„Fyrirsætur lífeyrissjóðanna“ fá liðsauka

„Fyrirsætur lífeyrissjóðanna“ fá liðsauka

„Fyrirsætur lífeyrissjóðanna“ fá liðsauka

Nýjar ljósmyndir af „andlitum lífeyrissjóðanna“ eru kynntar til sögu hér á vefnum Lífeyrismál.is í sumar og verða áberandi í kynningarstarfsemi á vegum Landssamtaka lífeyrissjóða á næstu misserum. Konurnar þrjár eru kunnuglegar en nú hefur karlmaður bæst í fyrirsætuhópinn.

Ósk Sigurðardóttir, Sigurður Sigurðsson, Jóhann Ósk Sigfúsdóttir og Sunneva Líf Albertsdóttir

Myndir af konunum þremur birtust fyrst á Lífeyrismál.is þegar vefurinn var opnaður snemma árs 2017.

    •  Jóhanna Ósk Sigfúsdóttir er „amman“ í hópnum. Hún er sjúkraliði  á eftirlaunum og starfaði síðast á Landspítala-Háskólasjúkrahúsi.
    • Ósk Sigurðardóttir er „mamman“ í hópnum, iðjuþjálfi og verkefnisstjóri á Landspítala-Háskólasjúkrahúsi. Hún er dóttir Jóhönnu Óskar.
    • Sunneva Líf Albertsdóttir er „barnabarnið“ í hópnum. Hún útskrifaðist frá Menntaskólanum í Hamrahlíð í desember 2017, starfaði síðan sem stuðningsfulltrúi og á hjúkrunarheimili í vor, ferðast mikið í sumar og byrjar í grunnnámi í sálfræði í Háskóla Íslands í haust. Hún er ekkert skyld mæðgunum Ósk og Jóhönnu Ósk en margir telja hins vegar ótvíræðan ættarsvip með þeim þremur. Sé svo er það bara hrein tilviljun!
    • Sigurður Sigurðsson er nýr í hópnum, eiginmaður Jóhönnu Óskar og faðir Óskar – í raun og veru.

Unnur Valdís Kristjánsdóttir, hönnuður og annar tveggja eigenda hönnunarfyrirtækisins Leynivopnsins, er hugmyndafræðingur verkefnisins og stjórnaði myndatökum:

„Við sýnum áfram þrjár kynslóðir kvenna en nú bætist við karlmaður. Það styrkir heildarmyndina sem við viljum sýna. Núna höfum við léttara yfirbragð í myndaröðinni en í fyrra skiptið. Inntakið í því sem við sýnum er falleg náttúra, útivist og samvera fólks. Kjarni máls er hlýja og nánd.“

Netagerðamaður gerist fyrirsæta

Sigurður Sigurðsson er netagerðarmaður á eftirlaunum og rak eigið fyrirtæki, Netagerðina Sigurð ehf. Hann starfaði við iðn sína í Ólafsvík og síðar í Hafnarfirði og vann meðal annars mikið fyrir útgerðarfyrirtækin Samherja og Stálskip.

Hjónin Guðrún Lárusdóttir og Ágúst Sigurðsson stofnuðu Stálskip í Hafnarfirði 1970 og gerðu út frystitogarann Þór. Ágúst og Sigurður eru bræður.

Guðrún og Ágúst hættu útgerðarrekstri 2014 og um svipað leyti ákvað Sigurður að fara á eftirlaun. Og nú er hann skyndilega orðinn ljósmyndafyrirsæta!

„Ég sló til og sé ekki eftir því. Auðvitað hafði ég aldrei tekið þátt í svona löguðu áður en verkefnið var í raun mjög einfalt. Að því stóð fagfólk sem leiðbeindi mjög vel og passaði upp á okkur fyrirsæturnar.

Myndirnar voru teknar í Hveragerði og í roki og kulda við Suðurströndina. Sumar voru teknar með dróna og við máttum ekki gjóa augum á suðandi tækið yfir okkur meðan ljósmyndarinn „skaut“ á okkur. Því hlýddi ég en mér varð nú samt ábyggilega á að líta til himins af og til!

Bæði var skemmtilegt og fróðlegt að taka þátt í þessu og kynnast því hve mikið umsjónarfólkið lagði á sig til að ná þeim árangri sem það sóttist eftir.“