Samþykktir

Samþykktir á PDF

Samþykktir

Landssamtaka lífeyrissjóða

1. gr.
Heiti og heimili

Samtökin heita Landssamtök lífeyrissjóða, skammstafað LL.
Heimili þeirra, skrifstofa og varnarþing er í Reykjavík.
Heiti samtakanna á ensku er „Icelandic Pension Funds Association“.

2. gr.
Aðild

Aðild að samtökunum geta átt lífeyrissjóðir, sem hlotið hafa starfsleyfi samkvæmt
lögum nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða eða starfa samkvæmt sérlögum um lífeyrissjóði.

Lífeyrissjóður sem óskar eftir aðild að samtökunum skal senda skriflega umsókn
þess efnis til stjórnar. Með umsókn skulu fylgja starfsleyfi og samþykktir sjóðsins.

Stjórn samtakanna skal á næsta stjórnarfundi eftir móttöku umsóknar taka afstöðu til hennar og tilkynna umsækjanda ákvörðun sína skriflega. Lífeyrissjóður telst fullgildur aðili að samtökunum frá þeim degi sem stjórn samtakanna hefur samþykkt aðildarbeiðnina. Sé umsókn synjað skal slík ákvörðun stjórnar rökstudd.

3. gr.
Úrsögn

Heimilt er að segja sig úr samtökunum með skriflegri tilkynningu til stjórnar
með a.m.k. 6 mánaða fyrirvara og tekur úrsögnin þá gildi frá næstu áramótum. Úrsögn telst því aðeins gild að hún hafi verið samþykkt í stjórn hlutaðeigandi lífeyrissjóðs.

Úrsögn leysir ekki lífeyrissjóð undan greiðslu árgjalds eða annarra skuldbindinga
sem á sjóðnum kunna að hvíla.

4. gr.
Hlutverk

Hlutverk samtakanna er að:

a)

Gæta í hvívetna hagsmuna sjóðfélaga þeirra lífeyrissjóða, sem aðild eiga að samtökunum.

b)

Vera málsvari lífeyrissjóðanna í þeim málum, sem varða heildarhagsmuni þeirra og koma á framfæri sjónarmiðum samtakanna við stjórnvöld og aðra aðila í öllum meiriháttar málum  sem varðað geta sameiginlega hagsmuni aðildarsjóðanna.

c)

Hafa frumkvæði í almennri umræðu um málefni sjóðanna og um lífeyrismál og stuðla að jákvæðri ímynd þeirra.

d)

Stuðla að hagræðingu og þróun í starfi aðildarsjóðanna.

e)

Fylgjast með þróun lífeyrismála erlendis og taka þátt í alþjóðlegu samstarfi lífeyrissjóðasamtaka.

f)

Vinna að sérgreindum verkefnum fyrir einstaka lífeyrissjóði innan samtakanna, samkvæmt nánari ákvörðun stjórnar samtakanna, enda standi slík starfsemi fjárhagslega undir sér og  sé samrýmanleg markmiðum þess og tilgangi.

 

5. gr.
Aðalfundur

Aðalfundur fer með æðsta vald í málefnum samtakanna. Hann skal haldinn fyrir lok
maí ár hvert.

Aðalfundur skal boðaður af stjórn bréflega til aðildarsjóða eða með öðrum
sannanlegum hætti með a.m.k. mánaðar fyrirvara. Fundarboð skal jafnframt birt
á heimasíðu samtakanna.

Löglega boðaður aðalfundur telst lögmætur óháð fundarsókn.

Á aðalfundi skulu eftirtalin mál tekin fyrir:

  1. Skýrsla stjórnar fyrir liðið starfsár.
  2. Staðfesting ársreiknings.
  3. Breytingar á samþykktum samtakanna.
  4. Kjör stjórnar.
  5. Kjör löggilts endurskoðanda eða endurskoðunarstofu.
  6. Ákvörðun um þóknun stjórnar.
  7. Fjárhagsáætlun næsta starfsárs.
  8. Ákvörðun árgjalds. sbr. 11. gr.
  9. Önnur mál.

Rétt til setu á aðalfundi með málfrelsi og tillögurétt eiga stjórn, framkvæmdastjórar
og lykilstarfsmenn aðildarsjóða auk starfsmanna LL. Stjórn samtakanna er heimilt að bjóða öðrum fundarsetu.

