Mýramaður með mörg járn í eldi í Skagabyggð

Jón Jóhannsson, málarameistari, og Erla fyrir framan gamla kaupfélagshúsið á Skagaströnd en Lausnami…
Jón Jóhannsson, málarameistari, og Erla fyrir framan gamla kaupfélagshúsið á Skagaströnd en Lausnamið ehf. er þar til húsa.

Mýramaður með mörg járn í eldi í Skagabyggð

Sjálfstætt starfandi rekstrarfræðingur og ráðgjafi, bóndi með sauðfé, hross, hunda og skóg, stjórnarmaður í Stapa lífeyrissjóði og Landssamtökum lífeyrissjóða, varamaður í hreppsnefnd Skagabyggðar. Erla Jónsdóttir, fædd og uppalin Mýramaður, drap niður fæti á Skagaströnd 1999 og ætlaði að vinna þar í tvö ár eða svo en er þar enn og verður. 

„Ég útskrifaðist með BSc í rekstrarfræðum frá Háskólanum á Akureyri vorið 1999 og leit þá í kringum mig eftir vinnu. Sjávarútvegsfyrirtækið Skagstrendingur auglýsti laust starf aðalbókara, ég sótti um það og fékk. 

Hingað til Skagastrandar kom ég í júní og byrjaði sem bókari en var orðin fjármálastjóri Skagstrendings um tveimur mánuðum síðar. Þáverandi fjármálastjóri sagði upp skömmu eftir að ég kom og mér var boðið að taka við. Ég kastaði mér þarna út í mjög djúpa laug 25 ára gömul og réttstaðin upp af skólabekk! 

Þetta var sannkölluð eldskírn, ekki síst í ljósi þess að ókyrrt var í hluthafahópi félagsins, sem reyndi meðal annars á fjármálastjórann. Hlutabréf voru keypt og seld og mikið spáð í eignarhluti. Ég sat oft langt fram á kvöld við að breyta hluthafaskránni og sjá til þess að hún væri alltaf nákvæmlega rétt.“

Heimafólk í héraði fagnaði stofnun sprotafyrirtækis 

Félögin Fiskiðjan Skagfirðingur hf. og  Skagstrendingur hf. voru formlega sameinuð í ársbyrjun 2005 undir þeim hatti sem nú heitir Fisk Seafood í eigu Kaupfélags Skagfirðinga með höfuðstöðvar á Sauðárkróki. 

Erla varð fjármálastjóri og gæðastjóri sameinaðs félags og sótti vinnu sína í Skagafjörð mörg næstu ár eða þar til hún lét af störfum hjá Fisk Seafood á árinu 2018. Þá söðlaði hún um og gerðist sjálf eigandi sprotafyrirtækis og atvinnurekandi á Skagaströnd. 

„Sigríður Gestsdóttir, viðurkenndur bókari, vann á sínum tíma með mér hjá Skagstrendingi. Hún stakk upp á því í fyrra að við rugluðum saman reitum í vinnu og úr varð að ég stofnaði bókhalds- og rekstrarþjónustufyrirtækið Lausnamið ehf. Ég fann starfseminni stað á jarðhæð gamla kaupfélagshússins á Skagaströnd. Þar erum við og þjónum viðskiptavinum í heimahéraði og víðar um land, til dæmis í Borgarfirði og í Reykjavík. 

Við erum í bókhaldi og rekstrarráðgjöf, gerum viðskiptaáætlanir og sinnum líka gæðamálum í fyrirtækjum ef svo ber undir. Í vetur innleiddi ég til að mynda birgðakerfi í matvælafyrirtækinu Vilko ehf. á Blönduósi og er að setja upp gæðahandbók fyrir það núna. Við erum með samstarfssamning við endurskoðunarfyrirtækið Enor á Akureyri sem við getum leitað til með álitamál. 

Við hófum starfsemina með opnu húsi í byrjun janúar og ég held svei mér þá að helmingur íbúa á Skagaströnd hafi litið inn til að fagna með okkur. Viðbrögðin voru ótrúlega sterk og við fengum heillaóskir næstu daga úti í búð og á götunni. Fólk kunni að meta nýjan vinnustað þótt hvorki væri fjölmennur né sérlega umsvifamikill. 

