Stefnir í að lífeyrissjóðum fækki um tvo í ár

Stefnir í að lífeyrissjóðum fækki um tvo í ár

Í fyrra var samþykkt að sameina Lífeyrissjóð starfsmanna Reykjavíkurborgar og Brú lífeyrissjóð og frá ársbyrjun 2025 hefur Brú lífeyrissjóður haldið í sérstakri deild utan um rekstur, eignir, skuldir og skuldbindingar þáverandi Lífeyrissjóðs starfsmanna Reykjavíkurborgar.

"Núna blasir við farsæl sameining Lífeyrissjóðs starfmanna Akureyrarbæjar og Brúar lífeyrissjóðs. Þá sætir líka tíðindum að unnið er að því að sameina Almenna lífeyrissjóðinn og Lífsverk lífeyrissjóð.", segir í grein sem Þórey S. Þórðardóttir framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða birti  Í Morgunblaðinu í dag 2. júlí 2025 þar sem fjallað er um fækkun lífeyrissjóða.

Í öllum tilvikum, nú sem fyrr, sameinast lífeyrissjóðir að eigin frumkvæði. Í þjóðmálaumræðunni þykir ýmsum ekki nóg að gert og vilja fækka sjóðum enn frekar, jafnvel um helming eða meira. Spurningum um hvort af slíku verði, hvenær og hvernig, er lífeyrissjóðanna einna að svara og ákveða framvinduna.

Í þessum efnum kemur margt til álita því sjóðirnir eru á ýmsan hátt ólíkir innbyrðis. Margir þeirra tengjast þannig sögulega tilteknum atvinnugreinum eða landshlutum og eiga sér bakland í því kerfi eftirlauna sem lagður var grunnur að í kjarasamningum heildarsamtaka launafólks og atvinnurekenda 1969. Aðrir sjóðir eiga sér rætur og upphaf án tengsla við hinn almenna vinnumarkað. Saman mynda mismunandi uppbyggðir sjóðirnir það sem við köllum lífeyrissjóðakerfi landsmanna í daglegu tali.

Rekstrarkostnaður lífeyrissjóða er jafnan nefndur í sömu andrá og rætt er um fjölda þeirra og þá nauðsyn að fækka þeim. Algengast er og nærtækast að bera saman eignir og rekstrarkostnað lífeyrissjóða. Þannig fást hlutfallstölur sem segja sitt, líka í alþjóðlegum samanburði. Þá hlýtur að vekja athygli að rekstrarkostnaður íslenskra lífeyrissjóða er álíka og gerist og gengur á Norðurlöndum og umtalsvert minni en mörg dæmi eru um í öðrum Evrópuríkjum.

Hlutfallstölur rekstrarkostnaðar eru lágar en upphæðirnar í krónum talið eru hins vegar vissulega háar. Höfum þá í huga að eignir íslenska lífeyrissjóðakerfisins eru vel yfir 8.200 milljarða króna, jafngildi nær tvöfaldri landsframleiðslu á Íslandi.

Rekstrarkostnaður og fjárfestingargjöld lífeyrissjóða hafa vissulega hækkað verulega undanfarin ár en umfang sjálfs lífeyrissjóðakerfisins eykst líka stöðugt, verkefnum þess fjölgar og löggjafinn hefur hert mjög kröfur um eftirlit, fjárfestingar og sérhæfða vörslu eigna. Þá skal og nefnt að laun hafa hækkað í fjármálageiranum líkt og annars staðar í samfélaginu og lífeyrissjóðir kaupa sér víðtæka þjónustu og ráðgjöf til að standast betur auknar kröfur.

Dæmi eru um að menn hafi gripið á lofti fréttir um rekstrarkostnað erlendra gegnumstreymissjóða með tiltölulega einfalda starfsemi og borið saman við rekstur (söfnunar)lífeyrissjóða á Íslandi. Slíkt er jafnvel enn fráleitara en að bera saman epli og appelsínur en skapaði samt nokkurn fjölmiðlahvell hér um árið þegar lífeyrissjóður nokkur í Nevada í Bandaríkjunum varð allt í efni mál málanna hérlendis í nafni „rannsóknarblaðamennsku.“ Þeir sem frumkvæði höfðu að umfjölluninni létu eiga sig að rýna ársskýrslu bandaríska sjóðsins sem var samt opin bók á Vefnum. Þar kom í ljós að Nevadasjóðurinn rak hvorki séreignardeildir né millifærði iðgjöld inn á lán. Hann lánaði ekki sjóðfélögum og umsýsla vegna innheimtu iðgjalda var hverfandi. Örorkubyrði var þar sáralítil og umsýsla mjög óveruleg. Engin innheimta var fyrir endurhæfingarsjóð og þannig mætti áfram telja.

Síðast en ekki síst var ekki að sjá að hvorki Nevadasjóðurinn né aðrir bandarískir lífeyrissjóðir greiddu fyrir fjármálaeftirlit þar í landi. Fjármálakerfið á Íslandi borgar hins vegar rekstur fjármálaeftirlits Seðlabankans. Sá kostnaður nam tæplega hálfum milljarði króna 2025 og hefur hækkað verulega undanfarin ár.

Það sannast því á stundum að ekki er allt sem sýnist, fljótt á litið. Og það á til að mynda við um starfsemi íslenskra lífeyrissjóða sem vel að merkja ná fyrsta til þriðja sæti ár eftir ár í alþjóðlegum samanburði lífeyrissjóða 48 ríkja um víða veröld!  

Þórey S. Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða.