Tilgangur, hlutverk og saga

Tilgangur lífeyrissjóða:

Að tryggja sjóðfélögum ellilífeyri til æviloka og verja þá og fjölskyldur þeirra fyrir tekjumissi vegna örorku og andláts með því að greiða áfallalífeyri (örorku-, maka- og barnalífeyri).

Hlutverk lífeyrissjóða:

Að taka við iðgjöldum sjóðfélaga, ávaxta þau og greiða lífeyri.

Saga lífeyrissjóðakerfisins í fáum línum

Heimildir benda til þess að fyrsta vísinn að lífeyrissjóðum á Íslandi  sé að finna í tilskipun frá árinu 1851. Í 1. gr. þessarar tilskipunar segir m.a.:

„Sérhver sá, er konungur hefur gert að embættismanni og launaður er af sjóði ríkisins, á rétt á að fá eftirlaun eftir lagaboði þessu, þegar honum er veitt lausn frá embætti fyrir aldurs sakir eða heilsulasleika eða annarra orsaka vegna, sem honum er ósjálfrátt.“

Tilskipun þessi varð þó ekki að lögum fyrr en í maí 1855.

Árið 1904 voru sett lög um skyldu embættismanna til að safna sér ellistyrk eða kaupa sér geymdan lífeyri. Við söfnun á ellistyrk skyldi embættismaður verja árlega 2% af launum sínum en við kaup á geymdum lífeyri skyldi embættismaður hins vegar leggja til 1,33% af launum sínum. Ef hins vegar kaupandi lífeyris andaðist áður en til lífeyrisgreiðslna kæmi, tapaðist allur lífeyririnn. Á sama tíma voru sett lög um eftirlaun sem tryggðu embættismönnum eftirlaun úr landssjóði.

Fyrsti eiginlegi lífeyrissjóðurinn varð til með lögum nr. 72/1919 um stofnun lífeyrissjóðs fyrir embættismenn. Samkvæmt lögunum var embættismönnum skylt að ráðstafa 5% af launum sínum til sjóðsins. Þessi sjóður var forveri þess sem heitir í dag Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins og var stofnaður með lögum frá Alþingi árið 1943.

Árið 1921 voru sett lög um tekju- og eignaskatt með ákvæði um skattfrelsi iðgjalda til lífeyrissjóða. Lífeyrissjóður embættismanna og ekkna þeirra var stofnaður þetta ár sem og Lífeyrissjóður barnakennara. Í kjölfarið fylgdu fleiri sjóðir, bæði í opinbera- og einkageiranum. Nokkur fyrirtæki komu á fót sjóðum fyrir starfsmenn sína því þrátt fyrir Alþýðutryggingarlögin (1936) þótti ellilífeyrinn samkvæmt þeim svo lágur og jafnaðist engan veginn á við lífeyri embættismanna, að ástæða þótti til að stofna til lífeyrissjóða sem greiddu lífeyri til viðbótar ellilífeyri þeirra.

Á árinu 1943 var stigið stórt skref í lífeyrismálum opinberra starfsmanna þegar lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins var stofnaður með lögum frá Alþingi. Lífeyrissjóðirnir voru orðnir 15 talsins þegar lög um almannatryggingar voru sett árið 1946. Í sjóðunum voru starfsmenn ríkisins og starfsmenn nokkurra bæjarfélaga, banka og stærri fyrirtækja í samvinnu- eða einkarekstri. Um almenna þátttöku verkafólks innan ASÍ að lífeyrissjóðum var hins vegar ekki að ræða.

Grundvöll núverandi lífeyrissjóðakerfis má rekja aftur til ársins 1969 þegar samið var um það í allsherjar kjarasamningum á vinnumarkaði að setja upp atvinnutengda lífeyrissjóði með skylduaðild og fullri sjóðsöfnun frá byrjun árs 1970.

Árið 1974 voru sett lög á grundvelli þessara samninga sem skylduðu alla launamenn og atvinnurekendur þeirra til að greiða a.m.k. 10% af iðgjöldum til lögbundinna eða viðurkenndra lífeyrissjóða. Með lögum frá 1980 náði þessi skylda einnig yfir sjálfstætt starfandi einstaklinga. 1986 var síðan samið um að greidd væru iðgjöld af öllum launum, ekki aðeins af dagvinnulaunum.

Árið 1997 voru sett ný og ítarlegri  lög um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða og lög um frjálsan séreignarlífeyrissparnað samþykkt árið síðar eða 1998.  Með þessum lögum hófst nýr kafli í sögu lífeyrismála á Íslandi.