Þróunin í atvinnumálum og byggðamálum hefur verið okkur mótdræg hérna á svæðinu en mér finnst samt vera ákveðin vitundarvakning meðal íbúa. Við viljum búa hérna en þá þarf að skapa fleiri störf. Dapurlegt er því að sjá ekki í boði á vegum ríkisins fleiri störf sem eru óháð landfræðilegri staðsetningu. Ég nefni Ríkiseignir sem dæmi. Þurfa öll störf sem tengjast eignum ríkisins endilega að vera við Borgartún í Reykjavík? 

Ætli þróunin í grunnskólanum okkar segi ekki meira en mörg orð. Þegar dóttir mín byrjaði í Höfðaskóla fyrir tíu árum voru þar um 120 nemendur en einungis um 90 þegar hún útskrifaðist í vor. Þarna sést í hnotskurn afleiðing þess að yngra fólkið flytur burt og þeir sem eftir eru eldast.“ 

Mín skoðun er sú að taka þurfi pólitíska ákvörðun um hvort halda skuli öllu landinu í byggð eða ekki. Ekki má einblína á byggðastuðning við landbúnað og strandveiðar. Það þarf að koma til einhvers konar tekjujöfnun meðal landsmanna eins og þekkist til dæmis í Noregi og gerist þar meðal annars gegnum skattkerfið. 

Við höfum til dæmis ekki sama aðgang að heilbrigðisþjónustu og þeir sem búa í nágrenni Akureyrar eða Reykjavíkur. Ástandið hefur versnað til muna síðustu 20 árin. Ef ég þarf til sérfræðings fer ekki minna en dagurinn í það, ríkið tekur ekki þátt í kostnaði við fleiri ferðir en tvær á ári.“ 

Athafnasemi á tveimur jörðum 

Erla er fædd og uppalin á bænum Álftanesi á Mýrum í Borgarfirði. Fyrsti ábúandinn þar var sjálfur Skalla-Grímur sem reyndar er þekktari fyrir að búa á Borg á Mýrum. Í Egilssögu er greint frá því að hann hafi gefið tengdaföður sínum Álftanes, þessa sögufrægu jörð í fallegu umhverfi. 

Erla er og verður Mýramaður, segir hún sjálf. Í henni eru ósvikin sveitagen sem hún bar með sér til Skagastrandar á sínum tíma. Fljótlega eftir að hún settist að á Skagaströnd var hún komin með verðandi eiginmann upp á arminn, Jóhann Inga Ásgeirsson, þá sjómann á togara Skagstrendings, Arnari HU. Þau vildu gjarnan eignast bújörð, leituðu í nokkur ár og eignuðust tvær samliggjandi jarðir, Kambakot 2007 og Hafursstaði svo 2014. 

„Við búum með kindur, hross og hunda og svo er ég skógarbóndi líka. Við höfum plantað um 30.000 plöntum og ætlum að planta að minnsta kosti 40.000 plöntum til viðbótar.    

Við búum með um 350 kindur og 4 hreinræktaða Border collie hunda.  Á Hafursstöðum erum við að koma upp aðstöðu til að taka blóð úr fylfullum hryssum til framleiðslu frjósemislyfja. 

Svo er ég núna að undirbúa heimavinnslu með kjöt. Á Skagaströnd er starfrækt Vörusmiðja með viðurkenndan og vottaðan vinnslusal sem allir geta fengið leigðan til vinnslu matvæla. Mér þykir mjög áhugavert að nýta mér nálægð við sláturhús og svo þessa aðstöðu til þess að bjóða upp á matvæli með mjög takmarkað kolefnisfótspor.“

