70 ára lífeyristökualdur árið 2041?

70 ára lífeyristökualdur árið 2041?

Við lifum lengur og lengur, sem auðvitað er hið besta mál. Hækkandi lífaldur jafngildir hins vegar auknum skuldbindingum lífeyrissjóða og við því þarf að bregðast.

Tryggingastærðfræðingar ætla nú að horfa fram á veginn í spálíkönum sínum fyrir lífslíkur þjóðarinnar í stað þess að líta einungis um öxl. Þetta er veruleg breyting og leiðir til þess að sýnilegur halli verður á flestum eða öllum lífeyrissjóðum, þ.e. eignir þeirra duga ekki að óbreyttu fyrir skuldbindingum gagnvart sjóðfélögum.

Við þessu má bregðast með því að hækka eftirlaunaaldur, hækka iðgjöld í lífeyrissjóði eða skerða lífeyrisréttindi. Það kemur til kasta lífeyrissjóðanna að fjalla um málið og ákveða mótvægisaðgerðir strax á næsta ári, 2016.

Á vettvangi ríkisins er talað um að hækka lífeyrisaldur hjá Tryggingastofnun ríkisins í áföngum úr 67 í 70 ár á næstu árum, á svipaðan eða sama hátt og rætt er um að hækka eftirlaunaaldur í lífeyrissjóðakerfinu.

Benedikt Jóhannesson, tryggingastærðfræðingur og framkvæmdastjóri Talnakönnunar, fjallaði um málið á sjóðfélagafundi Almanna lífeyrissjóðsins 29. október 2015. Hann telur líklegt að niðurstaðan verði sú að hækka lífeyristökualdur um tvo mánuði á ári frá 2017 til 2028 og síðan um einn mánuð á ári. Þannig  verði lífeyristökualdur kominn í 70 ár árið 2041.

Með þessu móti má ná jafnvægi eigna og skuldbindinga lífeyrissjóðanna en jafnframt tryggja að breytingarnar verði ekki snarpar gagnvart þeim sem nálgast  lífeyristökualdurinn.


Hvenær geta nýburar búist við að verða 100 ára?

„Fullyrt hefur verið í fjölmiðlum að aldamótabörnin, sem fædd eru 200-2001, geti búist við að verða 100 ára. Það er rangt. Þróunin bendir til þess að íslenskar stúlkur fæddar árið 2122 geti búist við að verða aldargamlar og piltar fæddir 2129,“ segir Benedikt Jóhannesson.

Hann bendir á að ævi karla á Íslandi hafi lengst um tvo og hálfan mánuð á ári undanfarna áratugi. Það jafngildir sex dögum á mánuði eða einni mínútu og 50 sekúndum á klukkustund! Þá vitum við það.

 

Birtist í Vefflugunni í nóvember 2015