6. gr.
Afgreiðsla mála

Á aðalfundum ræður einfaldur meirihluti atkvæða nema annað sé tekið fram í
samþykktum þessum. Hver aðildarssjóður fer með eitt atkvæði. Þó getur
lífeyrissjóður farið fram á það við fundarstjóra að atkvæðamagn hvers lífeyrissjóðs í
atkvæðagreiðslu á fundum samtakanna skuli að hundraðshluta vera hið sama og
hlutfallsleg skipting inngreiddra árgjalda aðildarsjóða til samtakanna á síðasta
almanaksári.

7. gr.
Stjórn

Stjórn samtakanna skal skipuð 9 mönnum og 3 til vara. Skulu stjórnarmenn kosnir á
aðalfundi samtakanna til tveggja ára í senn, fjórir aðalmenn og einn varamaður
annað árið og fimm aðalmenn og tveir varamenn hitt árið.

Uppstillingarnefnd skal starfrækt sem hefur það hlutverk að gera tillögu til aðalfundar að skipan stjórnar. Í nefndinni sitji fimm fulltrúar til fjögurra ára; einn tilnefndur af Alþýðusambandi Íslands, einn frá samtökum starfsmanna ríkis og/eða sveitarfélaga, einn tilnefndur af Samtökum atvinnulífsins, einn frá launagreiðendum ríkis og/eða sveitarfélaga og einn frá þeim lífeyrissjóðum sem skilgreina hluta skylduiðgjalds í séreign.

Uppstillingarnefnd skal starfa í samræmi við starfsreglur sem settar eru af stjórn og
staðfestar af aðalfundi. Skal uppstillingarnefnd við tillögugerð sína hafa það að
markmiði að stjórnin endurspegli fjölbreytileika þeirra sjóða sem aðild eiga að
landssamtökunum. Skulu fulltrúar í stjórn vera af báðum kynjum og koma úr röðum
ólíkra sjóða, frá höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni, úr röðum
framkvæmdastjóra lífeyrissjóða og stjórnarmanna, bæði fulltrúa launþega og
atvinnurekenda. Skal rökstudd tillaga uppstillingarnefndar liggja fyrir eigi síðar en
mánuði fyrir aðalfund samtakanna.

Verði breyting á starfsvettvangi stjórnarmanns á kjörtíma hans sem áhrif hefur á
umboð hans sem stjórnarmanns í samtökunum skal hann að jafnaði sitja áfram sem stjórnarmaður fram að næsta aðalfundi samtakanna nema eitthvað mæli sérstaklega gegn því. Komi til þessa ber á næsta aðalfundi að kjósa stjórnarmann í hans stað sé
kjörtími hans þá eigi að fullu liðinn. Óski stjórnarmaður hins vegar eftir því að láta þá þegar af stjórnarsetu og skemmri tími en fjórir mánuðir eru til næsta aðalfundar skal varamaður boðaður í hans stað. Sé lengri tími en fjórir mánuðir til næsta aðalfundar skal boða til aukaaðalfundar þar sem kosinn skal stjórnarmaður í stað viðkomandi. Líta ber til ákvæða 5. gr. við boðun aukaaðalfundar eftir því sem við á.

8. gr.
Verkefni stjórnar

Stjórn samtakanna fer með æðsta vald í málefnum þeirra milli aðalfunda. Hún
undirbýr aðalfund. Stjórnin skiptir með sér verkum og kýs sér formann og
varaformann til eins árs í senn. Stjórnarmaður skal almennt ekki samfellt gegna
formennsku eða varaformennsku lengur en fjögur ár.

Formaður boðar til stjórnarfunda. Skylt er að halda stjórnarfund þegar tveir eða fleiri stjórnarmenn óska. Stjórnarfundir eru lögmætir ef mættir eru meirihluti stjórnarmanna eða varamenn í þeirra stað. Tilkynni aðalmaður forföll skal varamaður að jafnaði boðaður í hans stað. Boða skal varamenn í þeirri röð sem þeir voru kjörnir. Fjarþátttaka einstakra stjórnarmanna á stjórnarfundum er heimil með samþykki stjórnar.

Framkvæmdastjóri heldur fundargerð um stjórnarfundi, sem staðfest skal af stjórn.

