Ætti að skipta um kúrs í lífeyrismálum og styrkja gegnumstreymið frekar en að auka vægi sjóðsöfnunar enn frekar?

Ætti að skipta um kúrs í lífeyrismálum og styrkja gegnumstreymið frekar en að auka vægi sjóðsöfnunar…
  • Færa má rök fyrir því að skynsamlegra og réttlátara gæti verið að styrkja gegnumstreymiskerfið (almannatryggingar) nú frekar en að auka vægi sjóðsöfnunar í lífeyriskerfinu; beina sem sagt hluta fyrirsjáanlegs vaxtar lífeyrissjóðakerfisins inn í gegnumstreymiskerfið.

  • Aðkoma lífeyrissjóða að stjórnum fyrirtækja er óleyst mál. Alls kyns núningur og tortryggni þar í gangi og engin þjóðarsátt ríkjandi. Lífeyrissjóðirnir gætu tekið frumkvæði að sátt um fyrirkomulag í þeim efnum en þeir verða þá fyrst að vita sjálfir hvert stefna skuli og hvaða lausnir kunni að virka best.

  • Lífeyrissjóðir eru í einhverjum skilningi að vaxa umfram getu hagkerfisins til að búa til eignir fyrir þá til kaups. Hlutabréfamarkaðurinn mun vaxa eitthvað en ekki nægilega mikið til að mæta fjárfestingarþörfinni. Sjóðirnir VERÐA því að fara á erlendan fjármálamarkað til fjárfestinga. 
  • Raunvextir á Íslandi hafa lækkað mikið og gætu hæglega lækkað enn frekar. Lífeyrissjóðir verða að búa sig undir að raunvextir ríkisbréfa verði á bilinu 0-3% og takast á við þann veruleika. 
  • Tryggingafræðileg staða lífeyrissjóða sveiflast í takt við gengi íslenskrar krónu. Þannig var afkoma þeirra 2016 slök vegna styrkingar krónunnar. Aukið vægi erlendra eigna mun auka þennan vanda. Ein leið til að mæta þessu væri hreinlega sú að reikna lífeyrisréttindi í krónum annars vegar og hins vegar í erlendri mynt eða einhverri myntkörfu. Gengisáhætta yrði þannig sýnilegri og færðist af sjóðunum til sjóðfélaganna sjálfra og spurning hvort þeir síðarnefndu myndu kyngja því ...

 

Þetta eru nokkur efnisatriði sem fram komu í erindi og andsvörum Gylfa Magnússonar, dósents í Háskóla Íslands, á ársfundi Landssamtaka lífeyrissjóða 23. maí 2017.

Hann „kveikti í“ í fundarmönnum, ekki síst með segja að kostir íslenska sjóðsöfnunarkerfisins væru „ef til vill að nokkru leyti ofmetnir“. 

Í huga ýmissa gætu slík ummæli jafnast á við að blóta í kirkju!

Markmið Gylfa var að skapa umræður og það tókst honum.

 – Ber að skilja orð þín svo að þér lítist ekki á blikuna þegar horft er til næstu áratuga og lífeyrissjóðir stækka mjög og bólgna enn frekar út?

 „Fyrirsjáanleg sjóðsöfnun er ótrúleg og áskorun í sjálfu sér. Um miðja öldina verða eignir lífeyrissjóða nálægt því að svara til 3,5 faldrar landsframleiðslu, sem er tvöfalt hærra hlutfall en nú. Framboð innlendra verðbréfa stendur ekki undir fjárfestingarþörfinni sem af sjóðsöfnuninni leiðir.

Lífeyrissjóðirnir verða að fjárfesta mikið erlendis en það er síður en svo sjálfgefið að ávöxtun erlendra eigna verði viðunandi. Vextir erlendra skuldabréfa eru um þessar mundir í sögulegu lágmarki og blikur eru á lofti varðandi ávöxtun hlutabréfa.

Íslenski fjármálamarkaðurinn er smár og við búum við minnsta gjaldmiðilskerfi veraldar. Á sama tíma er íslenska lífeyriskerfið þegar orðið meðal þeirra stærstu í heiminum miðað við umfang hagkerfisins og á enn eftir að stækka mikið. Eðlilegt er að velta fyrir sér hvort yfirleitt sé æskilegt að búa við svo stórt kerfi?

Sjóðsöfnunarkerfið hefur auðvitað sína kosti en það er líklega ofmetið að nokkru leyti. Sjóðsöfnunin sem slík ræður nefnilega litlu í raun um getu samfélagsins til að sjá öldruðum og öryrkjum fyrir lífeyri, heldur miklu frekar framleiðni í efnahagslífinu og atvinnuþátttakan.

Aukið umfang lífeyrissjóða, hérlendis eða erlendis, hefur ákveðinn vanda í för með sér og þá hlýtur að mega velta fyrir sér hvort ekki sé hægt að ná markmiðum lífeyrissjóðakerfisins með til dæmis auknu vægi gegnumstreymis. Vissulega hefur verið stefnt í hina áttina undanfarna áratugi en ef til vill er rétt að staldra við og endurmeta þá stefnu.“

 •

 – Hvers vegna?

 „Færa má rök fyrir því að réttlátara geti verið að styrkja gegnumstreymiskerfið nú frekar en að auka vægi sjóðsöfnunar, beina með öðrum orðum hluta af framtíðarvextinum inn í gegnumstreymiskerfið. Það hefði þann kost að sjóðsöfnunin þyrfti ekki að vera jafnmikil og ella, þannig mætti draga úr álagi á innlendan verðbréfamarkað og draga úr þörf fyrir skuldsetningu innlendra aðila.

