Rannsókn á nægjanleika lífeyrissparnaðar

Í desember 2014 gaf Fjármálaeftirlitið, í samstarfi við Landssamtök lífeyrissjóða, út skýrslu um nægjanleika lífeyrissparnaðar á Íslandi. Rannsóknin var að mestu leyti sambærileg verkefni sem OECD átti frumkvæði að og hefur verið unnið samtímis í nokkrum löndum í Evrópu og Ameríkuálfunum.

Helstu niðurstöður rannsóknarinnar voru að íslenska lífeyriskerfið er sterkt í alþjóðlegum samanburði og uppfyllir meginkröfur OECD. Ísland sker sig úr að því leyti að nærri 77% af lífeyrisgreiðslum munu koma úr sjóðum sem hafa safnað eignum til greiðslu lífeyris. Í niðurstöðunum segir einnig að lífeyrisgreiðslur Tryggingastofnunar eru mikilvægt öryggisnet fyrir lágtekjuhópa. Öllum, sem uppfylla skilyrði um 40 ára búsetu á Íslandi, er tryggður lífeyrir vel umfram fátæktarmörk. Einnig kemur fram að greiðslur lífeyrissjóðanna munu fara hækkandi á komandi áratugum og samanlagður lífeyrir frá sjóðunum og almannatryggingum verður að meðaltali um þriðjungi hærri en hjá þeim sem nýlega hófu töku lífeyris. Jafnframt mun hlutur viðbótarlífeyrissparnaðar (séreignar) fara vaxandi.

Nægjanleiki lífeyrissparnaðar