9. gr.
Framkvæmdastjóri

Stjórnin ræður framkvæmdastjóra, ákveður laun hans og önnur starfskjör og setur
honum starfsreglur. Framkvæmdastjóri annast daglegan rekstur samtakanna og fer
í því efni eftir þeirri stefnu og fyrirmælum sem stjórn samtakanna hefur gefið.

Undirskrift framkvæmdastjóra bindur samtökin að því er varðar daglegan rekstur.

Framkvæmdastjórinn er ekki kjörgengur í stjórn en hefur rétt til setu á öllum fundum samtakanna með málfrelsi og tillögurétt.

10. gr.
Nefndir og vinnuhópar

Stjórn samtakanna skal eftir því sem þurfa þykir skipa nefndir til að vinna að ýmsum
sameiginlegum málefnum aðildarsjóðanna.Nefndirnar skulu að jafnaði skipaðar 5
starfsmönnum aðildarsjóðanna og skal stefnt að því að hver stjórnarmaður
samtakanna eigi sæti í a.m.k. einni nefnd.

Eftirfarandi fastanefndir skulu skipaðar af stjórn með erindisbréfi til eins árs í senn og skal einn skipaður formaður. Að öðru leyti skipta nefndirnar með sér verkum.

  1. Nefnd um fjárfestingarumhverfi lífeyrissjóða.
  2. Réttindanefnd.
  3. Samskiptanefnd.
  4. Fræðslunefnd.
  5. Áhættunefnd.

Framkvæmdastjóri skal í samráði við formann stjórnar samtakanna mynda
vinnuhópa, eftir því sem þurfa þykir, til að annast tímabundin verkefni er varða
hagsmuni aðildarsjóðanna og þarfnast sérstakrar úrvinnslu.

11. gr.
Fjárhagsáætlun og árgjald

Stjórn samtakanna skal afgreiða fjárhagsáætlun ársins.

Aðildarsjóðir skulu greiða árgjald sem ákveðið er á aðalfundi samtakanna. Gjaldinu
skal skipt upp í annars vegar fast gjald og hins vegarbreytilegt sem tekur mið af
hundraðshluta heildareigna sjóðanna í samtryggingu og séreign samkvæmt síðustu
birtu ársreikningaskrá Fjármálaeftirlitsins.

Gjalddagi árgjalds er 1. júní ár hvert.

Skrifstofu samtakanna er heimilt að krefja aðildarsjóði um greiðslu kostnaðar vegna sérverkefna sem unnin eru og varða hagsmuni viðkomandi sjóða. Stjórn samtakanna ákveður skiptingu slíks kostnaðar milli sjóðanna.

12.gr.
Ársreikningur og endurskoðun

Reikningsár samtakanna er almanaksárið. Stjórn skal láta semja ársreikning fyrir
hvert almanaksár.

13. gr.
Breytingar á samþykktum

Breytingar á samþykktum þessum er einungis unnt að gera á aðalfundi. Stjórn
lífeyrissjóðs, sem óskar eftir að bera fram tillögur til breytinga á samþykktum, skulu
senda þær stjórn samtakanna eigi síðar en í marslok. Tillögur um breytingar á
samþykktum, skulu sendar aðildarsjóðum samtakanna með fundarboði.

Breyting á samþykktum þarf samþykki 2/3 hluta greiddra atkvæða til þess að þær nái fram að ganga.

14. gr.
Slit samtakanna

Ákvörðun um slit samtakanna skal tekin á aðalfundi og þarf slík ákvörðun 2/3 hluta
greiddra atkvæða til þess að öðlast gildi, enda hafi tillögu þar að lútandi verið getið í
fundarboði sem um samþykktarbreytingu væri að ræða. Ákveði aðalfundur að slíta
samtökunum skal fundurinn jafnframt ráðstafa eignum þeirra og skuldum.

Bráðabirgðaákvæði við 7. gr.
Kjörtími stjórnar helst og verða því á aðalfundi árið 2022 þrír aðalmenn og einn
varamaður í kjöri til tveggja ára. Á aðalfundi árið 2023 verða í kjöri þrír aðalmenn og
einn varamaður til tveggja ára. Á aðalfundi 2024 verða í kjöri fimm aðalmenn til
tveggja ára og einn til eins árs auk tveggja varamanna til tveggja ára.

Samþykkt á aðalfundi Landssamtaka lífeyrissjóða þann 30. maí 2023.