Raunávöxtun lífeyrissjóða yfir 9% á árinu 2020

Landssamtök lífeyrissjóða áætla að lífeyrissjóðir landsmanna hafi skilað að meðaltali rúmlega 9% raunávöxtun allra eigna sinna á árinu 2020. Raunávöxtun eigna sjóðanna árið 2019 var 11,8%.

Þrátt fyrir að árið 2020 hafi á margan hátt verið óvenjulegt skiluðu lífeyrissjóðirnir því góðri ávöxtun og árangur að þessu leyti er vel yfir 3,5% ávöxtunarviðmiði þeirra. Þó er mikilvægt að hafa í huga að sjóðirnir eru langtímafjárfestar og því skiptir langtímaávöxtun mun meira máli fyrir lífeyrisréttindi en einstök fjárfestingarár. 

Ávöxtunartölur ársins 2020 eru áætlaðar, endanlegar tölur birtast þegar sjóðirnir skila ársreikningum sínum. 

Línurit sem sýnir raunávöxtun lífeyrissjóða Eignir lífeyrissjóða

Erlendar eignir lífeyrissjóða jukust talsvert á árinu 2020 sem annars vegar er rakið til hækkandi hlutabréfaverðs erlendis og hins vegar til veikingar krónunnar.

Erlendar eignir voru í lok nóvember komnar í 34% af heildareignum og hefur hlutfallið aldrei verið hærra.

Innlendar eignir skiluðu einnig ágætri ávöxtun þótt hækkanir þar væru minni.

Stýrivaxtalækkanir Seðlabanka Íslands leiddu til breytinga á íbúðalánamarkaði og drógust verðtryggð íbúðalán sjóðanna nokkuð saman á árinu 2020.

Úrræði vegna COVID

Á vormánuðum 2020 ákváðu íslensk stjórnvöld að heimila sérstaka tímabundna útgreiðslu séreignarsparnaðar vegna COVID-19 og námu sérstakar útgreiðslur 24,5 milljörðum króna til 7. janúar 2021 að telja.

Áætlað er að til mars 2022 verði alls 28,3 milljarðar króna af séreignarsparnaði greiddir út vegna sérstakra COVID-ráðstafana stjórnvalda.

Í marsmánuði 2020 var fundur stjórnar LL og framkvæmdastjóra lífeyrissjóða með seðlabankastjóra og í famhaldinu hvatti stjórn LL lífeyrissjóða til þess að halda að sér höndum um gjaldeyriskaup næstu þrjá mánuðina. Tímabilið var síðan framlengt um aðra þrjá mánuði þannig að á hálfu síðastliðnu ári, frá mars til september, fluttu sjóðirnir mjög lítinn gjaldeyri úr landi.

Þá gerðu lánveitendur með sér samkomulag í mars 2020 um tímabundna greiðslufresti á lánum fyrirtækja og var jafnframt gripið til úrræða fyrir lánþega sem lentu í greiðsluerfiðleikum vegna sjóðfélagalána.