Einyrkjar hafa meira frelsi en launafólk

Einyrkjar hafa meira frelsi en launafólk

Einyrkjar hafa meira frelsi en launafólk

Einyrkjar (sjálfstætt starfandi fólk) hafa mun meira val en launþegar um að velja sér lífeyrissjóð og hve mikið þeir greiða í lífeyrissjóð.

Hver er réttindastaða einyrkja gagnvart lífeyrissjóðum og hvernig er hún frábrugðin stöðu launamanns?

Hér er leitast við að svara því og meðal annars byggt á samtali við Arnald Loftsson, framkvæmdastjóra Frjálsa lífeyrissjóðsins. Hann segir að einyrkjar hafi tilhneigingu til þess að reikna sér lág laun. Þess vegna séu lífeyrisréttindi þeirra í mörgum tilvikum lægri og tryggingaverndin minni en æskilegt sé.

  • Einstaklingar í rekstri eru stór hópur í samfélaginu, alls um 18.200 á árinu 2016 samkvæmt upplýsingum frá embætti ríkisskattstjóra.  
  • Ríkisskattstjóri skilgreinir/afmarkar einyrkja þannig í kerfinu hjá sér að þeir skili jafnan rekstrarskýrslu (RSK 4.11) eða rekstraryfirliti (RSK 4.10). Hópnum er svo skipt upp í tvennt: rekstur með virðisaukaskatti eða án virðisaukaskatts.

Tölfræðilegar líkur eru á að í þessum hópi sé fjöldi einyrkja, sem alls eru yfir 18 þúsund á Íslandi í dag.

Einyrkjar hafa val um lífeyrissjóði

„Við ráðleggjum einyrkjum að afla sér upplýsinga um mismunandi uppbyggingu og réttindaávinnslu lífeyrissjóða og velja sér sjóði út frá því,“ segir Arnaldur Loftssson.

„Fyrir fólk sem komið er yfir fertugt getur verið hagstæðara að greiða áfram í sjóði þar sem hluta skylduiðgjalds er ráðstafað í jafna réttindaávinnslu, ef það er í slíku kerfi fyrir, heldur en að fara í sjóð með aldurstengda réttindaávinnslu.

Í jafnri ávinnslu skilar hver króna iðgjalds sömu réttindum óháð því hvenær á starfsævinni hún er greidd, þ.e. réttindaávinnslan er jöfn allan tímann. Aftur á móti er réttindaávinnslan mismunandi eftir aldri í aldurstengdu kerfi. Því yngri sem greiðandi sjóðfélagar eru því hærri er réttindaávinnslan, enda eiga iðgjöld yngri sjóðfélaga eftir að ávaxtast lengur en iðgjöld eldri sjóðfélaga“.

Fyrst í stað voru allir samtryggingarsjóðirnir svokölluðu með jafna réttindaávinnslu en á árinu 2005 og 2006 varð sú breyting að þeim sem koma nýir á almennan vinnumarkað stendur ekki annað til boða en aldurstengd réttindaávinnsla í lífeyrissjóðum.

„Ef launamaður gerist einyrki, eftir að hafa verið á vinnumarkaði í til dæmis 15-20 ár og greitt hluta iðgjalds í jafna réttindaávinnslu, getur verið hagstætt fyrir hann að halda því áfram í sama sjóði eða öðrum þar sem slíkt er í boði. Ef sá hinn sami færi í nýjan lífeyrissjóð, til  dæmis í Frjálsa lífeyrissjóðinn, rynni samtryggingarhluti iðgjalds viðkomandi í aldurstengda réttindaávinnslu og lífeyrisréttindi í samtryggingu yrðu lakari við starfslok en þau hefðu verið með jafnri réttindaávinnslu. Aftur á móti safnar sjóðfélagi í Frjálsa lífeyrissjóðnum stærri hluta iðgjalds í séreign, sem er einkaeign sjóðfélaga, erfist og skapar meiri sveigjanleika við töku lífeyris. Þetta ætti fólk einfaldlega að kanna vel, bera saman kostina og leita líka ráða.“

Lág iðgjöld = lakari lífeyrisréttindi

Býsna oft gerist það að sjálfstæðir atvinnurekendur reka sig á það við starfslok að eftirlaun úr samtryggingarsjóðum eru lakari en búist var við. Nærtæk skýring er sú að reiknuð laun, sjálfur grunnur lífeyrisréttinda, hafi verið of lág yfir starfsævina.

„Þetta er mjög algengt. Sjálfstæðir atvinnurekendur hafa tilhneigingu til að reikna sér lág laun, hvort sem þeir starfa á eigin kennitölu eða hafa einkahlutafélag á bak við sig. Hvatinn til þess er meðal annars til að spara sér tryggingagjald og greiðslur í lífeyrissjóði.“

Ríkisskattstjóri setur árlega reglur um lágmark reiknaðs endurgjalds með hliðsjón af raunverulegum tekjum fyrir sambærileg störf og fleira. Sjá nánar hér.

