Hagfræðistofnun mælir með meiri fjárfestingum erlendis

Hagfræðistofnun mælir með meiri fjárfestingum erlendis

Hagfræðistofnun mælir með meiri fjárfestingum erlendis

Líklegt er að íslenskt efnahags- og fjármálalíf ráði við fjárfestingar íslenskra lífeyrissjóða þrátt fyrir að umsvif þeirra aukist verulega á næstu áratugum. Mörg rök hníga hins vegar að því að sjóðirnir auki erlendar fjárfestingar sínar hlutfallslega, einkum hlutabréfakaup. Þetta er álit Hagfræðistofnunar í nýrri skýrslu um umsvif íslenskra lífeyrissjóða í íslensku efnahagslífi.

Hagfræðistofnun var falið að kanna tiltekna þætti í tengslum við vinnu starfshóps á vegum forsætisráðuneytisins um hlutverk lífeyrissjóða í uppbyggingu atvinnulífs. Hópurinn skilaði af sér verki 19. janúar síðastliðinn og var haldinn blaðamannafundur 22. janúar.  Tveimur dögum síðar voru meginniðurstöðurnar kynnat á fjölmennu málþingi Landssamtaka lífeyrissjóða. Við sama tækifæri kynnti Sigurður Jóhannesson hagfræðingur skýrslu Hagfræðistofnunar.

Rökin fyrir meiri erlendum fjárfestingum

Erlendar eignir lífeyrissjóða námu einungis um fimmtungi heildareigna þeirra um mitt ár 2017. Hlutfallið var hæst um 30% fyrir efnahagshrunið, lækkaði síðan af völdum hafta erlendra fjárfestinga eftir hrun en er á uppleið á ný eftir afnám haftanna á árinu 2017.

Hagfræðistofnun segir margt mæla með því að lífeyrissjóðir ávaxti stærri hluta eigna sinna erlendis og rökstyður það meðal annars svo:

  • Miklar fjárfestingar hérlendis geti „ýtt upp verði á eignum“.
  • Hlutabréfaverð hafi sveiflast meira á Íslandi en í heimsvísitölu í krónum talið undanfarinn aldarfjórðung. Erlend hlutabréf hafi að auki ávaxtast betur en þau íslensku. Aðeins séu 17 félög skráð í Kauphöllinni og erfitt að færa rök fyrir því að „sjóðirnir hætti stórum hluta af fé sínu í örfáum fyrirtækjum.“
  • Rök mæli gegn því að lífeyrissjóðir leggi stóran hluta eigna sinna undir í einu (litlu) landi og það á sama stað og teknanna sé aflað. Þegar kreppa ríði yfir Ísland kunni íslenskt launafólk að missa hluta af eign sinni í lífeyrissjóðum og tekjur þess dragist sennilega saman um leið.
  • Hlutfall erlenda fjárfestinga íslenskra lífeyrissjóða sé með því lægsta sem gerist, einnig í samanburði við erlenda sjóði sem séu á margfalt stærri og fjölbreyttari heimamarkaði.  Þannig nemi erlend hlutabréfaeign íslensku sjóðanna 54% (mitt ár 2017) en sambærilegt hlutfall breskra, kanadískra og svissneskra lífeyrissjóða nemi 60-70%.

Óskað var sérstaklega eftir því að Hagfræðistofnun fjallaði um samkeppni í viðskiptalífinu í ljósi þess að lífeyrissjóðir eiga hluti í fyrirtækjum sem keppa á markaðinum (t.d. olíufélögum, tryggingafélögum og verslunarfyrirtækjum).

Um þetta segir Hagfræðistofnun:

„Ef sjóðirnir færa hlutabréfaeign sína að miklu leyti til útlanda, eins og hér hefur verið mælt með, minnkar auðvitað sú ógn sem samkeppni á íslenskum mörkuðum kann að stafa af þessum eignarhlut. Það þýðir að vísu ekki að sameiginlegt eignarhald verði úr sögunni. Í öðrum Evrópulöndum og Bandaríkjunum er algengt að stórir verðbréfasjóðir séu meðal stærstu hluthafa í fyrirtækjum sem keppa sín á milli. Ekki er ólíklegt að svipað verði uppi á teningnum hér.“

Skynsamlegt að dreifa líka skuldabréfaeigninni

Erlend skuldabréfakaup íslenskra lífeyrissjóða minnkuðu hratt eftir að fjármagnshöft voru sett á haustið 2009. Skuldabréf sjóðanna nú eru að miklu leyti íslensk sem Hagfræðistofnun skýrir með því

 „... annars vegar að vextir hafa lengi verið hærri hér en í grannlöndum og hins vegar með því að skuldabréf eru öruggari fjárfesting en hlutabréf.“

„Frekar virðist vera hægt að réttlæta það að lífeyrissjóðir kaupi skuldabréf íslenska ríkisins, sveitarfélaga og inlendra fyrirtækja en að þeir kaupi meira af innlendum hlutabréfum en nemur hlutdeild Íslands í heimsframleiðslu. Vextir eru háir á Íslandi og skuldabréf eru traustari eignir en hlutabréf. Sjónarmið um áhættudreifingu vega ekki eins þungt þegar kaupa á skuldabréf og þegar kemur að hlutabréfakaupum. “

„Sérþekking á íslenskum markaði og kostnaður við að færa eignir milli gjaldmiðla gætu ef til vill skýrt að íslenskir lífeyrissjóðir sýni íslenskum hlutabréfum meiri áhuga en öðrum. En sjónarmið um áhættuvarnir mæla gegn því að sjóðirnir eigi miklu meira í þeim en nemur hlutdeild Íslands í heimsframleiðslunni (um 0,3%). Helst er að skilyrði laga um að helmingur eigna lífeyrissjóða skuli vera laus við gengisáhættu setji strik í reikninginn. Erfitt er að sjá nokkur rök fyrir þeirri reglu. Ekki má heldur gleyma því að skuldabréf eru fjarri því að vera áhættulaus. Skynsamlegt virðist að sjóðirnir dreifi skuldabréfaeign sinni á fleiri lönd, þó að vextir séu um sinn hærri á Íslandi en annars staðar.“

Skýrsla starfshóps forsætisráðherra um hlutverk lífeyrissjóða í atvinnulífi

Glærur frá kynningarfundi  á vegum Landssamtaka lífeyrissjóða 24. janúar 2018