Fjármálavit verður ekki í askana látið

Fjármálavit verður ekki í askana látið

Fjármálavit verður ekki í askana látið

Askana? Nei, enda eru þeir bara til á Þjóðminjasafninu og í frásögnum af matarsiðum í baðstofum torfbæja fyrir minnst 150 árum. Núna borðum við af diskum og æskublómi landsins sækir fjármálavit í sérhannað námsefni í grunnskólnum.

Meining gamla máltækisins Ekki verður bókvit í askana látið er sú að lærdóminn sé ekki hægt að skammta eins og mat á disk nú til dags eða í ask í gamla daga. Fólk verði sjálft að hafa fyrir því að afla þekkingarinnar. Þar kemur einmitt verkefnið Fjármálavit til sögunnar og auðveldar ungmennum að verða margs vísari um meginatriði fjármála. Markmið þess er að efla fjármálalæsi útskriftarárganga í grunnskólum landsins, eins og þar stendur.

Lífeyrissjóðirnir til liðs við Fjármálavit

Samtök fjármálafyrirtækja höfðu frumkvæði að Fjármálaviti haustið 2014 og síðan þá hafa mörg þúsund nemendur 10. bekkjar hringinn í kringum landið fræðst um sparnað, skynsemi og fyrirhyggju í fjármálum.

Kristín Lúðvíksdóttir var ráðin verkefnisstjóri og hefur á sínum snærum á annað hundrað starfsmanna í bönkum og öðrum fjármálafyrirtækjum, tryggingafélögum, greiðslukortafyrirtækjum og lífeyrissjóðum til fara í skóla, fræða og upplýsa ungmennin í krafti Fjármálavits.

Lífeyrissjóðir, já. Landssamtök lífeyrissjóða gengu nýlega til liðs við verkefnið og styrkja það og styðja.

Svo skal því rækilega til haga haldið að sá vísi framkvæmdastjóri Almenna lífeyrissjóðsins og fyrrum formaður Landssamtaka lífeyrissjóða, Gunnar Baldvinsson, er höfundur Fyrstu skrefa í fjármálum, nýrrar bókar um grunnatriði í fjármálum einstaklinga sem hann vann upp úr bókinni sinni Lífið er rétt að byrja beinlínis til að nota við að kenna tíundu bekkingum fjármálalæsi. Bókina fá allir nemendur tíunda bekkjar gefins.

Útbúið hefur verið stuðningsefni og leiðbeiningar handa kennurum sem vilja nota bókina og til stendur að útfæra sérstakt námskeið í nafni Fjármálavits  þar sem bókin góða, Fyrstu skref í fjármálum, verður aðalkennslugagnið.

„Við vitum um nær 30 grunnskóla þar sem nýja bókin hans Gunnars Baldvinssonar er kennd í vetur, annað hvort sem liður í stærðfræðinámi eða lífsleikni. Stærðfræðikennari í einum þessara skóla notaði bókina í kennslu í fimm vikur með verkefnum og var mjög ánægður. Þegar kennarar skynja verðmætið í þessum gögnum í skólastarfi er ákveðnum árangri náð og hvetur okkur til enn kröftugri sóknar,“ segir Kristín verkefnisstjóri.

Hvað kosta ég?

„Eigið námsefni okkar varð að stórum hluta til í samvinnu við kennaranema í Háskóla Íslands. Verkefnin miðast við hópavinnu. Framsetningin er einföld, skýr og aðgengileg. Við höfðum samband við alla grunnskólana og buðumst til að koma í heimsókn og fara í gegnum námsefnið á um 80 mínútum. „

Starfsmenn fyrirtækja sem aðild eiga að Fjármálaviti heimsækja skólana sem leiðbeinendur verkefnisins og koma endurnærðir af fundi nemenda og kennara. Þetta gefur öllum mikið og góð viðbrögð berast úr öllum áttum, líka frá foreldrum.

Nú gerist það æ oftar að skólarnir hafa samband að fyrra bragði. Það segir sína sögu og er mjög jákvætt. Í fyrravetur fórum við í 110 skóla og hittum yfir 4.000 nemendur.

Í verkefnunum ætlum við nemendum að setja sér markmið í fjármálum og bregðast við óvæntum uppákomum með tilheyrandi fjárútlátum eða óvæntum strikum í reikning sparnaðar.

Við fjöllum um sparnað, fjárhagsáætlun og launaseðla og látum krakkana svara spurningunni: Hvað kosta ég? Svörin geta verið ærið mismunandi og hugmyndir þeirra ólíkar eftir því í hvaða umhverfi þeir hafa alist upp. Borgarbörnin hneigjast stundum til að vilja vera dýr í rekstri og kaupa til að mynda merkjavörufatnað eða fínustu farsímana. Krakkar í sveit eða í sjávarútvegsplássunum hugsa kannski minna um flott föt eða síma, vinna samt mikið en eru oft áberandi meðvituð um að leggja fyrir og spara. Safna sér jafnvel fyrir reiðhesti!“ 

Að lesa og skilja launaseðla

Fastur liður á námskeiðum Fjármálavits er að lesa og skilja launaseðla. Ungt fólk kvartar yfir því að botna ekki í öllu sem þar stendur en fræðist mikið og verður betur læst en áður, meðal annars um iðgjöld í lífeyrissjóði, hvert þau renna og hvers vegna.

„Það var frábært að fá lífeyrissjóðina með í Fjármálavit og gefur verkefninu í senn nýja vídd og aukinn byr undir vængi. Við tölum eðlilega mikið um lífeyrissparnað og markmið sparnaðar vegna kaupa á fyrstu íbúð. Lífeyrissjóðirnir eiga því svo sannarlega heima í félagsskapnum okkar og ég veit að starfsmenn þeirra eru ekki síður ánægðir með samkomurnar  í grunnskólunum en allir aðrir sem að þessu koma.“

Á námskeiðunum ber á góma mörg þekkt hugtök úr umhverfi okkar, sum þeirra eiga hinir fullorðnu reyndar fullt í fangi með að skilja til fulls en það er önnur saga! Skattar, persónuafsláttur, stéttarfélagsaðild, tryggingar, lán og yfirdráttarlán, vextir, séreignarsparnaður, og svo framvegis.

„Markmiðið er að krakkarnir verði sterkari og upplýstari um fjármálaumhverfi sitt. Til lengri tíma litið væntum við þess að kennsla í fjármálalæsi verði eðlilegur hluti af námsskrá grunnskólanna þannig að fræðslan verði sjálfsagður hluti tilverunnar og alltaf til staðar og heimsóknir Fjármálavits verði því á endanum óþarfar! “