Lífeyrisréttindi, landamæri og EES-samningurinn

Lífeyrisréttindi, landamæri og EES-samningurinn

Lífeyrisréttindi, landamæri og EES-samningurinn

„Íslendingar sem búið hafa í öðrum ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins kunna að eiga þar lífeyrisréttindi án þess að vita af því sjálfir. Hafi þeir samband við Tryggingastofnun sendum við umsókn út og síðan kemur í ljós hvort réttindi eru til staðar eða ekki,“ segir Anna Elísabet Sæmundsdóttir, deildarstjóri erlendra mála hjá  Tryggingastofnun.

„Íslendingar sem búa á Íslandi en hafa áður dvalið eða starfað í öðru EES-ríki kunna að hafa áunnið sér rétt til lífeyris ytra og þar með rétt til eftirlaunalífeyris þegar tilskildum aldri er náð eða rétt til örorkulífeyris að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Einfalt er að láta á þetta reyna er viðkomandi nálgast eftirlaunaaldur. 

TR sendir erindi/umsókn til samskiptastofnunar erlendis og þar fæst úrskurður að nokkrum tíma liðnum. TR aflar gagna til að láta fylgja með umsókninni, annars vegar upplýsingar frá Þjóðskrá Íslands um hvenær umsækjandinn bjó á Íslandi og hins vegar frá lífeyrissjóðum um iðgjaldagreiðslur viðkomandi.

Reyndar getur komið líka fyrir að samskiptastofnanir okkar erlendis rekist á það í kerfum sínu að einhverjir Íslendingar eigi þar lífeyrisrétt en hafi ekki látið í sér heyra. Slíkar upplýsingar berast okkur og við sendum viðkomandi bréf. Þegar formlegar umsóknir um þessi réttindi hafa verið sendar út er komið á milliliðalaust samband erlendu samskiptastofnananna og Íslendinganna. Stofnanirnar kunna að vilja frekari upplýsingar, til dæmis um hvort viðkomandi séu enn starfandi á vinnumarkaði eða hvort þeir fái greitt úr lífeyrissjóði. Þá svara þeir spurningunum beint.“ 

Mismunandi kerfi, líka á Norðurlöndum

Tryggingastofnun er með öðrum orðum samskiptastofnun við hliðstæðar stofnanir í öðrum ríkjum sem Ísland hefur samning við um gagnkvæmar lífeyristryggingar. Allar umsóknir á EES-svæðinu eru milli þessara stofnana og samskiptin eiga sér stað á stöðluðum eyðublöðum á tungumáli þess lands sem erindin sendir.

Það getur tekið hálft til heilt ár að afgreiða umsókn um eftirlaunalífeyri, mjög misjafnlega lengi eftir ríkjum. Afgreiðsla örorkulífeyris tekur enn lengri tíma.

Margir halda að norrænu kerfin séu mjög lík að uppbyggingu eða jafnvel eins en svo er ekki, heldur eru norrænu kerfin býsna mismunandi innbyrðis. Ekkert eitt „norrænt lífeyristryggingamódel“ er til og afgreiðslutími umsókna mislangur eftir ríkjum. Afgreiðsla mála tekur jafnan stystan tíma í Danmörku af þeim norrænu kerfum sem hið íslenska skiptir við.

Þeim fjölgar mjög sem fá eftirlaun frá öðrum löndum

Þeim hefur fjölgað gríðarlega á örfáum árum sem eru annars vegar búsettir á Íslandi en fá eftirlaun að utan og hins vegar þeim sem búa erlendis og fá eftirlaun frá Íslandi. Fjölga mun áfram í þessum hópum báðum vegna breyttra viðhorfa til búsetu, alþjóðavæðingar í atvinnurekstri og hreyfanleika yfirleitt á vinnumarkaði.

Svo má nefna í framhjáhlaupi nærtæk dæmi um „fólksflutninga á krepputímum“ á Íslandi sem koma síðar við sögu eftirlaunakerfanna svo eftir er tekið. Kynslóðirnar sem fóru til Noregs í atvinnuleit eftir efnahagshrunið 2008 hafa eðlilega ekki skilað sér enn inn í eftirlaunakerfin þar og á Íslandi. Eftirlaunakerfi Svía og Íslendinga hafa hins vegar tekið við fólki sem fór til Svíþjóðar í kjölfar þess að hafís lagðist að landinu og síldin hvarf með tilheyrandi efnahagssamdrætti hér á sjöunda áratugnum!