Tryggingagjald (6,85%) er greitt meðal annars af reiknuðum launum en raunlaun eru í mörgum tilvikum hærri því reksturinn skilar oft hagnaði sem nýtist einyrkjanum sem arður eða beinar tekjur að teknu tilliti til skatta.

„Það er einungis skylda að greiða af reiknuðum launum í lífeyrissjóð og lífeyrisréttindin taka mið af því. Svo virðist sem margir átti sig ekki á þessu.

Sjálfstæðir atvinnurekendur eru eðlilega önnum kafnir við verkefni og starfsemi líðandi stundar en mikilvægt er að þeir hugi einnig að afkomu og öryggi sem lífeyrisgreiðslur tryggja þeim í framtíðinni.“ 

Einyrkjar og skattaleg meðferð lífeyrisiðgjalda

  •  Einyrkjum ber skylda til að greiða 12% af launum í lífeyrissjóð, þar af eru 4% frádráttarbær og lækka staðgreiðslu skatta, rétt eins og gerist hjá launafólki.
  •  Launamaður greiðir 4% af þessum 12% en atvinnurekandi 8%. Einyrkinn greiðir þetta hins vegar allt (4%+8%=12%) og tryggingagjald af 8% mótframlaginu.
  • Einyrkinn greiðir líka tryggingagjald af þeim launum sem hann reiknar sér.
  • Sá sem rekur fyrirtæki á eigin kennitölu getur líkt og launafólk greitt 4% af launum í viðbótarlífeyrissparnað sem dregst frá reiknuðu endurgjaldi og lækkar staðgreiðslu skatta. Hann getur jafnframt látið reksturinn greiða mótframlag, t.d. 2% eins og tíðkast samkvæmt kjarasamningum.
  • Þessum viðbótariðgjöldum 6% (4%+2%) geta sjálfstæðir atvinnurekendur ráðstafað skattfrjálst upp í kaup á íbúðarhúsnæði eða til að greiða inn á húsnæðislánin sín. Almenna úrræðið tekur enda 1. júlí 2023 en ef um fyrstu fasteign er að ræða gildir úrræðið í samfelld 10 ár. 

Einyrkinn getur borgað enn meira í lífeyrissjóð

Einyrkjum er heimilt að greiða enn meira í lífeyrissjóði en að framan greinir, nokkuð sem launafólki stendur almennt ekki til boða. Einyrkjar hafa með öðrum orðum frelsi til að greiða meira í lífeyrissjóði en þeim ber og fá í staðinn aukin lífeyrisréttindi.

Heimilt er að láta reksturinn borga þetta aukna mótframlag en um leið hærra tryggingagjald. Þarna er samt „þak“ því hámarkið er 12% af  launum + 2 milljónir króna á ári. Greiðslur umfram það eru tekjuskattsskyldar.

 – Hvers vegna ætti einyrki að notfæra sér heimild til að borga meira í lífeyrissjóð en launamaður getur gert, Arnaldur?

„Ástæðan er sú að lífeyrisréttindin miðast við reiknuð laun en ekki raunlaun og eru því oft hlutfallslega lág miðað við launamenn. Ég bendi einungis á að heimildin er til staðar en það getur skipt máli hvort fyrirtækið er rekið á eigin kennitölu eða sem einkahlutafélag. Einkahlutafélagið gæti valið að greiða sér meiri arð frekar en að auka við lífeyrissjóðsgreiðslurnar og leggja arðinn í banka eða verðbréfasjóð til að nota á efri árum. Af slíkum sparnaði greiðist ekki tryggingagjald og heldur ekki tekjuskattur við úttekt síðar meir. Af ávöxtun sparnaðarins er einungis greiddur fjármagnstekjuskattur. Það þarf þó að hafa í huga að með því að velja að greiða sér meiri arð til að nota á efri árum í stað þess að fyrirtækið greiðir hærra mótframlag í lífeyrissjóð verður hagnaður félagsins meiri og af hagnaði einkahlutafélaga greiðist 20% skattur og 20% skattur af arði.

Hér kemur vissulega margt fleira til álita. Hafa skal í huga að séreign er ekki aðfararhæf við gjaldþrot og af henni þarf ekki að greiða erfðafjárskatt. Sú séreign sem er tilkomin vegna viðbótarlífeyrissparnaðar hefur ekki áhrif á ellilífeyri frá Tryggingastofnun eins og fjármagnstekjur af almennum sparnaði.

Við ráðleggjum fólki með rekstur í  einkahlutafélögum að leita til endurskoðanda eða skattasérfræðings til að láta annars vegar meta þá kosti að láta félagið borga enn hærra mótframlag eða hins vegar að greiða sér meiri arð og nýta fjármunina í hefðbundinn sparnað fyrir efri árin.

Jafnframt er mikilvægt er að gera sér grein fyrir því að örorkutryggingavernd lífeyrissjóða miðast líka við hlutfall af reiknuðum launum og ef menn reikna sér lág laun er örorkuvernd þeirra lægri en æskilegt er til að verja þá fyrir tekjumissi vegna starfsorkutaps.

