Stjórnarhættir lífeyrissjóða ættu að vera öðrum til fyrirmyndar

Stjórnarhættir lífeyrissjóða ættu að vera öðrum til fyrirmyndar

„Lífeyrissjóðir ættu að hafa frumkvæði og forystu um góða stjórnarhætti bæði í orði og verki. Tækju þeir af skarið myndu aðrir fylgja á eftir, enda áhrifamiklir og öflugir fjárfestar. Stjórnarhættir í íslenskum fyrirtækjum þóttu í bærulegu lagi fyrir efnahagshrunið en eftir hrun breyttust viðhorf. Helsta breytingin er sú að nú er mikið meira lagt upp úr virkri áhættustjórnun. Áður vissu menn varla hvað hugtakið áhættustjórnun þýddi, hvað þá meira. Þetta er mikil breyting til batnaðar.“

Dr. Eyþór Ívar JónssonDr. Eyþór Ívar Jónsson stofnaði Rannsóknarmiðstöð í stjórnarháttum í tengslum við Viðskiptafræðistofnun Háskóla Íslands árið 2008. Síðan þá hefur hún staðið að námskeiðum, ráðstefnum og útgáfustarfsemi um góða stjórnarhætti og útnefnt „fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum“ á hverju ári.

Það kemur því ekki á óvart að doktorsritgerð Eyþórs Ívars skuli einmitt hafa fjallað um góða stjórnarhætti.

Stjórnarmenn tileinki sér hugmyndafræði liðsheildar

 „Ég get upplýst að starfsemi lífeyrissjóða vakti upphaflega áhuga hjá mér á góðum stjórnarháttum sem viðfangsefni og ég skrifaði sem þáverandi ritstjóri fjármálaritsins Vísbendingar greinaflokk um leiðbeiningar OECD varðandi stjórnarhætti, í ljósi íslensks veruleika og sjónarmiða. Ég sé margt sem hægt er að gera til að efla góða stjórnarhætti lífeyrissjóða og verð að segja að ég sakna þess að forystufólk í lífeyrissjóðakerfinu sýni málinu ekki meiri áhuga en raun ber vitni.“

 – Þar með ertu að segja að breytt regluverk um starfsemi lífeyrissjóða eftir hrun, með miklu meira aðhaldi og eftirliti, sé ekki nóg? Og heldur ekki kröfur sem Fjármálaeftirlitið gerir til stjórnarmanna lífeyrissjóða og próf sem þeim er ætlað að þreyta og standast?

„Almennt séð kallar stjórnarseta í lífeyrissjóði eða öðru fyrirtæki með flókinn rekstur á meira en það sem þú vísar hér til. Við höfum fengið reynslubolta í stjórnum og rekstri fyrirtækja hingað til okkar á námskeið og skynjum hvernig viðhorf þeirra eru í upphafi og hvernig þau síðan breytast.

Oft vantar hreinlega umræður í stjórnunum sjálfum um hvað stjórnir og stjórnarmenn eiga raunverulega að gera. Ekki er fullnægjandi að hafa starfslýsingar og reglur á vönduðu lagamáli til að vinna eftir. Kjarni máls er að menn velti fyrir sér hvernig eigi að starfa með öðrum stjórnarmönnum, skilja veikleika og styrkleika stjórnarmanna, skilgreina hlutverk, markmið og tilgang stjórnarinnar. Mynda teymi. Hugsa eins og til dæmis landsliðsmennirnir okkar í fótbolta og reyna að skilja hvers vegna þeim vegnar vel á knattspyrnuvellinum. Tileinka sér hugmyndafræði liðsheildar.“

Fleira en fjárfestingar teljast til áhættu

 - „Góðir stjórnarhættir“ eru hvað í þínum huga?

„Þeir snúast í raun ekki um annað en góðan rekstur, að félög séu rekin eins vel og kostur er. Góðir stjórnarhættir snúast líka um gegnsæi, samtal og samstarf. Of margir líta á stjórnarsetu sem einhvers konar innra eftirlit gagnvart framkvæmdastjóranum og hvort eigi að skrifa upp á þetta eða hitt sem hann leggur fyrir stjórnina.

Áhættustjórnun er tiltölulega nýlega komin til sögunnar í stjórnsýslu íslenskra fyrirtækja og það telst mikil framför. Þá er mikilvægt að skilja ekki hugtakið of þröngt, til dæmis að það varði einungis fjárfestingar eða aðrar stórar fjármálaákvarðanir af ýmsu tagi. Áhætta getur fylgt líka rekstri tölvukerfis, markaðsstarfi, orðspori sem fer af starfseminni og mörgu fleiru.“

Græna hagkerfið = góður bissness

– Teljast árangurstengdar greiðslur til góðra stjórnarhátta?

 „Hugmyndin hljómaði vel en engum hefur tekist að sýna fram á að launabónusar stjórnenda geri rekstur fyrirtækja árangursríkari en ella. Bónusar skapa ekki verðmæti en auka hins vegar launakostnað stórlega. Skilningur hefur samt aukist á því í seinni tíð að ef reksturinn gangi vel á annað borð skuli umbuna öllum starfsmönnum, ekki forstjóranum einum eða fáeinum lykilstjórnendum með himinháum viðbótargreiðslum.“

– Hafa „grænar“ fjárfestingar og áhrifafjárfestingar eitthvað með góða stjórnarhætti að gera?

 „Já, fyrir því má færa rök. Það hefur samt tekið íslenska fjárfesta ótrúlega langan tíma að átta sig á því að græna hagkerfið getur verið góður bissness!

Bylgja áhrifafjárfestingar [impact investment] vakti enga sérstaka athygli hér á landi fyrr en stórir erlendir fjárfestar vöktu athygli Kauphallar Íslands á að setja yrði reglur þar að lútandi. Skilningur á þessu jókst í kjölfarið en við eigum samt langt í land.

Lífeyrissjóðir fara illa út úr viðhorfskönnunum meðal almennings á Íslandi. Ástæðurnar geta verið af ýmsum toga, ein skýringin kann að vera sú að fólk hafi á tilfinningunni að stjórnarhættir sjóðanna séu ekki nægilega góðir. Menn hafa ekki endilega rök á reiðum höndum en orðsporið er á þennan veg, því miður.“

 Sjá einnig:

Lífeyrissjóðir bregðist við eigin umsvifum með auknu gagnsæi

Siðferðileg viðmið í fjárfestingum lífeyrissjóða. IcelandSIF og Landssamtök lífeyrissjóða