Birgitta Braun rak sig hastarlega á að „kerfin tala ekki saman“

Birgitta Braun rak sig hastarlega á að „kerfin tala ekki saman“

Birgitta Braun rak sig hastarlega á að „kerfin tala ekki saman“

„Kerfi almannatrygginga og lífeyrissjóða á Íslandi tala ekki saman og því síður að þau tali saman ríkja á milli. Meira að segja er munur á því hvernig horft er til réttinda fólks og hvernig þau flytjast eða flytjast ekki innbyrðis milli norrænu ríkjanna. Við rekum okkur þannig á það aftur og aftur að norræna velferðarkerfið svokallaða er ekki endilega sá réttindaskjöldur sem menn halda að verji sig þegar á reynir, enda margt ólíkt frá einu norrænu ríki til annars.“

Sigríður Hanna Ingólfsdóttir, félagsráðgjafi hjá Öryrkjabandalagi Íslands, fær á borð sitt mörg mál sem varða skertar lífeyrisgreiðslur vegna fyrri búsetu erlendis. Einungis mjög lítill hluti örorkulífeyrisþega í þessari stöðu fær greiðslur frá erlendum samskiptastofnunum TR. Þessar greiðslur  eru í sumum tilvikum skilgreindar á Íslandi sem grunnlífeyrir en í öðrum tilvikum sem lífeyrissjóðstekjur og þá skerða þær greiðslur almannatrygginga á Íslandi á sama hátt og lífeyrissjóðtekjur frá íslenskum lífeyrissjóðum

Málum af þessu tagi fjölgar í takt við örari flutning fólks landa á milli með tilheyrandi búsetuskiptum. Þá reka menn sig á að reglur um lífeyrisaldur og örorkumat eru mismunandi, réttur til lífeyris er virtur í einu landi en ekki í öðru.

 100% öryrki vegna húsamyglu

Birgitta María Braun læknir flutti til Íslands frá Þýskalandi á sínum tíma. Hún rak sig á marga veggi þegar hún fór að ganga eftir réttindum sem hún taldi sig eiga á Íslandi og í Þýskalandi eftir að hafa verið metin 50% öryrki í kjölfar bílslyss í Finnlandi árið 2003 og síðar 75% öryrki árið 2016 eftir alvarleg veikindi sem rakin eru til húsamyglu og tilheyrandi eitrunar.

Birgitta er biturri reynslu ríkari og safnaði í sarpinn upplýsingum sem geta gagnast öðrum, ekki síst varðandi mismunandi réttindi og réttindaávinnslu í almannatrygginga- og lífeyrissjóðakerfum Íslands og Þýskalands og um kerfi sem tala ekki saman. Hún og fleiri Þjóðverjar búsettir á Íslandi ætla að setja upp aðgengilegan upplýsinga- og fræðslubanka í þessum efnum og vef eða Fésbókarsíðu til að ná í fleiri dæmisögur úr tilverunni og miðla fróðleik og reynslu öðrum til gagns.

Sigríður Hanna, félagsráðgjafi Öryrkjabandalagsins, starfaði um skeið í Þýskalandi og þekkir því vel almannatrygginga- og lífeyrissjóðakerfið þar. Hún hefur aðstoðað Birgittu í réttindaglímu sinni og samtal við Birgittu í sumarbústað á Suðurlandi varð einmitt tilefni þessara skrifa um „kerfi sem tala ekki saman“. Slysa-, sjúkdóms- og reynslusaga hennar er reyndar efni í heila bók. Hér verður einungis brugðið upp leifturmyndum.

Búsetuhlutfallið „sett í frost“

Birgitta Braun er geðlæknir og sérmenntuð að auki í sálfræðimeðferð (psychodynamic psychotherapy) . Hún hóf námið  í Þýskalandi en lauk námi í báðum þessum sérgreinum á Íslandi. Hún fluttist til Íslands 39 gömul, hefur þýskan og íslenskan ríkisborgararétt og var deildarlæknir á Landspítala þegar hún lenti sem farþegi í bílslysi í Finnlandi. Hún var metin 50% öryrki vegna tognaðra liðbanda, brjóskloss og annarra afleiðinga slyssins.

Birgitta hafði verið heilsuhraust og stundað íþróttir en þarna breyttist tilveran á andartaki. 

„Ég var starfandi læknir og vann mikið með félagsráðgjöfum en vissi nákvæmlega ekkert um eigin réttindi eða almannatrygginga- og lífeyrissjóðakerfið á Íslandi. Mig grunar reyndar að það sé nokkuð algengt að læknar viti lítið um þessi kerfi sem tengjast samt svo mjög starfinu þeirra.

