Vandað til undibúnings grænbókar um lífeyriskerfið

,,Grænbók er fyrsta skrefið í afar mikilvægu og tímabæru verkefni, mótun framtíðarsýnar á íslenska lífeyriskerfið. Það er tilhlökkunarefni fyrir Landssamtök lífeyrissjóða og aðra sem vilja leggja sitt af mörkum til að gera gott betra.

Þannig hljóðuðu lokaorðin í erindi Stefáns Halldórssonar verkefnisstjóra á aðalfundi Landssamtaka lífeyrissjóða þegar hann fjallaði um undirbúning vegna samráðs við stjórnvöld og heildarsamtök á vinnumarkaði um stefnumörkun í lífeyrismálum landsmanna. Stefán hefur forystu um starf stýrihóps lífeyrissjóðanna þar að lútandi.

Málið á rætur að rekja til yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar 29. september 2020 í tilefni af viðræðum um forsendur svonefnds lífskjarasamnings. Þar var meðal annars fjallað um væntanlega grænbók og frumvarp til laga um „lögfestingu iðgjalds, jafnræði sjóðfélaga með tilliti til almannatrygginga og heimildir til ráðstöfunar tilgreindrar séreignar í tengslum við öflun húsnæðis“.

Frumvarpið var lagt fram á Alþingi 7. apríl 2021, tekið til fyrstu umræðu og síðan vísað til efnahags- og viðskiptanefndar til umfjöllunar. Borist hafa 30 umsagnir við málið. Stefán sagði að þar væru uppi misjöfn og margvísleg sjónarmið „sem speglar að viðfangsefnið er stórt og skoðanir eru skiptar.“

Samráðsferli um ,,grænbók um lífeyrismál"

Ríkisstjórnin lýsti því jafnframt yfir í fyrra að í kjölfarið yrði hafið samráðsferli um „grænbók um lífeyrismál“ sem kynnt yrði vorið 2021. Sá tímarammi heldur augljóslega ekki af því vorið, sem fólk flest miðar árstímann við, er liðið og komið fram á sumar. Beðið er frekara frumkvæðis ríkisstjórnarinnar en þeir sem hagsmuna eiga að gæta halda hins vegar áfram undirbúningi sínum og bíða átekta eftir því að heyra frá stjórnvöldum hvernig þau vilja haga vinnunni og samráðinu.

„Grænbók“ er umræðuskjal í opnu samráði og hluti af stefnumótunarferli stjórnvalda. Að því loknu verður væntanlega til „hvítbók“, drög að opinberri stefnu eða tillögur. Allt er þetta opið ferli og tillögur, ályktanir og umsagnir birtast á Vefnum, í samráðsgátt stjórnvalda. Þar er greið leið hagsmunaafla og almennings til að leggja orð í belg, bæði í ferli grænbókar og hvítbókar.

Alþjóðlegar áskoranir og úrbætur

Stefán kynnti sömuleiðis í erindi sínu Alþjóðalífeyrisvísitöluna, samanburð lífeyriskerfa 39 ríkja sem birtur er í skýrslu frá Mercer-CFA Institute frá október 2020. Þar tróna Holland og Danmörk á toppnum, tvö af fimm ríkjum sem tekin voru með í samanburði fimm lífeyriskerfa í athugun á vegum Landssamtaka lífeyrissjóða 2017. Hin þrjú ríkin voru Ísland, Svíþjóð og Bretland. Ísland er ekki með í alþjóðavísitölunni en Svíþjóð er þar í 6. sæti og Bretland í 15. sæti.

Í inngangi skýrslunnar um vísitöluna 2020 eru nefndar nokkrar áskoranir sem lífeyriskerfi ríkja standa frammi fyrir og kórónuveirufaraldurinn gerir sumar þeirra enn áleitnari en ella hefði verið. Þarna eru áskoranir sem eiga líka við Ísland:

 • Eldri borgurum fjölgar vegna lækkandi fæðingartíðni og lengri vænts lífaldurs.
 • Lágir vextir auka fjárfestingaráhættu lífeyrissjóða.
 • Veirufaraldurinn bitnar misjafnlega á samfélagshópum, til dæmis bitnar hann illa á atvinnugreinum þar sem hlutfallslega margar konur starfa.
 • Skuldabyrði ríkissjóða vegna COVID minnkar getu þeirra til að fjármagna lífeyris- og velferðarkerfin.
 • Hætta er á að aukin lausavinna á vinnumarkaði dragi úr lífeyrissparnaði.

Skýrsluhöfundar tilgreina dæmi um úrbætur, þar á meðal eftirfarandi og sumar eru kunnuglegar:

 • Hækka lífeyristökualdur.
 • Hvetja til aukinnar atvinnuþátttöku eldri borgara.
 • Hvetja til aukins lífeyrissparnaðar innan og utan lífeyrissjóðakerfisins.
 • Grípa til aðgerða til að draga úr mun milli kynja.
 • Draga úr útgreiðslum úr lífeyriskerfinu áður en lífeyristökualdri er náð og leitast við að tryggja að lífeyrissparnaður verði tekjur eftir starfslok
 • Bæta stjórnarhætti lífeyrissjóða og auka gegnsæi til að efla traust sjóðfélaga.

Hér má nálgast glærukynningu Stefáns frá aðalfundi 

Viltu fylgjast með
og fá fréttabréfið okkar?
Netfangið þitt