Hækka þarf heimildir til erlendra fjárfestinga

Leyfilegt 50% hámarkshlutfall eigna lífeyrissjóða í erlendri mynt verður að hækka enda á ekki að setja sjóðunum skorður sem geta haft skaðleg áhrif á langtímaávöxtun sjóðanna með því mögulega að þröngva þeim í óhagkvæmari fjárfestingar og draga úr áhættudreifingu eignanna.

Því má reyndar velta fyrir sér hvort yfirleitt eigi að hafa tiltekið hámark á erlendum eignum lífeyrissjóða hérlendis. Í mörgum grannríkjum er ekki kveðið á um neitt hámark á erlendum eignum lífeyrissjóða, til dæmis í Danmörku, Noregi, Belgíu, Írlandi og Hollandi.

Þetta kom fram í erindi Agna Ásgeirssonar, formanns áhættunefndar Landssamtaka lífeyrissjóða, á stefnumótunarfundi samtakanna 6. september sl. Þeir Ólafur Sigurðsson, formaður nefndar um fjárfestingarumhverfi lífeyrissjóða, reifuðu þar fjárfestingar lífeyrissjóða frá ýmsum hliðum.

Núgildandi hámarkshlutfall erlendra fjárfestinga, 50% af eignum lífeyrissjóða, var sett með lögum árið 2000 og stutt þá með rökum sem Agni telur líka hægt að færa yfir því að fara nú með hámarkið í 60% eða enn hærra.

Hlutfall erlendra fjárfestinga flestra íslenskra lífeyrissjóða er komið yfir 35% og mest í 43%. Agni segir að þrátt fyrir 50% hámarkið geti sjóðir tæplega farið mikið yfir 45% vegna þess að nettóinnflæði í flesta sjóði muni aukast verulega næsta áratuginn og stjórnendur sjóðanna geti ekki hætt á að hlutfallið sveiflist yfir 50% markið vegna gengisbreytinga:

„Það gæti því styst í að sjóðir takmarki gjaldeyriskaup sín og einhverjir þeirra gætu jafnvel neyðst til að selja eignir í erlendri mynt, óháð mati þeirra á því hvort slíkt sé hagstætt fyrir sjóðfélagana. Ekki er ólíklegt að lífeyrissjóðir sæki meira í fjárfestingar í erlendri mynt til að auka áhættudreifingu vegna lægri vaxta og minna framboðs verðtryggðra fjárfestingarkosta hérlendis. Fjárfesting í erlendri mynt er að mörgu leyti ígildi verðtryggingar, hún myndar að hluta til vörn á móti verðtryggðum skuldbindingum lífeyrissjóða. Þá hefur sögulega séð verið mikil fylgni milli gengis krónunnar og verðbólgu. Eignir í erlendri mynt hafa oft verið verðbólguvörn.“

Gjaldeyrishöft hafa neikvæð áhrif á hagkerfið

Ólafur Sigurðsson sagði að lífeyrissjóðir hafi verulegan hag af skilvirkum gjaldeyrismarkaði og stöðugleika í efnahagslífinu. Hann rifjaði upp þá niðurstöðu hagfræðinganna Ágeirs Jónssonar og Hersis Sigurgeirssonar í skýrslu frá 2014 um tengsl lífeyrissparnaðar, greiðslujafnaðar og erlendra fjárfestinga, að gjaldeyrishöft hafi til lengri tíma neikvæð áhrif á íslenskt hagkerfi. Þau takmarki fjárfestingakosti sem geti leitt til lakari ávöxtunar og aukið sveiflur í ávöxtun og afkomu lífeyrisþega. Ólafur kvaðst skynja það sterkt í samfélaginu að

„ ... margir vilja stýra lífeyrissjóðunum, nota þá á ýmsa vegu. Við höfum þá ítrekað sagt að umboðsskylda stjórnar lífeyrissjóðs er að ávaxta eignir sjóðsins fyrir sjóðfélaga. Ólafur vísaði því til stuðning í skýrslu sem unnin var fyrir fjármála- og efnahagsráðuneytið árið 2017 þar sem segir: Regluverkið má EKKI taka mið af því að sjóðunum sé ætlað að vera hagstjórnartæki fyrir stjórnvöld og á Vesturlöndum tíðkast heldur almennt ekki að lífeyrissjóðir séu notaðir sem hagstjórnartæki, til dæmis við að jafna sveiflur í greiðslujöfnuði eða hafa áhrif á gengi.“

Ólafur sagði að margir hafi áhyggjur af því sjóðasöfnun í lífeyriskerfinu „nálgist fyrr en síðar efri mörk þess sem hægt sé að spara vegna fyrirsjáanlegra lífeyrisskuldbindinga“ og að „flöskuhálsar myndist sem takmarki getu sjóðanna til að dreifa eignum sínum hérlendis og erlendis í gegnum fjármálamarkaðinn og að sparnaðurinn geti myndað eignabólur.“ Hann kallaði eftir því að búa til og viðhalda reiknilíkani sem áætli gjaldeyrisþörf sjóðanna til framtíðar miðað við gefnar, skynsamlegar forsendur: „Við þurfum þjóðhagslíkan til að nota í rökræðum um hvað það þýðir að hámarki erlendra fjárfestinga lífeyrissjóða yrði aflétt. Eru líkur á að slíkt kollvarpi krónunni, veiki hana um 30% og valdi verðbólgu? Við teljum auðvitað ekki að svo fari en líklegt er að einhverjir hafi áhyggjur af afleiðingunum. Við eigum að leyfa okkur að taka þátt í samfélagsumræðum um málið.“

Viltu fylgjast með
og fá fréttabréfið okkar?
Netfangið þitt