Ábyrgar fjárfestingar

Grein eftir Snædísi Ögn Flosadóttur, framkvæmdastjóra EFÍA og LSBÍ , sem birtist í Viðskiptablaði Morgunblaðsins 11. desember 2019.

Ábyrgar fjárfestingar

Snædís Ögn Flosadóttir, framkvæmdastjóri LSBÍ og EFÍA„Fjármagn lætur heiminn hreyfast“ er lausleg þýðing á einkar vinsælum enskum frasa. Þó færa megi rök með og á móti þessari einföldu staðhæfingu má þó sættast á það að fjármunir og það til hvaða verkefna þeim er úthlutað hafi mikil áhrif á þróun þess samfélags sem við búum í. Hátt hlutfall fjármagns heimsins er í umsjá fagfjárfesta, þeirra á meðal eru lífeyrissjóðir fyrirferðarmiklir og þá sér í lagi hér á landi.

Umboðsskylda og langtímahagsmunir

Lífeyrissjóðum ber að vinna alfarið og eingöngu í umboði sjóðfélaga og hafa ætíð þeirra hagsmuni að leiðarljósi í öllum ákvörðunum. Þeim er falið að gæta sparnaðar sjóðfélaga og meðal annars tryggja þeim hið margumtalaða áhyggjulausa ævikvöld. Til að standa undir því er meginmarkmið lífeyrissjóðanna óhjákvæmilega og samkvæmt lögum að ná góðri ávöxtun á sparnaðinn að teknu tilliti til áhættu. Það stendur ekki til að mótmæla því markmiði en það er hins vegar vel þess virði að velta upp öðrum hliðum í því samhengi. Við stöndum frammi fyrir því að með aukinni vitund um áhrif fjárfestinga á það samfélag sem við lifum í hafa vaknað spurningar um það hvort stjórnendum lífeyrissjóða beri að horfa til fleiri þátta en eingöngu ávöxtunar við ákvarðanatöku. Í tilfelli lífeyrissjóða er um langtímahagsmuni að ræða og fjárfestingar á eignum sjóðfélaga geta haft áhrif á lífsgæði þeirra á margan hátt umfram þann sem mældur er í krónum.

Breytingum ýtt úr vör

Með breytingu á lögum 129/1997 sem tók gildi árið 2017 var bætt inn ákvæði um það að stjórnum lífeyrissjóða beri að setja sér stefnu um siðferðisleg viðmið í fjárfestingum. Þessi breyting er ekki gripin úr lausu lofti en með henni er verið að freista þess að opna á möguleika lífeyrissjóða hér á landi til að horfa til fleiri þátta en eingöngu arðsemi með það fyrir augum að það skili betra samfélagi og betri fjárfestingum til langs tíma. Það er skemmst frá því að segja að lífeyrissjóðir landsins hafa tekið þessari breytingu af miklum krafti og um fátt hefur verið fjallað jafn ítarlega undanfarin misseri.

Hjá mörgum ríkir um það þegjandi en skýrt samkomulag að þátttaka í fjárfestingum sem augljóslega eru til ills sé ekki æskileg. En heimurinn er ekki svart hvítur og hvernig leggjum við mat á það hvort fjárfesting verði samfélaginu til góðs eða valdi í það minnsta ekki skaða.  Sú krafa er í dag gerð til fyrirtækja að þau horfi í víðara samhengi til haghafa sinna en áður hefur tíðkast. Gerðar eru kröfur um að horft sé til fleiri þátta en eingöngu arðsemi hluthafa, svo sem áhrifa starfseminnar á það umhverfi og samfélag sem hún starfar í og vandaðra stjórnarhátta og upplýst sé um framganginn með reglubundnum hætti. Þá má jafnframt ekki gleyma því að fyrirtæki sem iðka góða stjórnarhætti og sinna starfsemi sinni og samfélaginu sem þau starfa í af alúð ættu með réttu að vera líklegri til að skila betri langtíma árangri en önnur.  

Valkostir sem fara saman

Stjórnir lífeyrissjóða, líkt og aðrir, vilja leggja sitt af mörkum til að tryggja farsælt samfélag til lengri tíma. Til þess að svo megi verða þarf að huga að því í hvaða verkefni fjármunum er veitt.  Spurningin sem oft ber á góma er hins vegar sú hversu langt á að ganga í því að tryggja hagsmuni samfélagsins í heild á kostnað ávöxtunar og geta þessir tveir valkostir farið saman. Færa má rök fyrir því að viðkvæðið meðal lífeyrissjóða Evrópu og jafnvel víðar sé hið seinna, valkostirnir séu ekki tveir heldur fari þeir saman. Áleitnasta spurningin í dag er því frekar orðin sú hvaða aðferðum er best að beita til að leggja mat á ábyrgar fjárfestingar í heimi sem er ekki nægjanlega svarthvítur til að svarið liggi alltaf í augum uppi.