Skrafað um lífeyrissjóði og fjárfestingar í hátíðarsalnum

Frá vinstri: Ásgeir Brynjar Torfason, fundarstjóri, Jake Block, sérfræðingur í langtímafjárfestingum…
Frá vinstri: Ásgeir Brynjar Torfason, fundarstjóri, Jake Block, sérfræðingur í langtímafjárfestingum, Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Birtu lífeyrissjóðs, Benedikt Jóhannesson, stærðfræðingur og f.v. ráðherra, Unnur Gunnarsdóttir, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, Kristjana Sigurðardóttir, forstöðumaður eignastýringar hjá Almenna lífeyrissjóðnum og Yngvi Örn Kristinsson, hagfræðingur Samtaka fjármálafyrirtækja.

Skrafað um lífeyrissjóði og fjárfestingar í hátíðarsalnum 

„Vísbendingar eru um að skammsýni grafi um sig á fjármálamörkuðum og aukin áhersla sé lögð á að hagnast á skömmum tíma. Samkvæmt nýlegri könnun McKinsey á meðal  framkvæmdastjóra alþjóðlegra fyrirtækja kváðust 55% þeirra vera reiðubúnir að fresta arðbærum langtímaverkefnum ef það hefði neikvæð áhrif á 90 daga rekstur, einn ársfjórðung. Í orði kveðnu voru þeir samt hlynntir því að horfa frekar til arðsemi í 3-5 ár en fundu fyrir þrýstingi stjórnarmanna og lykilstarfsmanna fyrirtækja sinna til að standa sig vel á yfirstandandi rekstrarári. Skammsýnin virðist þannig rótgróin vestra þrátt fyrir að 75% hlutafjár í Bandaríkjunum séu í eigu langtímafjárfesta.“ 

Þetta sagði Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Birtu lífeyrissjóðs, meðal annars í hátíðasal Háskóla Íslands 10. desember. Hann var í hópi frummælenda á málþingi Hagfræðistofnunar Íslands, Landssamtaka lífeyrissjóða og Samtaka fjármálafyrirtækja um langtímafjárfestingar og stjórnarhætti lífeyrissjóða. Benedikt Jóhannesson, tryggingastærðfræðingur og fyrrverandi ráðherra, var frummælandi líka og sömuleiðis Jake Block, bandarískur sérfræðingur í langtímafjárfestingum. 

Samvinna um innviðafjárfestingar – PPP

Blake fjallaði aðallega um Public-private partnership - PPP, leið samvinnu hins opinbera og einkafyrirtækja við innviðaframkvæmdir af ýmsu tagi. Hann sagði að langtímaverkefni til tveggja til þriggja áratuga hentuðu vel til samvinnuverkefna og svo vill til að einmitt þekktasta verkefnið af þessu tagi hérlendis, Hvalfjarðargöngin, voru afhent ríkinu í fyrra, 20 árum eftir að þau voru tekin í gagnið. Frumkvæðið að göngunum kom ekki frá ríkinu, þau voru ekki á samgönguáætlun og áhættan við framkvæmdina hvíldi að stærstum hluta á verktökum. 

Dæmigerð samvinnuverkefni ríkis og einkafyrirtækja eru byggingar skólahúsa, sjúkrahúsa og tækjavæðing þeirra, samgöngumannvirki, vatnsveitur og frárennsliskerfi.

Jake Block sagði margt mæla með samvinnuleiðinni við innviðauppbyggingu og margar leiðir mætti fara í útfærslu samstarfs ríkis og einkafyrirtækja í samningum um tiltekna framkvæmd. Það ætti með öðrum orðum að komast upp úr þeim hjólförum að framkvæmd væri annað hvort á vegum ríkisins eingöngu eða alveg á vegum einkafyrirtækja. Samvinna ríkis og einkafyrirtækja væri ákjósanlegri leið. 

