41 þúsund lífeyrisþegar 2,4 milljarðar króna 3 starfsmenn

Starfsmenn Greiðslustofu lífeyrissjóða í október 2014: Matthildur Hermannsdóttir framkvæmdastjóri, J…
Starfsmenn Greiðslustofu lífeyrissjóða í október 2014: Matthildur Hermannsdóttir framkvæmdastjóri, Jóhanna Ólafsdóttir og Sara Jóna Stefánsdóttir

Lítið fer fyrir Greiðslustofu lífeyrissjóðanna hvernig svo sem á er litið. Í húsakynnum hennar er ekki sérlega vítt til veggja og þar eru bara þrír starfsmenn. Þarna slær samt hjarta þriðjungs lífeyrissjóðakerfisins.

Fjórir tugir þúsunda manna fá mánaðarlega yfir tvo milljarða króna frá Greiðslustofunni fyrir hönd ellefu lífeyrissjóða, um 35% alls lífeyris sem greiddur er úr íslenskum lífeyrissjóðum hverju sinni.

Greiðslustofa lífeyrissjóðanna er afsprengi Sambands almennra lífeyrissjóða – SAL, annarra tveggja heildarsamtaka lífeyrissjóða á árum áður.

SAL sameinaðist Landssambandi lífeyrissjóða í desember 1998 og til urðu Landssamtök lífeyrissjóða.

SAL annaðist tiltekna þjónustu fyrir aðildarsjóði sína. Sú þjónustueining SAL varð sameignarfélag árið 2002 og er nú greiðslustofa lífeyrissjóða sem flestir eiga rætur í gamla SAL. Greiðslustofan þjónar þessum eigendum sínum, Lífeyrissjóði starfsmanna Akureyrarbæjar að auki og sinnir líka ýmsum skrifstofustörfum fyrir Landssamtök lífeyrissjóða.


Hátt í 40 ára starfsaldur

Matthildur Hermannsdóttir, framkvæmdastjóri Greiðslustofu lífeyrssjóðanna, er sjálf í hnotskurn stór hluti af þessari sögu. Hrafn Magnússon, þáverandi framkvæmdastjóri SAL og síðar Landssamtaka lífeyrissjóða, réði hana til starfa 1976 og Matthildur hefur þar með að baki lengstan starfsferil allra starfsmanna í íslenska lífeyrissjóðakerfinu að því best er vitað. Leiðir þeirra Hrafns lágu reyndar fyrst saman í Samvinnuskólanum að Bifröst þar sem hann kenndi en hún var nemandi.

„Greiðslustofan kemur fram sem einn greiðsluaðili gagnvart sjóðfélögum ellefu lífeyrissjóða annars vegar og hinu opinbera hins vegar,“ segir Matthildur. „Við borgum út lífeyri, tökum við skattkortum og sjáum um öll skil á staðgreiðslu.

Svo bættist heilmikið við 1. febrúar 2014 þegar tóku gildi ný lög um almannatryggingar og lífeyrisþegum var gert skylt að sækja fyrst um lífeyri áður en sótt er um hjá Tryggingastofnun. Við tökum við umsóknum og úrskurðum í slíkum málum fyrir hönd þriggja lífeyrissjóða. Úrskurðir af því tagi koma til okkar kasta á hverjum einasta degi.

Þá má nefna að við erum undir sama þaki og Landssamtök lífeyrissjóða, eigum gott samstarf við þau og sinnum ýmsum verkefnum fyrir samtökin.“


Þúsund „kúnnar“ í útlöndum

Greiðslustofa lífeyrissjóða er í sambandi við um þúsund manns erlendis vegna lífeyrisgreiðslna. Annars vegar eru það Íslendingar sem búa í útlöndum, hins vegar útlendingar sem unnið hafa á Íslandi og öðlast lífeyrisréttindi hér.

Það hefur fjölgað mjög í þessum hópi. Á þenslutímanum snarfjölgaði erlendu verkafólki á Íslandi en eftir hrun snarfjölgaði Íslendingum sem settust að erlendis. Allir sem fá lífeyri frá Íslandi verða að láta vita af sér einu sinni á ári til að tryggja áframhaldandi greiðslur. Heyrist ekki lífsmark að utan eru greiðslur til viðkomandi stöðvaðar.

Önnur merkjanleg breyting á síðari árum er að fólk fer að jafnaði fyrr á eftirlaun en áður og tekur þá á sig tilheyrandi skerðingu eftirlauna innan 67 ára aldurs. Algengt var að menn frestuðu því til sjötugs að fara á eftirlaun en slíkt gerist sjaldan nú.


Hlaupahind í stjórastóli

Matthildur Hermannsdóttir hleypur ekki frá neinum vanda í vinnunni sinni en utan vinnu er hún nánast þindarlaus. Hún hefur hlaupið maraþon í aldarfjórðung hérlendis og í borgum víða um heim, til dæmis þrisvar í New York og verið fararstjóri maraþonhlaupara þar tíu sinnum.

Svo gengur hún á Hornströndum og hjólar langar leiðir þegar svo ber undir. Hún skrapp til dæmis til Spánar nú síðsumars og hjólaði eina 650 kílómetra. Það er hátt í Reykjavík-Akureyri-Reykjavík.

Matthildur hefur komið að því að skipuleggja hlaupaferðir til útlanda allt frá árinu 2000 og gerðist síðan umboðsmaður hlaupa sem kennd eru við World Majors maraþon.