Meðalávöxtun íslenskra lífeyrissjóða 2018 góð í alþjóðlegum samanburði

Meðalávöxtun íslenskra lífeyrissjóða 2018 góð í alþjóðlegum samanburði

Lífeyrissparnaður við árslok 2018

Í fréttatilkynningu sem Fjármálaeftirlitið sendi frá sér 20. júní sl. kemur fram að hrein ávöxtun lífeyrissjóða árið 2018 hafi verið undir langtímamarkmiðum þeirra og í flestum löndum var ávöxtun neikvæð. Aðeins fimm lönd sýna jákvæða ávöxtun og þar á meðal Ísland.

Hrein raunávöxtun íslenskra lífeyrissjóða var 1,95% sem er þó mun lakara en árið 2017 en þá var raunávöxtunin 5,38%. Til þess ber að horfa að lífeyrissparnaður er langtímasparnaður og hefur hrein raunávöxtun samtryggingardeilda sl. 25 ár verið að meðaltali 4,06%.

Á árinu 2018 störfuðu 21 lífeyrissjóður í 25 deildum og af þeim buðu 16 sjóðir upp á séreignarsparnað í 45 deildum. 

Eignir lífeyrissjóða við árslok voru um 4.239 milljarðar kr.: Eignir samtryggingardeilda 3.813 milljarðar kr., jukust um 7,7% milli ára og séreignarsparnaður í vörslu sjóðanna 425 milljarðar kr., með um 10% aukningu milli ára. Með tilkomu tilgreindrar séreignar hafa eignir séreignarsparnaðar aukist hratt og munu gera það á komandi árum. Tryggingafræðileg staða samtryggingardeilda lífeyrissjóðanna versnaði nokkuð milli ára einkum vegna lægri ávöxtunar. 

Umfang fjárfestinga lífeyrissjóða er verulegt í íslensku efnahagslífi og er áætlað að lífeyrissjóðir komi að fjármögnun 672 innlendra fyrirtækja (lögaðila) með beinum eða óbeinum hætti. Heildarfjárfesting þeirra í innlendum fyrirtækjum nemur 1.363 milljörðum kr. Erlendar eignir lífeyrissjóða hafa aukist um 15% frá árinu 2017 og er það í samræmi við fjárfestingarstefnur sjóðanna. Hlutdeild erlendra eigna nam 28% af heildareignum í lok árs 2018.

 

Fréttatilkynning Fjármálaeftirlitsins um stöðu lífeyrissjóða 2018 á vef FME

Samantekt Fjármálaeftirlitsins á ársreikningum lífeyrissjóða og talnaefni úr skýrslunni á vef FME