Landssamtök lífeyrissjóða

Landssamtök lífeyrissjóða

Landssamtökin eru heildarsamtök lífeyrissjóða sem hlotið hafa starfsleyfi samkvæmt lögum nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða eða starfa samkvæmt sérlögum um lífeyrissjóði. Landssamtökin hafa innan vébanda sinna 20 lífeyrissjóði. 

Stærstu lífeyrissjóðir í Landssamtökum lífeyrissjóða miðað við hlutfall skiptingar heildareigna eru: Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, Lífeyrissjóður verzlunarmanna, Gildi-lífeyrissjóður, Birta lífeyrissjóður, Frjálsi lífeyrissjóðurinn og Almenni lífeyrissjóðurinn.

Hlutverk Landssamtaka lífeyrissjóða er að:

  • Gæta í hvívetna hagsmuna sjóðfélaga.
  • Vera málsvari gagnvart stjórnvöldum og öðrum í öllu sem varðað getur sameiginlega hagsmuni aðildarsjóðanna.
  • Hafa frumkvæði í þjóðmálaumræðu um málefni sjóðanna og lífeyrismál og stuðla að jákvæðri ímynd þeirra.
  • Vinna að útgáfu- og fræðslumálum lífeyrissjóða svo sem með námskeiðum og fræðslufundum, skýrslugerð og annarri þjónustu við lífeyrissjóði og sjóðfélaga.
  • Stuðla að hagræðingu og þróun í starfi aðildarsjóðanna.
  • Fylgjast með þróun lífeyrismála erlendis og taka þátt í alþjóðlegu samstarfi samtaka lífeyrissjóða.
  • Vinna að sérgreindum verkefnum fyrir einstaka lífeyrissjóði innan samtakanna, samkvæmt nánari ákvörðun stjórnar þeirra, enda standi slík starfsemi fjárhagslega undir sér og sé samrýmanleg markmiðum þeirra og tilgangi.

Starfsemi Landssamtaka lífeyrissjóða

Á vegum LL starfa fimm fastanefndir, Nefnd um fjárfestingarumhverfi lífeyrissjóða, Réttindanefnd, Samskiptanefnd, Fræðslunefnd, Áhættunefnd. Enn fremur er að störfum Úrskurðar- og umsagnarnefnd. Mikið starf er unnið innan og á vegum fastanefndanna en á vegum þeirra eru einnig nokkrir undirhópar starfandi um einstök tímabundin verkefni.