Eignir lífeyrissjóða á fyrri hluta árs 2022

Eignir lífeyrissjóða á fyrri hluta árs 2022

Lífeyrissparnaður Íslendinga dregst saman frá áramótum

Eftir mjög góða ávöxtun undanfarin ár hafa eignir íslensku lífeyrissjóðanna dregist saman á fyrri helmingi árs 2022 og voru 6.386 ma.kr í lok júní í samanburði við 6.747 ma.kr við árslok 2021.

Þetta kemur fram í tölum sem Seðlabanki Íslands birtir yfir mánaðarlega stöðu lífeyrissjóða. Á fyrri helmingi árs 2022 hafa eignir sjóðanna lækkað um 5,4%, innlendar eignir hafa nokkurnveginn staðið í stað á tímabilinu og eru um 4.310 ma.kr en erlendar eignir lækkað um rúm 14% og standa í um 2.070 ma.kr. Lækkun erlendra eigna má rekja til viðsnúnings á erlendum eignamörkuðum og til styrkingar krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum. Hlutfall erlendra eigna lífeyrissjóða var við árslok 2021 komið upp í tæp 36% en hefur lækkað og var rúm 32% í lok júní 2022. 

Íslensku lífeyrissjóðirnir eru langtímafjárfestar og við síðustu áramót var meðalávöxtun til 5 ára 7,8% og 10 ára 6,6%. Breytingar til lækkunar á eignaflokkum til skamms tíma hafa ekki áhrif á langtímamarkmið sjóðanna sem er að ávaxta eignir sjóðfélaga og greiða lífeyri eftir starfslok. 

Húsnæðislán lífeyrissjóða

Útlán lífeyrissjóða til  kaupa á húsnæði fóru vaxandi á fyrri hluta árs 2022 en á árunum 2020-21 höfðu margir fært húsnæðislán yfir til bankanna. Fyrstu 6 mánuði ársins námu ný útlán lífeyrissjóða umfram uppgreiðslur rúmum 20 ma.kr. Verðtryggð lán drógust saman um tæpa 16 ma.kr en óverðtryggð lán jukust hins vegar um rúma 36 ma.kr. Því er ljóst að áfram er mikil ásókn í óverðtryggð lán umfram verðtryggð lán. Heildarútlán lífeyrissjóða voru 515 ma.kr í lok júní 2022 og er hlutdeild sjóðanna í íbúðalánamarkaði um 22% á móti bönkum og Íbúðalánasjóði. 

Á Lífeyrismál.is má sjá helstu hagtölur lífeyrissjóða undir Tölur og gögn.