Erfiður hjalli að minnka við sig húsnæði

Erfiður hjalli að minnka við sig húsnæði

Erfiður hjalli að minnka við sig húsnæði

„Ég verð óþægilega oft var við að fólk veit lítið um lífeyrisréttindi sín og stöðu þegar starfsferli lýkur. Sömuleiðis skynja ég að margir á síðari hluta æviskeiðs geta ekki minnkað við sig húsnæði með eðlilegum hætti. Fólk sem vill til dæmis fara úr 250 fermetra einbýlishúsi í 130-150 fermetra einbýlishús gerir það ekki svo glatt. Framboð af slíkum húsum er sáralítið.“

Ari Skúlason, hagfræðingur í Landsbankanum, er virkur í greinaskrifum um lífeyrismál í víðu samhengi og fjallaði líka um ýmislegt tengt lífeyriskerfinu, öldrun og eldri borgurum í erindi á ársfundi Landssamtaka lífeyrissjóða á dögunum. Hann er formaður Félags starfsmanna Landsbankans á Íslandi og varaformaður Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja – SSF.

„Sú vísa verður ekki of oft kveðin að fólk eigi að hyggja að lífeyrisréttindum sínum löngu áður en kemur að starfslokum og upphafi eftirlaunaskeiðs. Fólk vinnur og vinnur og gefur sér ekki tíma til að spá í eftirlaunin eða treystir því að lífeyriskerfið annist bærilega um það þegar þar að kemur. Oft átta menn sig of seint á því að þeir hefðu átt að haga lífeyrismálum á annan veg en þeir gerðu.“

Kjarabætur vel varðveitt leyndarmál!

Ari bendir á að Íslendingar hafi á ýmsan hátt sérstöðu meðal þjóða, til dæmis með því að fara fyrr út á vinnumarkað og hætta síðar en aðrir. Atvinnuþátttaka 65 ára Íslendinga og eldri sé þannig næstum því tvöföld miðað við grannþjóðir.

„Við viljum vinna lengi fram eftir ævi. Stundum er það talið beinlínis nauðsynlegt til að afla tekna en í öðrum tilvikum vill fólk einfaldlega vinna lengur og kærir sig ekki um að hætta.

Lægstu laun á vinnumarkaði eru sígild viðfangsefni verkalýðsfélaga og kjarasamninga og hafa lengi verið. Þegar ég var hagfræðingur Alþýðusambands Íslands varpaði ég oft fram áleitinni spurningu: Vinna Íslendingar svona mikið af því kaupið er lágt eða er kaupið svona lágt af því við vinnum mikið?

 Spurningin er vissulega góð en ég hef ekki einhlítt svar við henni nú frekar en þá.

 Í framhjáhlaupi get ég ekki látið hjá líða að nefna að því var réttilega hampað á árunum eftir efnahagshrunið að þrátt fyrir allt hefði tekist að verja kjör láglaunafólks á Íslandi. Þetta er staðreynd en er vel varðveitt leyndarmál núna af því hún passar ekki í kjaramálaumræðu dagsins.

Undanfarin 5-6 ár hafa kjör á Íslandi reyndar batnað meira en dæmi eru um áður og hlutfallslega mest hjá láglaunahópum. Það er eins og megi ekki viðurkenna þá staðreynd í umræðunni.

 Enn vil ég nefna að ráðstöfunartekjur elstu hópanna hafa hækkað meira en meðaltal allra á tímabilinu 1990-2016. Ráðstöfunartekjur 65-69 ára hækkuðu um 18% umfram meðaltal og ráðstöfunartekjur 70-74 ára hækkuðu um 12% umfram meðaltal. Þarna gætir líklega aðallega áhrifa sterkara lífeyriskerfis.“

Ríkið sleppur vel

Ari Skúlason segir það sláandi hve opinber eftirlaun á Íslandi séu lág ef miðað er við önnur OECD-ríki. Lífeyrissjóðakerfið sé vissulega sterkt og hlutfallslega sambærilegt við Norska olíusjóðinn að stærð í hagkerfinu.

„Hins vegar sleppur hið opinbera á Íslandi tiltölulega vel og stendur ekki undir lífeyrisgreiðslum eins og gerist í grannríkjum. Mér sýnist ríkið nota lífeyrissjóðina sem stuðpúða fyrir opinber eftirlaun og hérlendis eru auk heldur miklar tengingar með tekjuskerðingu, sem gerir eldri borgurum erfiðara fyrir á vinnumarkaði en þyrfti að vera og æskilegt væri. Það bitnar ómaklega á lífeyrissjóðum í umræðunni þegar fólk sem greiðir í þá alla ævi fær kannski ekki meira úr þeim á efri árum en þeir sem lítið sem ekkert hafa greitt í lífeyrissjóði um dagana.

Byrði íslenska ríkisins vegna eftirlauna var einungis um 2% af vergri landsframleiðslu árið 2011 en er víða annars staðar í Evrópu 10-15% á sama tíma og enn hærra hlutfall á Ítalíu eða um 16%.“ 

Sjá ennfremur glærur Ara Skúlason frá aðalfundi Landssamtaka lífeyrissjóða 29. maí 2018

Lífeyrismál.is leitast við að varpa ljósi á lífeyrismálin