Einyrkjar ættu að velta tryggingamálum sínum fyrir sér og kaupa jafnvel viðbótartryggingu hjá tryggingafélögum til að fá sambærilega örorkuvernd og launþegar fyrir sömu raunlaun.“

 – Áttu ráð handa einyrkjum sem mikla fyrir sér pappírsstandið og vilja einfalda tilveruna sem mest?

„Sumir reikna út lífeyrisiðgjöld, senda rafrænar skilagreinar og millifæra greiðslur í lífeyrissjóði frá mánuði til mánaðar. Í stað þess getur verið skynsamlegt að biðja lífeyrissjóðinn um að senda kröfu í netbanka og greiða kröfuna þar eða óska eftir því að viðskiptabanki setji kröfuna í beingreiðslu. Þá minnkar hættan á að iðgjöld verði í vanskilum.

Þetta er einfalt í framkvæmd hjá þeim sem reikna sér sömu laun í hverjum mánuði. Sama upphæð skuldfærist mánaðarlega en þá er nauðsynlegt að endurskoða tölurnar einu sinni eða tvisvar á ári ef reiknuð laun breytast. Það er einfalt að biðja lífeyrissjóðinn að breyta mánaðarlegri kröfu til samræmis.“ 

Kjarasamningsbundin hækkun mótframlags gildir ekki fyrir einyrkja

„Eitt er rétt að nefna sem ég hef oft rekið mig á að er ekki á hreinu. Það er að kjarasamningsbundin hækkun mótframlags launagreiðenda í lífeyrissjóði, úr 8% í 11,5% í þremur áföngum 2016-2018, gildir ekki fyrir sjálfstæða atvinnurekendur. Þeir mega borga meira en alls 12% (4%+8%) og ég mæli með því en þeim ber ekki skylda til þess. Margir einyrkjar halda hins vegar að svo sé. Ég tel þó líklegt að lögum verði breytt innan skamms þannig að sjálfstæðir atvinnurekendur þurfi einnig að greiða 15,5% sem er í samræmi við það markmið að hér verði eitt samræmt lífeyriskerfi fyrir alla starfandi einstaklinga“. 

Boðskapurinn í samandregnu máli

  1.  Sjálfstæðir atvinnurekendur ættu að greiða meira í lífeyrissparnað en 12% af reiknuðum launum.
  2. Viðbótarlífeyrissparnaður er hagstæður, líka fyrir einyrkja! Fjárfestingarleiðirnar eru mismunandi og rétt að fólk hafi í huga aldur sinn og viðhorf til áhættu við val á leið. Almennt er mælt með að þeir sem eldri eru velji áhættuminni leiðir en þeir yngri.
  3. Þeir sem eru með einkahlutafélög á bak við sig og vilja auka við lífeyrissparnaðinn ættu að fá sérfræðinga til liðs við sig til að meta hvort rétt sé að láta reksturinn borga meira í viðbótarlífeyrissparnað eða greiða sér meiri arð og spara fjármunina á hefðbundinn hátt, á bankabókum eða í verðbréfasjóðum. 

Lokaorð Arnaldar: „Skipuleggjum útgreiðslu lífeyrissparnaðar!“

„Viðbótarlífeyrissparnaður er mjög hagstætt sparnaðarform og sjálfstæðir atvinnurekendur ættu að hafa sérstaklega í huga að hann er ekki aðfararhæfur. Það er mikilvægt í ljósi þess að þeim getur verið hættara við að lenda í fjárhagslegum erfiðleikum en launafólki. Það er eðli máls samkvæmt því eigin rekstri fylgir oft fjárhagsleg áhætta.

Með viðbótarlífeyrissparnaði er skattgreiðslum frestað þar til kemur að útgreiðslu.  Skattfrestunin er sérlega hagstæð ef hægt er að nota persónuafsláttinn sinn til fulls til að lækka tekjuskatt við útgreiðslu.

Við getum hugsað okkur sjóðfélaga sem hættir að vinna 65 ára og ákveður að sækja ekki um lífeyri úr samtryggingarsjóðnum sínum fyrr en 67 ára. Hann lifir á viðbótarlífeyrissparnaðinum einum í tvö ár og nýtir persónuafsláttinn að fullu allan þann tíma.

Þannig skiptir miklu máli að spá í hlutina og skipuleggja vel útgreiðslu lífeyrissparnaðar til að stýra skattbyrðinni þannig að fjármunirnir nýtist eigendum sínum sem allra best. Einnig þarf að kanna í hvaða röð á að taka út ellilífeyri í samtryggingu og séreignarsparnaðinn.

Viðbótarlífeyrissparnaðurinn veitir jafnframt fólki svigrúm til að njóta hærri lífeyris fyrstu árin eftir að starfsævi lýkur á meðan heilsan er góð en svo minnkar tekjuþörfin eftir því sem árin færast yfir.“