Umfjöllun um Ísland í Investment and Pensions Europe

Ísland kemur vel út í alþjóðlegum samanburði

Í árlegu sérblaði lífeyristímaritsins Investment and Pensions Europe sem kom út nú í september eru tvær greinar um Ísland. Önnur þeirra lýsir helstu breytingum sem orðið hafa að undanförnu á starfsumhverfi lífeyrissjóða og regluverki um lífeyrismál. Hin greinin sem hér verður gerð að umtalsefni lýsir því hvernig Ísland hefur verið sett í efsta sæti í tveimur alþjóðlegum vísitölum og einnig í samanburði sem Norræna ráðherranefndin hefur látið gera.

Ísland var á árinu 2022 í efsta sæti heimsvísitölu lífeyriskerfa, Mercer CFA Global Pension Index, annað árið í röð. Áður hefur verið greint frá þessu í frétt hér á vefsíðu LL. 

Ísland var einnig efst á vísitölu kynbundins launamismunar, Global Gender Gap Index, sem þýska ráðgjafarfyrirtækið Statista gaf út í apríl 2023. Þar er reiknað út frá 14 mælikvörðum efnahagsmála, stjórnmála, mennta- og heilbrigðismála. Ísland fékk einkunnina 0,91 í vísitölu þar sem fullkomið launajafnræði kynjanna gæfi einkunnina 1. Í næstu sætum urðu Noregur með einkunnina 0,87 og Finnland með einkunn 0,86.

Sjá slóðina Global gender gap index 2023 | Statista

Kynjajafnræði í lífeyriskerfum á Norðurlöndunum 

Einnig er fjallað um skýrslu Norrænu ráðherranefndarinnar um kynjajafnræði í lífeyriskerfum norrænu ríkjanna. Þar er Ísland efst á blaði með minnstan kynjamun, 5%, og síðan kom Danmörk með 8% en hin löndin þrjú voru öll með yfir 20% og þar af Svíþjóð með mestan mun, 28%. Í lífeyriskerfi almannatrygginga á Íslandi (Tryggingastofnunar ríkisins) voru konur meira að segja með neikvæðan mun, þ.e. 21% hærri lífeyri en karlar.

Í skýrslunni eru veittar þær skýringar að ellilífeyrir almannatrygginga á Íslandi sé ekki byggður á iðgjöldum sem tekin eru af launum einstaklingsins á starfsævinni og í Danmörku eigi það sama við að mestu leyti. Í hinum löndunum þremur reiknast lífeyririnn að mestu leyti út frá iðgjöldum sem einstaklingurinn hefur greitt til kerfisins á starfsævinni.

Lífeyriskerfi sem byggja ekki á launatengdum iðgjöldum skili að jafnaði hærri lífeyri til kvenna en karla en þessu sé öfugt farið í lífeyriskerfum sem byggja á greiddum iðgjöldum.

Rannsóknin sem skýrslan byggist á sýndi að á Íslandi fengu konur í öllum aldursflokkum, þar á meðal þær sem hófu snemmtöku lífeyris fyrir 65 ára aldur, hærri lífeyri frá Tryggingastofnun en karlar. Mesti munurinn var 38% í aldurshópnum 65 til 69 ára. En bent er á að í þessum aldurshópi séu margir karlmenn enn í launavinnu sem leiðir til skerðingar á lífeyri þeirra frá almannatryggingum.

Sjá slóðina temanord2023-506.pdf (norden.org)

Viltu fylgjast með
og fá fréttabréfið okkar?
Netfangið þitt