Lýsir eftir niðurstöðum árangursmælinga í ársskýrslum 

Ólafur Sigurðsson nefndi dæmi um „happdrættismenningu“ í kringum okkur, til dæmis um lukkuleik sem væri kynntur sem „Evrópukeppni í heppni“. Og hann brá upp á tjald góðkunningja landsmanna, sparibauknum sem Útvegsbankinn auglýsti ákaflega á miðjum níunda áratug aldarinnar er leið. Þá var sungið hástöfum um Trölla sem í kolli sínum geymdi gullið og eigendurnir fengu „vexti og vaxtavexti og vexti líka af þeim.“ 

Ólafur sagði að stjórn Birti lífeyrissjóðs hefði langtímasjónarmið að leiðarljósi í fjárfestingum og 10 ára viðmið fyrir ávöxtun eigna sem væri eðlilegt í ljósi þess að skuldbindingar sjóðsins væru að meðaltali til 20 ára. 

„Eitt er að setja sér 10 ára viðmið en annað að standa við þau og sýna árangur. Svo hefur Birta skrifað undir heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar. Við veltum fyrir okkur hvað það táknar í raun og veru að fjárfesta í sjálfbærni og hvernig við metum og mælum það sem við gerum.“ 

Ólafur benti á að samtök atvinnurekenda í Bandaríkjunum (e. Business Roundtable) hefðu endurskilgreint tilgang fyrirtækja með stjórnháttaryfirlýsingu 19. ágúst 2019 frá því að líta eingöngu til þröngra hagsmuna hluthafa til þess að hámarka hag allra haghafa:  viðskiptavina, starfsfólks, birgja, samfélagsins og hluthafa. Breytingin væri talin skila hluthöfum meiri virðisaukningu til lengri tíma og að þess sjáist glögg merki í umfjöllun um málið vestra. 

„Starfskjarastefna félaga sem lífeyrissjóðir eiga hluti í er stöðugt umræðuefni, svo sem eðlilegt er. Við veltum starfskjörum auðvitað fyrir okkur líka og höfum skoðun á þeim á hluthafafundum. Árangur í rekstri hlýtur að vera forsenda ákvarðana um starfskjör en staðreynd er að í mörgum tilvikum er ekki gerð grein fyrir niðurstöðum árangursmælinga í ársskýrslum félaga. Hvernig eiga þá hluthafar að sjá og fylgjast með því hvernig árangur í viðkomandi félögum er metinn og tengdur við starfskjör? Gera verður ráð fyrir að árangur verði í auknum mæli metinn til langs tíma og varði eftir atvikum alla haghafa.“ 

„Veðjað á uppáhaldsgæðinga“ 

„Lífeyrissjóðir töpuðu vissulega í efnahagshruninu en þeir stóðu sig samt býsna vel. Helst má gagnrýna þá fyrir að hafa í aðdragandanum veðjað á uppáhaldshesta. Sumir voru hrifnir af Baugi, aðrir af Exista. Lífeyrissjóðaforingjar sáu að menn á þeim bæjum höfðu náð óskaplega góðum árangri, félögin stækkuðu og stækkuðu og arðsemin var ótrúlega góð ár eftir ár. 

Einmitt það hefði átt að vera umhugsunarefni. Ef eitthvað er ótrúlegt ár eftir ár er líklegt að það sé bara ekki satt! Stærstu mistök lífeyrissjóðanna voru að dreifa ekki áhættunni nægilega mikið í stað þess að velja sér uppáhalds auðjöfra,“ sagði Benedikt Jóhannesson og bætti við: 

„Gjarnan er talað um að fjárfestar og aðrir eigi ekki að hafa öll egg í sömu körfu. Ég vil bæta því við, að ef menn vilja á annað borð geyma egg í körfum eiga þeir ekki að hafa allar körfurnar sínar á sama stað!“ 

Benedikt vék að ákvæði laga um að lífeyrissjóðir mættu ekki fjárfesta erlendis nema allt að helming eigna sinna og sagði þá reglu „afar heimskulega.“ Hann lagði lífeyrissjóðamönnum í salnum lífsreglur í lok máls síns: 

„Heiðarleiki skiptir miklu máli. Fjárfestum í náttúruvænum og heiðarlegum fyrirtækjum, lærum af reynslunni og veðjum ekki á einhverja uppáhaldshesta. Forðumst vafasöm félög og þá sem menga eða hafa verið staðnir að spillingu, peningaþvætti eða mútugreiðslum.“