„Harkaleg tekjutenging lífeyris og lágtekjumiðað samfélag“

„Harkaleg tekjutenging lífeyris og lágtekjumiðað samfélag“

„Harkaleg tekjutenging lífeyris og lágtekjumiðað samfélag“

„Ég tala ekki gegn skerðingum sem slíkum en þeim þarf að beita af skynsemi. Þessar tilteknu skerðingar eru alltof harkalegar og lífeyririnn er þess utan of lágur.“

Harpa Njáls segir þetta um ný lög um almannatryggingar.

Réttindi í almannatryggingum eru skert vegna greiðslna úr lífeyrissjóðum. Tekjutengingin er jafnan ofarlega eða efst á baugi þegar eftirlaunamenn eða foringjar hagsmunasamtaka aldraðra tjá sig í þjóðmálaumræðunni.

Harpa nálgast viðfangsefnið sem fræðimaður og samfélagsrýnir. Hún hefur stundað rannsóknir á velferð og fátækt á Íslandi um árabil, gefið út í bók og skrifað fræðigreinar. Hún skrifar greinar í dagblöð og tjáir sig á opinberum vettvangi. Harpa nam félagsfræði við Háskóla Íslands og lauk MA-gráðu á sviði velferðarrannsókna 2002. Hún talar skýrt og umbúðalaust, vísar stöðugt í gögn og heimildir úr öllum áttum og færir rök fyrir máli sínu.

„Ísland sker sig úr í OECD. Hér ver ríkið minni fjármunum til eftirlauna aldraðra en gerist í öllum OECD ríkjum að teknu tilliti til aldurssamsetningar þjóðarinnar. Tekjutenging lífeyris almannatrygginga er mun meiri en þekkist annars staðar og harðar skerðingar sömuleiðis. 

Í norræna velferðarmódelinu eiga allir rétt á grunnlífeyri en þegar sá þáttur var skorinn burt í íslenska kerfinu var ekki lengur unnt að kenna það við norræna velferð. Okkar kerfi er meira í ætt við það sem tíðkast til dæmis í Bretlandi, Bandaríkjunum og Nýja-Sjálandi.

Breyting á almannatryggingalöggjöfinni tók gildi í ársbyrjun 2017. Þá voru frítekjumörk afnumin, það er að segja frítekjumörk atvinnutekna (109.600 krónur), lífeyrissjóðstekna (27.400 krónur) og fjármagnstekna (8.220 krónur) en eitt almennt frítekjumark lögfest upp á 25.000 krónur, sem gildir fyrir alla þrjá þættina, og skerðingar hertar. Frítekjumörkin voru sett í ársbyrjun 2009, samtals 145.220 krónur, og voru í gildi óbreytt til loka árs 2016.

Ég horfi til þess að almennt frítekjumark hækki samkvæmt launavísitölu frá 2009, verði miðað við 255.000 krónur samkvæmt launavísitölu í ágúst 2017 og gildi fyrir allar tekur umfram ellilífeyri.

Ég segi hiklaust að með nýju almannatryggingalögunum sé gróflega vegið að réttindum fjölda fólks með tekjutengingu lífeyris almannatrygginga. Þar beini ég auðvitað ekki spjótum að Tryggingastofnun ríkisins og starfsmönnum hennar heldur að stjórnvöldum landsins og löggjafanum. Lögunum verður að breyta. Stór hluti tekna eldri borgara landsins er gerður upptækur í ríkissjóð með sköttum og skerðingum. Á tærri íslensku heitir þetta eignaupptaka!

Fólk sem unnið hefur á láglaunavinnumarkaði allt sitt líf hittir á efri árum fyrir lágan lífeyri og harkalegar skerðingar sem gerir aðstæður þess nánast vonlausar. Þetta fólk er hneppt í fátækt.“

Skerðing í hnotskurn

Útreikningarnir í töflunni eiga við um eldri borgara sem býr einn og fær ellilífeyri (228.734 krónur) og heimilisuppbót (52.316 krónur). Skerðingin er 56,9%. Hjón fá ekki heimilisuppbót, þ.e. lægri lífeyri. Hvor aðili fær ellilífeyri (228.734 krónur) Skerðing er 45%. 

 „Lágtekjumiðað samfélag“

Barnabætur voru hugsaðar sem stuðningur við börn og allir fá barnabætur annars staðar á Norðurlöndum. Á Íslandi eru skerðingarmörkin hins vegar mjög lág og hafa verið svo til fjölda ára. Harpa komst að þeirri niðurstöðu 2001 að einungis 3,3% hjóna fengju óskertar barnabætur og 11,4% einstæðra foreldra.