Eftir slysið náði ég ekki nema 60% vinnugetu og fékk sáralítinn örorkustyrk vegna þess að læknislaunin voru of há. Það var eðli máls samkvæmt. Auðvitað borgaði ég drjúgar fúlgur í skatta til ríkisins en réttindin hjá Tryggingastofnun skertust jafnframt. Þannig virkar kerfið.

Fullur grunnlífeyrir í tryggingakerfinu hér miðast við búsetu á Íslandi frá 16 til 67 ára. Þeir sem flytja hingað þurfa að samfellda búsetu í 40 ár til að öðlast full réttindi en hafi þeir búið skemur eru áunnin réttindi ákveðið  hlutfalli sem skilgreint er í reglugerð og hækkar þar til hámarki er náð. Enginn benti mér á að frá þeim tíma sem örorkan var metin fyrst „frysti“ Tryggingastofnun búsetuhlutfallið mitt. Enginn benti mér heldur á að ég ætti rétt á örorkulífeyri frá lífeyrissjóðnum mínum á Íslandi.“

Stórfelld mygla í heimahúsi – í einangrun í sumarbústað

Fyrstu tvö árin eftir slysið vann Birgitta sem læknir á leitarstöð Krabbameinsfélags Íslands og fór árið 2006 í hlutastarf á Landspítala.

Á árinu 2007 fór hún að finna fyrir vanlíðan sem ekki fannst skýring á. Líkamleg einkenni gerðu vart við sig eftir að hún flutti til þáverandi eiginmanns síns  og fóru stigvaxandi. Ónæmiskerfið var ofvirkt og truflað sem leiddi til ofnæmis/óþols fyrir ótal matartegundum og umhverfisefnum. Líkamleg viðbrögð voru heiftarleg: útbrot og fleiri húðeinkenni, öndunarfæraerfiðleikar, bjúgsöfnun, verkir, svefnleysi, þrekleysi og síþreyta, meltingar- og hjartsláttartruflanir, skjaldkirtilssjúkdómur og fleira.

Vorið 2014 kom í ljós að heima hjá Birgittu var mygla í stórum stíl í húsinu og sérstaklega í vinnuherbergi hennar. Læknirinn var orðinn illa veikur og þurfti á læknishjálp að halda en kveið því oftar en ekki að hitta kollega sína því annað hvort var hún ekki tekin alvarlega eða kollegarnir voru ráðalausir. Enginn náði að greina og skilja hvað var að og því voru engin úrræði til að lina þjáningar hennar með einhverjum hætti.

Þegar mygluskaðinn greindist heima hjá Birgittu flutti hún í sumarbústaðinn sem hún heldur enn til í. Veikindin og álagið bitnuðu á hjónabandinu og álagið sem skilnaðinum fylgdi hamlaði bataferlinu í viðbót við allt annað.

Læknir á Landspítala tengdi loksins veikindin við húsamyglu haustið 2014, setti af stað takmarkað rannsóknarferli sem þá var í boði vegna húsasóttar og sótti um endurhæfingu fyrir Birgittu. Ekki var færi á frekari greiningu, ráðum eða lækningu.  

Þýska kerfið miðast við iðgjöld en ekki búsetu

Birgitta var enn tengd kerfinu í Þýskalandi og ákvað að leita til lækna þar. Það hefði verið unnt að gera með milligöngu alþjóðadeildar Sjúkratrygginga Íslands en hefði tekið langan tíma og hún gat ekki beðið heilsunnar vegna. 

Birgitta fór á eigin vegum til Þýskalands og var svo lánsöm að fá tíma hjá sérfræðilæknum fljótt og án þess að þurfa að greiða fyrir aðstoðina. Hún fékk meðal annars greiningu á húð- og skjaldkirtilssjúkdómnum, góð ráð og vísbendingar um lesefni til að geta skipulagt „eigin meðferð“ heima. Hún var aldrei lögð inn á spítala á Íslandi en fékk rými á Heilsustofnun NFLÍ í Hveragerði í janúar 2015. Læknafélag Íslands veitti henni styrk úr fjölskyldu- og styrktarsjóði sínum til að greiða fyrir dvölina að hluta.

„Í Hveragerði var sagt við mig í upphafi að ég væri velkomin í almenna endurhæfingu og fjölbreytta stuðningsmeðferð. Ég var oft í gríni kölluð „versti ofnæmissjúklingurinn“ sem menn höfðu fyrir hitt þar á bæ og dvaldi þarna í samtals 12 vikur á árinu 2015.

Dvölin í Hveragerði þegar á þurfti að halda skipti mig afar miklu máli svo og viðmót  fagfólksins gagnvart flóknum sjúkdómi sem passaði ekki í greiningarkerfið. Þarna fékk ég skjól, von að ég myndi lifa skipbrotið af og stuðning til að halda áfram baráttunni.

