Afmælisárið mikla í lífeyrissjóðakerfinu – 2019

Afmælisárið mikla í lífeyrissjóðakerfinu – 2019

Afmælisárið mikla í lífeyrissjóðakerfinu – 2019

Lífeyrissjóðakerfi landsmanna hafði ríkar ástæður til þess að fagna merkilegum áföngum í sögu sinni á árinu 2019 og gerði það á ýmsan hátt. Lífeyrissjóðfólk og fleiri notuðu um leið tækifærið til að staldra við, meta stöðu lífeyrissjóða nú og viðra hugmyndir um hvað framtíðin kynni að bera í skauti sér fyrir lífeyrissjóðakerfið og þjóð sem eldist. 

Tveggja megináfanga í sögunni var minnst: 

  • 19. maí 2019 voru 50 liðin frá því skylduaðild launafólks að lífeyrissjóðum var staðfest sem ákvæði kjarasamninga á almennum vinnumarkaði. Skylduaðildin var lögfest á Alþingi 1974 og sex árum síðar náði hún líka til sjálfstætt starfandi fólks og stjórnenda í atvinnulífinu, með öðrum orðum til allra á vinnumarkaði. 
  • 28. nóvember 2019 voru 100 ár liðin frá því fyrsti lífeyrissjóðurinn varð til þegar gildi tóku lög um nr. 72/1919 um stofnun lífeyrissjóðs fyrir embættismenn og um skyldur þeirra til að kaupa sér geymdan lífeyri. Sjóðnum var ætlað að tryggja embættismönnum, er létu af embætti sökum elli og vanheilsu, geymdan lífeyri.

Hátíðarsamkomur í Hörpu og Hofi

Landssamtök lífeyrissjóða minntust hálfrar aldar afmælis skylduaðildar að lífeyrissjóðum á hátíðarsamkomum í Hörpu í Reykjavík 28. maí og í Hofi á Akureyri 30. maí 2019.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ávarpaði gesti í Hörpu og Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Landssamtaka lífeyrissjóða, flutti hátíðarræðu.

Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, flutti ávarp og í Hofi og Þórey S. Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða, flutti hátíðarræðu.

Ný heimildamynd, Lífeyrissjóðaöldin 1919-2019, var sýnd á báðum stöðum. Hún var gerð á vegum Landssamtaka lífeyrissjóða með tæknilegri aðstoð sjónvarpsstöðvarinnar Hringbrautar. Þar er stiklað er á stóru í lífeyrissjóðasögunni á 35 mínútum.

Leikararnir og tónlistarmennirnir Jóhanna Vigdís Arnardóttir, Valur Freyr Einarsson og Jón Ólafsson stjórnuðu samkomunum í Hörpu og Hofi og fluttu tónlistarvörður frá ýmsum tímabilum í lífeyrissjóðasögunni. 

Fjölmenni sótti viðburðina í Reykjavík og á Akureyri og afmælishaldið þótti heppnast eins vel og til var stofnað. 

Viðtalsþáttur á Hringbraut

Að kvöldi fullveldisdagsins 1. desember 2019 var frumsýndur á Hringbraut viðtalsþátturinn Lífeyrissjóðir í 50 ár, samvinnuverkefni Landssamtaka lífeyrissjóða og sjónvarpsstöðvarinnar.

Sigmundur Ernir Rúnarsson stjórnaði þættinum og skrifaði handrit í samstarfi við Landssamtök lífeyrissjóða. Tekin voru upp og sett saman viðtöl við átján manns innan lífeyrissjóðakerfisins og utan þess og fjallað um söguna og margvísleg viðfangsefni sem tengjast lífeyrissjóðum og samfélaginu í nútíð og framtíð. 

Viðtalsþátturinn er 55 mínútur að lengd og hefur verið sýndur nokkrum sinnum á Hringbraut og verður sýndur líka á stöðinni í janúar 2020. Farið er yfir vítt svið og tæpt á mörgu sem ber á góma í þjóðmálaumræðunni og öðru sem ætti að vera þar til umræðu! 

Viðbrögð áhorfenda við þættinum voru góð. 

Hátíðarsamkoma LSR

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins – LSR fagnaði aldarafmælinu að morgni sjálfs afmælisdagsins, 28. nóvember 2019, á morgunverðarfundi á Hilton Reykjavik Nordica. Þar var fjölbreytt dagskrá og bæði horft um öxl og fram á veginn. 

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ávarpaði gesti og Unnur Pétursdóttir, formaður stjórnar LSR, flutti ræðu. Þá ræddi Philip Ripman frá Storebrand í Noregi erindi um sjálfbærar fjárfestingar og í lokin var mikilvægi samtryggingar rætt í pallborði. 

Risaskref á erfiðum tímum 

Áhugavert er að velta fyrir sér þjóðfélagsaðstæðum á Íslandi við upphaf lífeyrissjóðakerfisins 1919 og sömuleiðis hálfri öld síðar þegar skylduaðildin er samþykkt með undirskrift fulltrúa Alþýðusambands Íslands, Vinnuveitendasambands Íslands og annarra sem hlut áttu að máli. 

Djúp efnahagslægð lá yfir Íslandi árið 1969 eftir að síldin hvarf af miðunum með tilheyrandi afleiðingum fyrir allt samfélagið, fjöldaatvinnuleysi og landflótta. Margir óttuðust að viðræður um kjarasamninga vorið 1969 myndu verða harkalegar og jafnvel kæmi til allsherjarverkfalls launafólks. Það gerðist ekki. Framsýnir forystumenn beggja vegna samningaborðsins náðu í lokin samkomulagi sem meðal annars kvað á um skylduaðild að lífeyrissjóðum. 

Fyrsti lífeyrissjóðurinn var stofnaður ári eftir að Ísland lýsti yfir fullveldi 1918. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði á morgunverðarfundi LSR í tilefni aldarafmælisins að stofnun lífeyrissjóða í kjölfar fullveldisins hefði með öðru sýnt að „Íslendingar vildu vera alvöru ríki, þjóð meðal þjóða.“ 

Boðskort  á afmælishátíð 

Myndir frá hátíðahöldunum.