Landssamtökin eru heildarsamtök lífeyrissjóða sem hlotið hafa starfsleyfi samkvæmt lögum nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða eða starfa samkvæmt sérlögum um lífeyrissjóði.
Landssamtökin hafa innan vébanda sinna 21 lífeyrissjóð sem í voru um 224 þúsund greiðandi sjóðfélagar í lok árs 2019. Allir lífeyrissjóðir landsins eru aðilar að samtökunum.
Eignir lífeyrissjóða í Landssamtökum lífeyrissjóða voru um 5.715 milljarðar króna í lok árs 2020.
Stærstu lífeyrissjóðir í Landssamtökum lífeyrissjóða miðað við hlutfall skiptingar heildareigna eru: Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, Lífeyrissjóður verzlunarmanna, Gildi-lífeyrissjóður, Birta lífeyrissjóður, Frjálsi lífeyrissjóðurinn og Almenni lífeyrissjóðurinn.
Á vegum LL starfa fimm fastanefndir, Nefnd um fjárfestingarumhverfi lífeyrissjóða, Réttindanefnd, Samskiptanefnd, Fræðslunefnd, Áhættunefnd. Enn fremur er að störfum Úrskurðar- og umsagnarnefnd. Mikið starf er unnið innan og á vegum fastanefndanna en á vegum þeirra eru einnig nokkrir undirhópar starfandi um einstök tímabundin verkefni.