Almenni lífeyrissjóðurinn viðurkenndi mig sem 100% öryrkja árið 2014 og það hefur bjargað mér að hafa greitt í þann lífeyrissjóð á meðan ég var starfandi læknir.

Tryggingastofnun hafnaði því hins vegar að hækka örorkumatið mitt frá 2003 og full örorka fékkst þar ekki viðurkennd fyrr en 2016 eftir tveggja ára rekistefnu og kæruferli. Sá dráttur skapaði mér viðbótartjón því þýska tryggingastofnunin borgar ekki örorkulífeyri nema viðkomandi sé metinn að minnsta kosti 75% öryrki af Tryggingastofnun sem opinberum samskiptaaðila. Ég tapaði því greiðslum að utan sem ég ella hefði fengið í tvö ár.

Ég áttaði mig á því síðar að ég hefði ef til vill skapað mér betri stöðu með því að sækja um öryrkulífeyri í Þýskalandi strax árið 2014, þó svo umsókninni hefði verið hafnað vegna neikvæðrar afstöðu Tryggingastofnunar til þess að hækka örorkuhlutfallið mitt. En þarna vissi ég mun minna en ég veit nú. Ég hefði þurft góðan ráðgjafa eða umboðsmann til að fara með mín mál á þessum erfiða tíma.

Þýska almannatryggingakerfið miðar áunnin réttindi við innborguð iðgjöld en ekki búsetu. Ég átti því réttindi frá því ég starfaði þar og með réttu ætti ég að fá þessar bætur sem grunnlífeyri til að bæta upp búsetuskerðingu örorkulífeyris á Íslandi. Svo einfalt reyndist málið nú ekki vera. Tryggingastofnun metur þýska örorkulífeyrinn sem lífeyrissjóðstekjur en ekki grunnlífeyri og skerðir sínar bætur í samræmi við það.“

Gestir fóru í heitan pott og skiptu um föt

Saga Birgittu Braun er nístandi og átakanleg. Ofvirka og truflaða ofnæmiskerfið knúði hana til þess að einangra sig í bókstaflegum skilningi í sumarbústað á Suðurlandi. Hún reyndi sem læknir að lækna sjálfan sig með þeim árangri sem blasir við nú og eygir jafnvel þann möguleika að geta farið að vinna eitthvað á sínu sviði á árinu 2018.

Svo heiftarleg eru líkamleg viðbrögð gagnvart húsmyglunni að ekkert af eigum hennar úr húsinu þar sem hún bjó áður í fyrir sunnan má koma inn fyrir dyr í sumarbústaðnum. Ekki föt, ekki lækningatæki, ekki hljóðfæri, ekki bækur, ekki myndaalbúm, ekki geisladiskar. Ekkert. Þessar eigur hennar eru því einskis virði í raun og fást ekki bættar.

Þegar verst lét var hún svo ofurviðkvæm fyrir umhverfinu að hún lét þá sem komu í heimsókn í sumarbústaðinn byrja á því að fara í heita pottinn og skipta um föt áður en þeir komu þar inn fyrir dyr.

„Það bjargaði miklu að ég er læknir og skráði samviskusamlega sjúkrasöguna; mældi, skrifaði og ljósmyndaði. Ég var vægast sagt lítið rannsökuð og eftirfylgdin takmörkuð. Ég velti fyrir mér hver ástæðan var. Skipti máli að ég er læknir sjálf? Var of erfitt að flokka sjúkdóminn eftir sérgreinum? Virkar kerfið okkar bara ekki betur en þetta?

Niðurstaðan var alla vega óviðunandi, hver sem skýringin kann að hafa verið. Það var hreinlega ekki annað í boði en að vinna úr þessu sjálf eins vel og mér var unnt!

Auðvitað veit ég nú orðið heilmikið um sjálfan sjúkdóminn sem ég ekki vissi áður en ég veit líka heilmikið um almannatryggingar og lífeyrissjóðamál hér og í Þýskalandi sem ég ekki vissi áður. Þar varð ég að einfaldlega sjálf að verja ómældum tíma í að botna í kerfunum og reyna að skilja samspil þeirra eða öllu heldur hvernig þau spila EKKI saman.

Alþjóðadeild Tryggingastofnun vissi ekki hvernig þýska kerfið er frábrugðið því íslenska og ég fékk ekki svör við nema sumum spurningum hjá lífeyrissjóðnum mínum og Sjúkratryggingum Íslands.

Nú er meiningin að vinna með allt þetta efni og búa til upplýsinga- og reynslubanka. Við erum sex saman Þjóðverjar búsettir á Íslandi sem ætlum að setja verkefnið í gang í vetur, ekki til að gerast ráðgjafar heldur til að aðstoða aðra við að fá svör úr íslenskum veruleika við spurningum sem vakna.“