Hilmar Harðarson nýr formaður stjórnar Landssamtaka lífeyrissjóða

Hilmar Harðarson nýr formaður stjórnar Landssamtaka lífeyrissjóða
Hilmar Harðarson, stjórnarmaður í Lífeyrissjóðnum Birtu, var kjörinn formaður stjórnar Landssamtaka lífeyrissjóða að loknum aðalfundi 31. maí og tók við af Guðrúnu Hafsteinsdóttur, Lífeyrissjóði verzlunarmanna. Gylfi Jónasson, framkvæmdastjóri Festu lífeyrissjóðs, var endurkjörinn varaformaður stjórnar.  

Þeir stjórnarmenn sem voru í kjöri voru allir endurkjörnir.  

Hilmar Harðarson er formaður og framkvæmdastjóri félags iðn- og tæknigreina og einnig formaður Samiðnar. Hann var fyrst kjörinn í stjórn Landssamtaka lífeyrissjóða á ársfundi 2020.

Fráfarandi formaður, Guðrún Hafsteinsdóttir, sagði í upphafi máls síns, þegar hún flutti skýrslu stjórnar, að kórónuveirufaraldurinn hefði óhjákvæmilega sett mark sitt á starfsemi lífeyrissjóðakerfisins.  Áhrifa þess gætti líka á aðalfundinum nú. Hann var boðaður sem fjarfundur en í salnum á Grandhóteli voru líka um 30 manns og atkvæði voru greidd rafrænt.

Ávöxtun eigna betri en flestir þorðu að vona    

Árið 2019 var eitt besta ávöxtunarár eigna íslenskra lífeyrissjóða sem sögur fara af og búist var

 við því að veirufaraldurinn setti stórt og mikið strik í reikninginn á árinu 2020. Reyndin varð allt önnur og betri en flestir þorðu að vona, einkum vegna góðrar ávöxtunar erlenda eigna. Innlendar eignir skiluðu líka góðri ávöxtun þegar allt kom til alls.

Graf sem sýnir árlega raunávöxtun lífeyrissjóða

Ávöxtun lífeyrissjóða landsmanna var 9,4% að jafnaði á árinu 2020 og eignir sjóðanna í lok ársis 2020 vonru 5.715 milljarðar eða sem svarar til tvöfaldrar landsframleiðslu.

Guðrún Hafsteinsdóttir sagði síðan í ræðu sinni:

„Seðlabankastjóri mæltist til þess við að lífeyrissjóðir gerðu hlé á gjaldeyriskaupum til erlendra fjárfestinga frá 17. mars 2020 að  telja og legðu þannig sitt af mörkum til að bregðast við miklum og skörpum samdrætti útflutningstekna þjóðarinnar og mögulegum þrýstingi á gengi krónunnar vegna þessa.

Graf sem sýnir eignir lífeyrissjóða

Þetta hlé var í fyrstu ákveðið til þriggja mánaða en síðan framlengt í aðra þrjá mánuði eða til 17. september. Lífeyrissjóðir studdu þannig í verki viðleitni til að stuðla að stöðugleika á gjaldeyrismarkaði og gengu hófsamlega fram eftir að hléi á gjaldeyriskaupum lauk í fyrrahaust. Sjóðirnir sýndu þarna samfélagslega ábyrgð líkt og þeir gerðu sömuleiðis svo um munaði eftir efnahagshrunið 2008.

Í beinu framhaldi nefni ég að á vettvangi okkar eru í seinni tíð oft viðruð sjónarmið í þá veru að lífeyrissjóðirnir geti og eigi að koma að uppbyggingu samfélagsins með því að semja um að fjármagna tiltekna þætti eða innviði þess, til dæmis í samgöngu-, mennta- eða heilbrigðiskerfum landsmanna. Þannig færi saman að flýta nauðsynlegum verkefnum annars vegar og ávaxta eignir lífeyrissjóða hins vegar, hvoru tveggja í þágu lands og lýðs. Við höfum vel heppnað fordæmi frá því þegar lífeyrissjóðir komu að fjármögnun Hvalfjarðarganga seint á öldinni sem leið.

Nærtækt er að velta fyrir sér hvort Sundabraut sé ekki verkefni sem lífeyrissjóðir geti tekið að sér að fjármagna og halda utan um að einhverju leyti. Það er í það minnsta umhugsunar virði. Höfum þá hugfast líka að fjárfestingar í samgöngukerfinu eru jafnan til þess fallnar að greiða leiðir og stytta þær sem aftur stuðlar að því að minnka kolefnisspor bílaumferðarinnar. Umhverfisáhrif samgöngumannvirkja eru jákvæð sem því nemur.“

Sambýli lífeyriskerfa áleitin spurning

Guðrún vék að yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá í september 2020, þar sem boðað var til stefnumörkunar í lífeyrismálum í samstarfi við heildarsamtök á vinnumarkaði og Landssamtök lífeyrissjóða. Þetta samráðsferli væri enn ekki hafið og ekki lægi heldur fyrir hvernig stjórnvöld hugsuðu sér að standa að verkefninu:

  „Ein stærsta og áleitnasta spurningin varðar auðvitað sjálft sambýli lífeyriskerfanna. Þunginn í þeirri umræðu er mikill og vaxandi eins og birtist í daglegum skoðanaskiptum í samfélaginu.

Sem nærtækt dæmi um samtalsefni nefni ég ákveðnar vísbendingar um auknar örorkugreiðslur úr lífeyrissjóðum í kjölfar Covid-19 faraldursins, annars vegar beinlínis vegna veikinda af völdum Covid eða hins vegar vegna afleiðinga aukins atvinnuleysis í faraldrinum. Þetta er áhyggjuefni séð af sjónarhóli lífeyrissjóða og samfélagsins alls.

Hlutfall örorkulífeyrisþega fer hækkandi í samfélaginu og mikilvægt að rýna orsakir þessa og hvernig bregðast skuli við. Konur á miðjum aldri reynast vera sá hópur þjóðfélagsins þar sem örorka eykst hvað mest en sú þróun hefur átt sér stað jafnt og þétt á undanförnum 20 árum. Örorka varðar okkur öll og skiptir það lífeyrissjóðina miklu að jafnvægi sé milli greiðslna áfallalífeyris og eftirlauna til sjóðfélaga. Mikilvægt er að samtal eigi sér stað um hlutverk lífeyrissjóðakerfisins annars vegar og ríkisins hins vegar í greiðslum örorkulífeyris.“

Myndir frá ársfundi