Mikil áhersla á sjóðsöfnun getur nefnilega komið illa út fyrir kynslóðirnar sem voru á vinnumarkaði þegar kerfinu var komið á. Þær þurftu bæði að standa undir gegnumstreymiskerfi fyrir sér eldra fólk (leggja almannatryggingum til fé með skattgreiðslum) og borga líka í lífeyrissjóði fyrir sig sjálfar.

Þessar kynslóðir ávinna sér ekki sérlega góð réttindi í lífeyrissjóðum og þegar þær komast á lífeyrisaldur er gegnumstreymiskerfið lítt burðugt. Þetta á sérstaklega við um allra elstu Íslendingana nú en einnig að nokkru leyti um talsvert yngra fólk, það sem er á vinnumarkaði en fer á eftirlaun á allra næstu árum. Enn yngra fólk nýtur hins vegar sjóðsöfnunar að öllu leyti en ber lítinn sem engan kostnað af gegnumstreymiskerfinu.“

– Þú tekur svo til orða að lífeyrissjóðirnir hafi sjálfir ekki gert upp við sig hvernig þeir bregðist við þeirri áskorun að hafa „efnahagslífið á Íslandi að verulegu leyti í fanginu vegna hlutabréfaeignar sinnar“. Hvað hefurðu nákvæmlega í huga?

 „Auðvitað ýki ég dálítið til að skerpa áherslur í umræðunni en á hér fyrst og fremst við skráð hlutabréf. Fjöldi fyrirtækja er með óskráð hlutabréf og í þeim eiga lífeyrissjóðirnir yfirleitt ekkert. Stærstu og umsvifamestu fyrirtækin eru hins vegar með skráð hlutabréf og þar eru lífeyrissjóðir í stórum hlutverkum, hvort sem þeim líkar betur eða verr.

Sú staða kallar bókstaflega á að ríkar kröfur séu gerðar til lífeyrissjóða. Viðskipti sjóðanna geta ráðið verðmyndun og greiðsluhæfi á íslenskum fjármálamarkaði og þeir hljóta í krafti stöðu sinnar að koma að því að stjórna „sínum“ fyrirtækjum eða í það minnsta velja þeim stjórnendur.

Hlutverk lífeyrissjóða er snúið að því leyti að þeir geta ekki með góðu móti leitað til raunverulegra eigenda sinna, sjóðfélaganna!, um umboð til mikilvægra ákvarðana. Einkafjárfestar eru í allt annarri stöðu. Þeir hætta eigin fé í áhættusömum viðskiptum.

Svo flækjast hlutirnir enn frekar þegar einstakir sjóðir eða fleiri saman eignast stóra hluti í tveimur eða fleiri fyrirtækjum sem keppa á sama markaði.  Íslenski markaðurinn er svo smár að oft eru einungis þrjú til fjögur fyrirtæki í tilteknum geirum atvinnulífsins. Ef lífeyrissjóðir eignast hluti í flestum eða öllum þessum fyrirtækjum geta þeir komið sér í mjög óþægilega stöðu en verða engu að síður að axla ábyrgð sem fylgir eignarhaldinu.“

 – Ákveðin þversögn er í pólitískri umræðu varðandi lífeyrissjóðina. Sumir kvarta yfir of mikilli fyrirferð þeirra í atvinnulífinu en krefjast þess svo í hinu orðinu að sjóðirnir auki umsvif sín enn frekar og komi meira að segja inn í sjálfa hagstjórnina í landinu að einhverju leyti! Hafa lífeyrissjóðir hagstjórnarhlutverk?

„Almennt séð er varhugavert að ætla lífeyrissjóðum hlutverk í hagstjórninni. Haustið 2008 var rætt um að færa beinlínis erlendar eignir þeirra heim til að bjarga bankakerfinu og síðan efnahagskerfinu eftir hrun. Af því varð sem betur fer ekki. Eignatilfærslan hefði ekki dugað til bjargar en hefði fyrst og fremst skaðað sjálft lífeyrissjóðakerfið stórlega.

Reynslan ætti að kenna okkur að varhugavert er að þvinga lífeyrissjóði til fjárfestinga sem eru stjórnum þeirra ekki að skapi. Af svipuðum toga eru hugmyndir um að skylda lífeyrissjóði til að fjárfesta erlendis tiltekinn hluta eigna sinna.

Farsælast er að skapa lífeyrissjóðum umhverfi til að gera þeim sem auðveldast að fjárfesta erlendis og það er raunar alveg nauðsynlegt.

Óleyst vandamál tengt erlendum fjárfestingum er hvernig á að taka á sveiflum í tryggingafræðilegri stöðu sjóðanna vegna krónunar sem óstöðugs gjaldmiðils. Tryggingafræðileg staða er gerð upp á gengi hvers tíma og sveiflast upp og niður.

Grunnvandinn er sá að við erum með minnsta gjaldmiðilssvæði heimsins og lítinn fjármálamarkað. Í þessu umhverfi byggjum við upp mjög stórt lífeyriskerfi. Íslenskir lífeyrissjóðir eru í allt annarri stöðu en til dæmis lífeyrissjóður í Luxemborg sem kaupir eignir fyrir evrur eða lífeyrissjóður í Connecticut sem kaupir fyrir Bandaríkjadali.

Gjaldeyrismarkaðurinn okkar fyrir krónuna verður alltaf sá „krani“ sem peningarnir þurfa að fara um í erlendum fjárfestingum íslenskra lífeyrissjóða. Í þeirri „pípulögn“ skapast vandamál á borð við slaka afkomu lífeyrissjóðanna árið 2016, sem skýrist að miklu leyti af gengisstyrkingu íslenskrar krónu.“