 •  Árið 2007 voru tæplega 1.500 búsettir erlendis og höfðu eftirlaunatekjur frá Íslandi en voru orðnir hátt í 2.400 árið 2017. 
 • Árið 2007 voru tæplega 650 búsettir á Íslandi og höfðu eftirlaunatekjur erlendis frá en voru orðnir nær 2.300 árið 2017

Dæmi I

Búsett(ur) á Íslandi með eftirlaunarétt í öðru EES-ríki

 • Tryggingastofnun sendir umsókn og tryggingavottorð viðkomandi til samskiptastofnunar í því ríki sem við á.
 • Erindið afgreitt ytra en rétt er að gera ráð fyrir að það geti tekið allt að sex mánuði eða jafnvel lengur.
 • Tryggingastofnun fær úrskurð að utan og tryggingarvottorð, kannar gögnin og gengur úr skugga um að viðkomandi njóti réttinda sem honum ber í hvoru landi en ekkert umfram það (sé með öðrum orðum ekki tvítryggður).
 • Tryggingastofnun skráir erlendan lífeyri sem tekjur viðkomandi í íslenska kerfinu.

Dæmi II

Búsett(ur) erlendis með eftirlaunarétt á Íslandi

 •  Tryggingastofnun berst umsókn að utan og jafnframt yfirlit þess tíma sem viðkomandi er tryggður í lífeyriskerfi ytra.
 • Ef umsækjandi hefur verið búsettur á Íslandi í meira en eitt ár á hann réttindi og þá er kallað eftir frekari upplýsingum að utan* en umsókn synjað ef búseta hér hefur varið skemur en eitt ár.
 • Tryggingastofnun sendir umsókn áfram til lífeyrissjóða.

 *Kallað er eftir frekari upplýsingum að utan af ýmsum ástæðum:

 1. Lífeyriskerfin eru mismunandi og einnig stofnanir sem annast þau.
 2. Ganga þarf úr skugga um að viðkomandi sé ekki tryggður í tveimur ríkjum samtímis.
 3. Uppruni erlendra lífeyrisgreiðslna skiptir miklu máli.
  • Ef  eftirlaunalífeyrir er eingöngu vegna búsetu (grunnlífeyrir) hefur hann ekki áhrif á greiðslur Tryggingastofnunar.
  • Ef eftirlaunagreiðslur erlendis eru hins vegar tengdar vinnu eða miðast við fyrri atvinnutekjur er litið á þær sem tekjur úr skyldubundnum, atvinnutengdum lífeyrissjóðum og þá geta þær skert greiðslur Tryggingastofnunar.

Dæmi III  

Íslendingurinn NN búsettur í Svíþjóð fær tilkynningu frá Tryggingastofnun um að hann fái 91.601 kr. á mánuði í eftirlaunalífeyri frá TR. 
NN bjó á Íslandi í 16,21 ár á aldrinum 16-67 ára, á 40,53% lífeyrisréttindi hér og fær úrskurð um 91.601 krónu í grunnlífeyri.

 Hvaða forsendur liggja þar að baki?

 • NN fær greiddan tekjutengdan lífeyri í Svíþjóð (inkomstpensjon) 48.576 sænskar krónur (SEK) á ári (= 627.116 ísl. krónur). Þessar tekjur hafa áhrif til skerðingar greiðslna frá Tryggingastofnun hliðstætt við greiðslur úr íslenskum lífeyrissjóði.
 • NN fær greiddan grunnlífeyri í Svíþjóð (garantipension), 18.900 SEK á ári, sem ekki hefur áhrif á lífeyrisgreiðslur TR á Íslandi.
 • NN fær greiddar 32.269 krónur úr íslenskum lífeyrissjóði á ári.
 • Samanlagðar tekjur til útreiknings lífeyris eru því 659.386 krónur (627.116 + 32.269 = 659.386).
 • Þegar frá eru dregnar 300 þúsund króna vegna frítekjumarks fyrir aðrar tekjur en atvinnutengdar standa eftir 359.386 krónur. Sú upphæð skerðist um 45% eða 13.477 krónur á mánuði vegna „núnings“ lífeyriskerfanna á Íslandi.
 • Skertur eftirlaunalífeyrir NN frá Tryggingastofnun er þá 226.007 krónur og NN á rétt á 40,53% af þeirri upphæð.
 • Niðurstaða: 40,53% grunnlífeyrisréttur NN á Íslandi = 91.601 kr.

Byggt á samtali við Önnu Elísabetu Sæmundsdóttur og erindum sem þær Halla María Sveinbjörnsdóttir, lögfræðingur Tryggingastofnunar, fluttu á fundi á vegum Landssamtaka lífeyrissjóða í febrúar 2018.

 

Gott að vita - upplýsingavefir

Tryggingastofun – tr.is
Danmörk: borger.dk
Noregur: nav.no
Svíþjóð: pensionsmyndigheten.se
Norræn upplýsingavefur  norden.org 
Réttindi í hverju EES/EFTA ríki fyrir sig