Kúnstin að vera ábyrgur og sýna það svo skiljanlegt sé

Kúnstin að vera ábyrgur og  sýna það svo skiljanlegt sé

Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Birtu lífeyrissjóðs„Okkar kúnst er að vera ábyrgur fjárfestir og sýna fram á það þannig að sjóðfélagar Birtu skilji. Byrjum á því að koma okkur saman um hugtök og skilgreiningar þeirra. Hvað felst nákvæmlega í „ábyrgð“ þegar talað er um ábyrgar fjárfestingar?“ spurði Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Birtu lífeyrissjóðs, á opnum fundi Fjármálaeftirlitsins um ábyrgar fjárfestingar á Grandhóteli í Reykjavík 25. október sl. Hann greip svo á flugi bolta úr erindi Eleni Choidas, frá ShareAction, evrópskum samtökum sem hvetja fyrirtæki til ábyrgra fjárfestinga. Hún tók starfsemi spilavíta sem dæmi um fjárfestingar sem ekki gætu talist ábyrgar og Ólafur brást þannig við: 

„Lífeyrissjóðir eiga að setja sér siðferðileg viðmið. Þau kunna að vera gildishlaðin og þá skiptir máli hvernig að þessu er staðið. Til eru syndastokkar sem augljóst þykir að við eigum að sneiða hjá. Nefnum fjárhættuspil sem dæmi. Vissulega væri slæmt að lífeyrissjóður fjárfesti í félagi sem ræki spilavíti eða fjárhættuspilamennsku af einhverju tagi en svo horfum við á til dæmis Háskóla Íslands og íþrótta- og ungmennahreyfinguna á Íslandi sem fjármögnuð er að hluta  með lottópeningum. Starfsemin er þá ekki ósiðlegri en svo! 

Því skiptir miklu máli að allir skilgreini og skilji tilheyrandi hugtök á sama hátt. Evrópusambandið vinnur að hugtakaskilgreiningum og við þurfum að þýða hugtökin á íslensku, skilgreina þau og staðfæra. 

Við getum byrjað á að einfalda hlutina með því að gera ábyrgðarhugtakið sýnilegt og skiljanlegt. Það er liður í að auka traust almennings á lífeyrissjóðum. Lífeyrissjóðakerfið nýtur reyndar heldur meira trausts en Alþingi en það er langt frá því að teljast fullnægjandi.“

Unnur Gunnarsdóttir, forstjóri FjármálaeftirlitsinsSiðferðileg viðmið beintengd klassísku áhættumati 

Unnur Gunnarsdóttir, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, vísaði í erindi sínu til þess að ákvæði um siðferðileg viðmið í fjárfestingum hefði verið sett í lög um lífeyrissjóði árið 2016. Hvorki í lögunum sjálfum né í lögskýringargögnum væri hins vegar getið um hvað þetta nákvæmlega þýddi. Hins vegar væri lagaákvæðið jafnan skilið á þann veg að vísað væri í heimsmarkmið og viðmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbærni og fjárfestingarviðmið kennd við umhverfi, félagsleg málefni og góða stjórnarhætti. 

Fjármálaeftirlitið hefur sent erindi til stærstu lífeyrissjóða landsins og lagt fyrir þá spurningar um siðferðileg markmið sjóðanna í fjárfestingum og hvernig lagaákvæðinu frá 2016 er beitt í starfsseminni. Niðurstaða liggur ekki fyrir en verður birt þegar þar að kemur. 

Forstjóri FME kvaðst tengja siðferðilegu markmiðin beint við klassískt áhættumat fyrirtækja á fjármálamarkaði. Þannig yrði horft til þessa þáttar líka við mat á starfsemi eftirlitsskyldra aðila. 

Sumt í lagi, öðru ábótavant 

Ólafur Sigurðsson sagði að upp úr í umræðunni um ábyrgar fjárfestingar stæðu nokkur skýr atriði: 

  • Umhverfismál.
  • Stjórnarhættir fyrirtækja sem fjárfest er í og stjórnarhættir fjárfestanna.
  • Samfélagið og hvernig komið er fram við starfsfólk fyrirtækja.
  • Sjálfbærni. 

