Lífeyrissjóðir stuðla að því að lækka langtímavexti

Lífeyrissjóðir stuðla að því að lækka langtímavexti

Lífeyrissjóðir stuðla að því að lækka langtímavexti

Því er oft haldið fram að vegna ávöxtunarviðmiðs lífeyrissjóðanna séu vextir háir á Íslandi. Fullyrt er að lífeyrissjóðirnir forðist að fjárfesta í skuldabréfum á lægri ávöxtunarkröfu og því geti vextir treglega lækkað niður fyrir viðmiðið. Sumir ganga jafnvel svo langt að tala um lögbundna ávöxtun sjóðanna sem geri sjóðunum erfitt fyrir eða ómögulegt að kaupa skuldabréf á lægri kröfu eða með lægri vöxtum.

Núvirðingarprósenta lífeyrissjóða, 3,5%, sem notuð er til að núvirða eignir og skuldir í tryggingafræðilegum uppgjörum er ekki krafa um raunávöxtun. Núvirðingarprósentan er tilgáta um hvaða raunávöxtun er líklegast að sjóðirnir nái um langa framtíð, byggt á sögulegri ávöxtun á alþjóðlegum verðbréfamörkuðum.

Lífeyrisréttindi sem sjóðfélagar ávinna sér fyrir greidd iðgjöld eru reiknuð miðað við 3,5% raunávöxtun. Ef langtímaávöxtun verður lægri þarf að skerða réttindin en auka þau ef ávöxtun verður betri en 3,5%. Frá árinu 1981 hefur meðalraunávöxtun sjóðanna verið 4,5% á ári. Réttindin hafa hins vegar ekki verið aukin að ráði vegna þess að meðalævi landsmanna hefur lengst á sama tíma sem eykur skuldbindingar sjóðanna.

Ávöxtun lífeyrissjóða hverju sinni ræðst af eignum sjóðanna svo sem skuldabréfum, hlutabréfum og innlánum. Sjóðirnir kaupa skuldabréf á markaði og ræðst kaupkrafa af framboði og eftirspurn. Ávöxtunarkrafa á löngum ríkisskuldabréfum hefur á liðnum árum lækkað töluvert og er nú á bilinu 2,09%-2,40% eða nokkru lægri en núvirðingarstuðull lífeyrissjóða. Skýringin er fyrst og fremst sú að eftirspurn hefur verið meiri en framboð og því hafa vextir á markaði lækkað.

Lífeyrissjóðirnir eru uppspretta langtímasparnaðar sem hefur mjög jákvæð áhrif á efnahagslífið. Sjóðirnir fjármagna til að mynda flest húsnæðislán á Íslandi. Með tilkomu þeirra breyttist lánamarkaður þannig að allir sem hafa greiðslugetu geta eignast þak yfir höfuðið með lántöku en ekki fáir útvaldir eins og áður var.

Því fer víðs fjarri að lífeyrissjóðir haldi uppi vöxtum vegna núvirðingarstuðuls í tryggingafræðilegum uppgjörum. Þvert á móti hafa sjóðirnir gegnt lykilhlutverki í að efla sparnað og stuðla að lækkun langtímavaxta á markaði með kaupum á markaðsskuldabréfum og lánum til sjóðfélaga. Það sést best þegar kjör á lánum til húsnæðiskaupa eru borin saman. Vextir sem lífeyrissjóðirnir bjóða sínum sjóðfélögum á slíkum lánum eru þeir lægstu á markaðinum í dag.