Lengsta hagvaxtarskeið sögunnar lengist enn

Lengsta hagvaxtarskeið sögunnar lengist enn

„Efnahagslega höfum við náð okkur eftir efnahagshrunið og stöndum raunar mun betur nú en fyrir hrun. Í stjórnmálum og samfélagsumræðum endurspeglast hins vegar að við höfum ekki náð okkur félagslega, andlega og pólitískt. Það mun svo hafa áhrif á efnahagsmálin,“ sagði Ásgeir Jónsson, hagfræðingur og dósent í Háskóla Íslands meðal annars á fundi á vegum fræðslunefndar Landssamtaka lífeyrissjóða á Grandhóteli í Reykjavík 15. nóvember.

Salurinn var þéttsetinn enda fjallaði gestur fundarins um húsnæðis- og lánamál, viðfangsefni sem koma mjög við sögu hjá lífeyrissjóðum og starfsmönnum þeirra.

Ásgeir sagði að yfirstandandi hagsveifla á Íslandi væri sú lengsta frá síðari heimsstyrjöld og sæi ekki fyrir enda á hagvextinum þótt merki væru um einhverja kólnun upp á síðkastið. Samt hefði verið mikið talað um það í kosningabaráttunni í haust og í vetur að ýmislegt mætti betur fara í samfélaginu og efnahagslífinu.

„Staðreyndin er sú að undanfarin ár hafa verið frábær og einstök. Meðallaun í landinu hækkuðu á tveimur árum um 20-30% og Íslandsmet var slegið í kaupmáttaraukningu. Tekist hefur samtímis að auka kaupmátt, reka utanríkisviðskiptin með afgangi, halda verðstöðugleika og lágri verðbólgu og greiða niður skuldir hins opinbera. Þetta er einstök staða.

Raungengi er mælikvarði á samkeppnisstöðu og nú erum við komin í svipaðar hæðir og 2007. Sá er samt stóri munurinn að þá var viðskiptahalli upp á tugi prósenta en nú er afgangur á utanríkisviðskiptum.

Vafamál er að við getum haldið áfram að hækka laun langt, langt umfram það sem gerist í öðrum ríkjum. Ísland er nefnilega ekkert eyland að því leyti.“

Byggingariðnaður drifkraftur hagvaxtar 

Ásgeir segir að hækkun húsnæðisverðs undanfarin misseri skýrist af miklum launahækkunum á vinnumarkaði en nú beri svo við að hækkunarferlið hafi stöðvast. Íbúðir eða hús séu lengur í sölu og seljist á endanum á ásettu verði eða undir því.

Óvíst sé hvað gerist á næstunni. Enn meiri launahækkanir eða aukinn aðgang að lánsfé þurfi til að þrýsta fasteignaverðinu upp á nýjan leik. Þá hafi fasteignamarkaðurinn verði sveltur af nýbyggingum árum saman. Nú fyrst sé byggingariðnaðurinn að komast á verulegt skrið eftir að hafa lamast eftir hrunið. Verktakafyrirtækin hafi laskast; tækin hafi verið seld úr landi og iðnaðarmennirnir farið í stríðum straumum til Noregs.

Ásgeir telur að byggingariðnaðurinn verði drifkraftur hagvaxtar á Íslandi á næstunni og auknar opinberar framkvæmdir muni hafa sitt að segja líka. Hann vísar í því sambandi til viðræðna um myndun nýrrar ríkisstjórnar.

„Flokkarnir þrír sem tala saman núna virðast vera sammála um að eyða peningum eins og forðum þegar sjálfstæðismenn og sósíalistar sameinuðust í Nýsköpunarstjórninni eftir seinna stríð! Vinstri-grænir verða líka að geta tryggt baklandi sínu meiri ríkisútgjöld. Áframhaldandi hagvöxtur verður því að nokkru leyti ríkisdrifinn. Talið um „innri uppbyggingu“ er bein ávísun á aukin ríkissvif í framkvæmdum.“ 

Viðskiptaafgangurinn líka lífeyrissjóðakerfinu að þakka 

Ásgeir sagði að raunvextir hefðu lækkað verulega frá því þeir voru gefnir frjálsir á níunda áratugnum og spáði því að þeir myndu lækka enn frekar. Hann benti á að straumhvörf væru að verða í fjármagnsflutningum. Alla 20. öldina hefðu Íslendingar flutt inn fjármagn en nú hefði dæmið snúist við og Íslendingar væru að breytast í þjóð sem flytti út fjármagn.

„Viðskiptaafgangurinn á sér ekki aðeins skýringar í ferðaþjónustu eða góðu gengi í öðrum greinum, heldur ber að þakka hann líka miklum sparnaði sem á sér stað með sjóðasöfnun í lífeyrissjóðakerfinu.

Lífeyrissjóðir hljóta alltaf að fjármagna íslenska húsnæðiskerfið á Íslandi – spurningin er aðeins hvort þeir láni sjálfir eða í gegnum aðra. Verðtrygging verður áfram við lýði og lífeyriskerfið mun ávallt tryggja mikla eftirspurn eftir verðtryggðum skuldum og gera slík lán tiltölulega hagstæð fyrir íslensk heimili. Ef á að afnema verðtryggingu lána verður jafnframt að afnema verðtryggingu lífeyris. Það hlýtur að vera sama aðgerðin ef út í slíkt er farið.

Þjóðin er vissulega kleyfhuga í verðtryggingarmálinu eins og ýmsu öðru. Mikill meirihluti vill afnema verðtryggingu samkvæmt niðurstöðum skoðanakannana, en mikill meirihluti velur sér á sama tíma verðtryggð lán til húsnæðiskaupa! Ætti ekki fólk sem er á móti verðtryggingu ekki að byrja á að afnema hana í eigin ranni?“