„Ekkert fellur eins vel að rekstri lífeyrissjóða og fjárfestingar í sjálfbærni til áratuga. Slíkt stendur nálægt lífeyrissjóðum sem langtímafjárfestum. 

Staðan er sú í stórum dráttum að við höfum stjórnarhætti fyrirtækja vel skilgreinda með reglum og leiðbeiningum. 

Lífeyrissjóðir taka þátt í að móta starfskjarastefnu í fyrirtækjum og sitt sýnist hverjum um hvernig til tekst í ýmsum tilvikum. Enginn staðall er til sem mælir fyrir um hvernig góð starfskjarastefna lítur út.

Við stuðlum að því að skipa tilnefninganefndir í fyrirtækjum til að undirbúa stjórnarkjör á aðalfundum. Sátt ríkir ekki um hvernig nefndirnar skuli starfa en ég er þeirrar skoðunar að tilvera þeirra sé og verði fyrirtækjunum til góðs. 

Ég vek líka athygli á því að það mætti bæta ófjárhagslegar upplýsingar mikið og hjálpa okkur fjárfestum þannig að meta starfsemi þeirra varðandi umhverfismál, samfélagsmál og stjórnarhætti.

Enn má nefna að nýlega voru sett ákvæði í lög um ársreikninga um ófjárhagslega upplýsingamiðlun fyrirtækja. Allur gangur er hins vegar á því hvort og hvernig farið er að þessu lagaboði. Ófjárhagslegar upplýsingar sæta ekki endurskoðun og ágreiningur ríkir um hver eigi að staðfesta upplýsingarnar. Við hjá Birtu lífeyrissjóði fikruðum okkur áfram með því að birta ófjárhagslega upplýsingar um okkar starfsemi á þremur blaðsíðum í ársreikningi 2018. 

Þegar á heildina er litið vantar margt og mikla vinnu til að umhverfið sé eins og við kysum að hafa það. Við stöndum grannríkjunum að baki að þessu leyti.“

Innviðafjárfestingar og græn skuldabréf 

Hluti fundarmanna á GrandhóteliFramkvæmdastjóri Birtu sagði það vera fagnaðarefni að reynslan í flestum fyrirtækjum, sem tækju umhverfisstefnu alvarlega í starfsemi sinni, sýndi að rekstrarkostnaður drægist saman en ykist ekki líkt og margir héldu. Það þýddi þá væntanlega að virk umhverfisstefna stuðlaði að arðsamari starfsemi fyrirtækja og skapaði gríðarleg tækifæri sem aftur dregur úr  áhættu.

Ólafur nefndi fjárfestingu í fráveitukerfum sveitarfélaga sem dæmi sem hæfðu vel markmiðum Sameinuðu þjóðanna í innviðum annars vegar og langtímahugsun lífeyrissjóða sem fjárfesta. 

Í lokin vék hann að „grænum skuldabréfum“ í tengslum við umræður sem eiga sér stað í þjóðfélaginu um fjármögnun samgöngumannvirkja. 

„Ef fjármagna á vegaframkvæmdir með grænum skuldabréfum skiptir máli að skuldastaða verkefnanna sé sjálfbær en ekki skuldabréfin sjálf. Við viljum ekki græn, skuldabréf sem viðhalda sér sjálf. Með öðrum orðum þarf að hyggja að fjárhagslegum atriðum líka við kaup á grænum skuldabréfum. Þá gengur ekki að meta eignasafn lífeyrissjóða eingöngu út frá því hvort skuldabréfin eru græn eða ekki. Það geta falist tækifæri í því að kaupa „brúnt“ og njóta ávinnings þess sem felst í að fylgja fyrirtækjum yfir í umhverfisvænni og hagkvæmari rekstur.“