Tilgreind séreign

Tilgreind séreign er önnur tegund séreignarsparnaðar. Þeir sem eiga rétt á tilgreindri séreign geta valið að ráðstafa allt að 3,5% skylduiðgjalds í tilgreinda séreign.

 • Hvað er tilgreind séreign?

  Í samræmi við ákvæði kjarasamninga Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins frá því í janúar 2016 hækkuðu iðgjöld atvinnurekenda í lífeyrissjóði fólks á almennum vinnumarkaði um 1,5% 1. júlí 2017. Þá tók gildi sú breyting að sjóðfélagar geta valið að setja allt að 3,5% skylduiðgjalds í lífeyrissjóði í svokallaða tilgreinda séreign.

  Hér er ekki um að ræða "venjulegan" séreignarsparnað og sjóðfélagar verða að taka sjálfir upplýsta ákvörðun um hvort þeir vilji fara þessa leið. 

 • Hverjir eiga rétt á tilgreindri séreign?

  Allir sem starfa á almennum vinnumarkaði í samræmi við ákvæði kjarasamninga Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins frá því í janúar 2016.

  Kjarasamningur ASÍ og SA frá 1. janúar 2016

 • Hvernig er tilgreind séreign frábrugðin "venjulegum" séreignarsparnaði

  • Tilgreinda séreign má byrja að taka út fimm árum fyrir hefðbundinn lífeyristökualdur. Annan séreignarsparnað má taka út þegar sextugsaldri er náð.
  • Tilgreinda séreign er ekki unnt að nota til að safna skattfrjálst til húsnæðiskaupa eða til að greiða skattfrjálst niður húsnæðislán.
  • Tilgreind séreign er erfanleg líkt og annar séreignarsparnaður
  • Í báðum tilfellum geta sjóðfélagar valið ávöxtunarleiðir

   

 • Hefur tilgreind séreign áhrif á örorku- og makalífeyri?

  Já. Með ráðstöfun iðgjalds í tilgreinda séreign ávinnst ekki, hvað þau iðgjöld snertir, réttur til ævilangs ellilífeyris, né örorku- og makalífeyris með framreikningi.