„Ég fékk Þjóðhagsstofnun til að gera útreikninga fyrir mig í fátæktarrannsókninni forðum samkvæmt módeli um lágmarksframfærslu sem ég setti fram og byggt var á framfærsluþáttum sem taldir voru nauðsynlegir á öllum Norðurlöndum til að fólk kæmist af.

Ef skerðingarmörkin voru hækkuð í það sem ég taldi svara til lágmarksframfærslu hefðu 65,5% einstæðra foreldra fengið óskertar barnabætur í stað 11,4% og 23,5% hjóna og sambúðarfólks. Þetta er enn ein vísbending um hve langt Íslendingar eru frá norræna velferðarmódelinu.

Þegar ég horfi á heildarmyndina blasir ekki annað við mér en að íslenskt samfélag sé lágtekjumiðað og hafi verið til margra ára.“

Skerðingin og sagan 

Harpa segir að margumræddar skerðingar lífeyris nú megi rekja til breytinga á lögum um almannatryggingar árið 1993. Hún horfir áratugi til baka, rifjar upp og stiklar á stóru:

„Við skulum hafa hugfast að lífeyrissjóðir voru settir á laggir og hugsaðir sem viðbót við greiðslur almannatryggingakerfisins. 

  • Árið 1960 var ákveðið við endurskoðun laga um almannatryggingar að lífeyrissjóðsgreiðslur og aðrar tekjur skertu ekki ellilífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins. Fram kom að sjóðfélagar lífeyrissjóðanna væru ekki tilbúnir til að afsala réttindum sínum hjá almannatryggingum.
  • Árið 1971 var lögfest að lífeyrisgreiðslur skyldu fylgja lágmarkslaunum frá og með árinu 1972. Þá er lögfest að tryggja fólki lágmarksframfærslu, og skerðingar teknar upp ef tekjur voru umfram viðmið. Þá eru sömu flokkar við völd og 1960 og reyndar einnig 1993, sama stjórnarmunstur.
  • Áður en lögin 1971 tóku gildi urðu ríkisstjórnarskipti og ný ríkisstjórn hækkaði lágmarksframfærslulífeyri úr 84 í 120 þúsund krónur á mánuði. Þá er tekjutrygging tekin upp, grunnlífeyrir var 83,6% og tekjutrygging 16,4%. Jafnframt var ákveðið að lífeyrisgreiðslur almannatrygginga skyldu miðast við verkamannalaun en ekki laun fiskverkafólks.
  • Frá 1971 til 1995 fylgdi lífeyrir almannatrygginga lágmarkslaunum á vinnumarkaði og meira að segja atvinnuleysisbætur tóku mið af launum verkamanns eftir sjö ár á taxta Verkamannafélagsins Dagsbrúnar.
  • Árið 1994 gerði ég rannsókn sem sýndi meðal annars að mánaðarlegur lífeyrir aldraðra og öryrkja frá Tryggingastofnun og framfærslustyrkur félagsmálastofnana á höfuðborgarsvæðinu voru sama upphæð og lægstu laun hjá verkalýðsfélögunum Iðju, Sókn, Framsókn, Dagsbrún og Verslunarmannafélagi Reykjavíkur.
  • Árið1995 var tenging launa og lífeyris afnumin með lögum.
  • Árið 2000 höfðu lágmarkslaun á almennum vinnumarkaði hækkað frá 1994 til 2000 um 77% en lífeyrislaun hækkað um 49% á sama tíma.
  • Þetta er í grófum dráttum sögulegur aðdragandi og þróun að því ástandi sem ég kalla lágtekjuviðmiðun og hefur verið viðvarandi í áratugi. Ríkjandi hugsun er að spara fyrir ríkissjóð og kallað er eftir stöðugleika en sá stöðugleiki er augljóslega á kostnað láglaunafólksins í landinu.

Mér svíður sárt að sjá þetta gerast og hlýt að velta fyrir mér hvers vegna samið er um lágmarkslaun á vinnumarkaðinum sem eru langt undir yfirlýstum framfærsluviðunum stjórnvalda landsins? Fátækt á Íslandi er að mestu afleiðing opinberrar stefnumótunar Alþingis og stjórnvalda og lágra launa á vinnumarkaði.“