höndum gátum við dregið lærdóma af fortíðinni, breytt verklagi til batnaðar og horft fram á veginn.“

Sameining ekki á döfinni hjá Lífeyrissjóði Vestmannaeyja

„Lífeyrissjóðum landsmanna hefur fækkað og það er vel. Þegar ég byrjaði á þessum vettvangi voru þeir yfir 80 en nálgast nú að vera um 20 ef tekið er tillit til sjóða sem eru formlega sjálfstæðir en reknir sameiginlega. Sjóðunum mun fækka enn frekar og þeir verða alls 8-10 eftir nokkur ár, spái ég.

– Ef þú lítur þér nær. Hefur ekki hvarflað að ykkur að sameina Lífeyrissjóð Vestmannaeyja einhverjum öðrum sjóði?

„Sameining hefur svo sem verið nefnd en við höfum valið að taka ekki þátt í neinum sameiningarviðræðum eftir bankahrun. Meginástæðan er sú að sjóðurinn okkar er frekar íhaldssamur í fjárfestingum, við fórum betur út úr hruninu en margir aðrir og þurftum ekki að skerða lífeyrisréttindi. Reksturinn er góður og ávöxtun eigna í góðu meðallagi.

Góð samstaða er um Lífeyrissjóð Vestmannaeyja í röðum  sjóðfélaga og baklands sjóðsins, atvinnurekenda og stéttarfélaga í Eyjum.“

 Atvinnurekendur út úr stjórnum lífeyrissjóða?

 - „Burt með atvinnurekendur úr stjórnum lífeyrissjóða!“ heyrist oft í þjóðmálaumræðunni. Hvernig hljómar sú krafa í eyrum stjórnarmanns atvinnurekenda í lífeyrissjóðakerfinu um áratuga skeið?

„Þetta stjórnarfyrirkomulag er liður í kjarasamningum á almennum vinnumarkaði, síðast samþykkt 1995. Iðgjöldin eru það og fyrirkomulag viðbótarlífeyrissparnaðar og séreignar sömuleiðis.

Hvernig ætti yfirleitt að semja um málefni lífeyrissjóða á almennum vinnumarkaði ef ekki í tengslum við kjarasamninga?

Samtök atvinnulífsins tilefna stjórnarmenn í sjö lífeyrissjóðum á almennum markaði og þetta fyrirkomulag hefur gefist vel. Samtökin voru reyndar gagnrýnd fyrir hvernig þau stóðu að vali fulltrúa sinna. Þau brugðust við með því að auglýsa snemma árs 2017 eftir fólki sem hefði áhuga á stjórnarsetu í lífeyrissjóðum fyrir þeirra hönd, að uppfylltum  hæfisskilyrðum að sjálfsögðu. Margir sýndu því áhuga.

Í sumum sjóðum eru stjórnarmenn launafólks valdir á fulltrúaráðsfundum eða tilheyrandi samkomum. Fyrirkomulag stjórna lífeyrissjóða á sjálfsagt eftir að þróast eitthvað en ég sé ekki fyrir mér að ákveðið verði að allir sjóðfélagar kjósi beint stjórnir lífeyrissjóða á almennum vinnumarkaði.

Höfum svo í huga að ríkið og bæjarfélög tilnefna fulltrúa í stjórnir lífeyrissjóða starfsmanna ríkis og sveitarfélaga, sjóða sem eru með ábyrgð launagreiðenda. Dettur einhverjum í hug að fulltrúar launagreiðenda eigi ekki að sitja í þessum sjóðsstjórnum? Held ekki, slíkt myndi aldrei gera sig.“

Samtryggingin standi sterkt

„Þegar á heildina er litið er lífeyrissjóðakerfið gott og farsælt. Því má hins vegar velta fyrir sér hvernig kerfið liti út ef við værum að stofna lífeyrissjóðina núna með reynslu undanfarinna áratuga í farteskinu. Þá myndum við horfa heildstætt á myndina og ákveða hlutföll iðgjalda í samtryggingu annars vegar og í bundinn eða óbundinn séreignarsparnað hins vegar.

Samtryggingarhlutinn yrði að standa sterkt. Það má aldrei gera hlut viðbótarlífeyrissparnaðar og séreignar svo stóran að samtryggingarhlutinn verði víkjandi eða á hann halli.“

  • Skrafi á skrifstofu Arnars Sigurmundssonar í Hvíta húsinu við Strandveg lauk með bílferð um bæinn og hafnarsvæðið. Betri leiðsögn er ekki hægt að hugsa sér. Hann kann flestum öðrum betur að segja sögu atvinnulífs, byggðar, mannlífs og húsanna í bænum sínum. Lokaorð:
 „Nú hverf ég frá borði af vettvangi lífeyrissjóðanna, mjög sáttur við tilveruna. Efst í huga er þakklæti  til stjórnar og  stjórnenda Landssamtaka lífeyrissjóða og til þeirra fjölmörgu sem ég hef kynnst í starfsemi lífeyrissjóða í gegnum tíðina.“