Rétt væri að greina á milli eftirlauna og örorku í kerfinu 

Erla Jónsdóttir var kjörin varamaður í stjórn Stapa lífeyrissjóðs á árinu 2014 og síðar á sama ári varð hún aðalmaður í stað manns sem sagði sig úr stjórninni. Árið 2018 var hún síðan orðin stjórnarformaður og er núna varaformaður. Hún er sömuleiðis aðalmaður í stjórn Landssamtaka lífeyrissjóða, situr í samskiptanefnd samtakanna og sækir reglulega fundi fyrir sunnan í hverjum mánuði. Stjórnarfundir í Stapa lífeyrissjóði eru oftast í síma því ekki er alveg einfalt mál að kalla stjórnarmenn saman eins oft og þörf krefur, enda langt á milli þeirra. Starfssvæði sjóðsins nær nefnilega frá Húnaflóa austur um Norðurland og allt til Hafnar í Hornafirði. 

„Það vantaði konu í stjórn Stapa og böndin bárust einfaldlega að mér! Ég hélt satt best að segja að þáverandi framkvæmdastjóri Fisk Seafood væri að gera mér grikk með því að halda mér fram til stjórnarkjörs en hann sór það af sér og ég ákvað bara að slá til. Sannleikurinn er nefnilega sá að ég talaði ekki fallega um lífeyrissjóðina á þessum tíma, fannst fjármunir einhvern veginn gufa þar upp og gat bara ekki skilið hvernig þetta kerfi virkaði. 

Lífeyrissjóðakerfið er byggt upp með þeim hætti að iðgjöld renna ekki einvörðungu til greiðslu eftirlauna heldur öðlast sjóðfélagar í leiðinni slysa- og veikindatryggingar. Hátt hlutfall iðgjaldagreiðslna, sem sjóðfélagar halda að séu ávísanir á eftirlaun, er greitt út sem lífeyrir vegna örorku. Mér finnst eðlilegt að greina þarna á milli þannig að iðgjöldin fari annars vegar í eftirlaunasjóð og hins vegar í örorkusjóð. Þannig ætti að koma fram á launaseðli hvað fólk greiðir til eftirlauna annars vegar og tryggingahlutans hins vegar. 

Þessu er ekki endilega einfalt að breyta en við erum með atvinnuleysistryggingasjóð og fæðingarorlofssjóð, því þá ekki að vera líka með örorkusjóð? Núverandi kerfi veldur óánægju þar sem fáir átta sig á því að þeir voru ekki aðeins að tryggja sér eftirlaun heldur fór stór hluti af iðgjöldunum í kaup á áfallatryggingum. 

Lífeyrissjóðum hefur fækkað mjög á tiltölulega fáum árum. Mér finnst þeir samt enn of margir en þar er ekki við lífeyrissjóðina að sakast. Þeir sem standa að baki sjóðunum taka slíkar ákvarðanir, lögvaldið eða samtök launafólks og atvinnurekenda..

Margt gott má annars segja um lífeyrissjóðakerfið en skerðing lífeyris almannatrygginga ríkisins er til óþurftar, varpar skugga á lífeyriskerfið í heild og skaðar ímynd þess. Lífeyrissjóðirnir voru stofnaðir með það að markmiði að útgreiðsla úr þeim yrði viðbót eftir starfslok en nú hefur almannatryggingakerfið í raun bara sparað sér þá fjármuni sem lífeyrissjóðirnir varðveita fyrir sjóðfélaga. Fyrir vikið sér fólk á eftirlaunum oft á tíðum engan ávinning af lífeyrissjóðasparnaði. Svo hafa frjálsu lífeyrissjóðirnir svokölluðu heimilað sjóðfélögum sínum að setja hluta skylduiðgjalds í séreign en heildarsamtök atvinnurekenda og launafólks hafa með samningum fremur stutt við samtryggingarréttindi. Vegna tekjutenginga almannatrygginga hefur myndast misræmi sem er ósanngjarnt þar sem séreignarréttindi skerða ekki greiðslur almannatrygginga en skerðingarnar eru verulegar þegar kemur til greiðslu samtryggingarréttinda. 

Þetta verður Alþingi að lagfæra og stöðva þessa mismunun á tekjutengingum. Jafnframt verður að draga verulega úr tekjutengingum almennt sem ganga allt of langt og allflestir sammála um að séu óréttlátar.“