Fólki þótti alveg galið að við skyldum hætta að vinna sextug

Þóra og Óli við Látrabjarg. Bjargið og nágrenni þess er einmitt helsta viðfangsefnið hans nú í grúsk…
Þóra og Óli við Látrabjarg. Bjargið og nágrenni þess er einmitt helsta viðfangsefnið hans nú í grúski á eigin vegum.

Viðtalið var áður birt í Vefflugunni.

„Við fengum mikil viðbrögð þegar samstarfsfólk, vinir og kunningjar heyrðu að við ætluðum á eftirlaun sextug. Fólk sagði: Þið sem eruð svo hress á líkama og sál og getið alveg unnið mun lengur; hvaða vitleysa er þetta eiginlega?!

Menn litu gjarnan svo á að við ætluðum að setjast í helgan stein en svo er alls ekki. Við snerum okkur einfaldlega að öðrum viðfangsefnum. Þetta eru kaflaskil og ný tilvera.“

Hjónin Þóra Ákadóttir, hjúkrunarfræðingur og starfsmannastjóri og Ólafur B. Thoroddsen, landfræðingur og skólastjóri, ákváðu að hætta í störfum sínum á árinu 2014 og fara á eftirlaun þegar þau næðu sextugsaldri.

Bæði höfðu verið í krefjandi stjórnunarstöðum um árabil. Hún var hjúkrunarforstjóri á Heilsugæslustöðinni á Dalvík og endurhæfingar- og öldrunarlækningadeild  í Kristnesi en lengst á Sjúkrahúsinu á Akureyri sem starfsmannastjóri hjúkrunar og staðgengill framkvæmdastjóra hjúkrunar og síðast starfsmannastjóri  Sjúkrahússins á Akureyrar.

Hann var kennari á Dalvík og síðar kennari í Síðuskóla á Akureyri og skólastjóri þar í 17 ár.

 Þau söðluðu hressilega sumarið 2014. Ólafur mætir nú á hverjum morgni til vinnu hjá sjálfum sér í Akureyrarakademíunni og vinnur að bók um Látrabjarg og Hvallátra, Þóra gerðist „farandhjúkrunarfræðingur“ af og til í Noregi.

 „Við fáum eftirlaun í samræmi við 95 ára regluna (samanlagður líf- og starfsaldur), 64% af grunnlaunum. Við vorum bæði á tiltölulega háum grunnlaunum sem stjórnendur og skuldum lítið. Auðvitað voru viðbrigði þegar launin lækkuðu en við komumst vel af og höfum enga ástæðu til að kvarta.

 Við lögðum fyrir í séreignarsjóði frá því séreignarsparnaður kom til sögunnar. Það var skynsamleg ákvörðun og kemur okkur til góða nú. Við gerðum því allt rétt að þessu leyti, sýnist okkur.

 Eftir á að hyggja hefðum við hugsanlega getað lagt enn meira fyrir. Aðalatriðið er samt að leggja fyrir. Fólk ætti að safna í séreignarssjóði og byrja eins snemma á starfsævinni og mögulegt er. Séreign getur ráðið úrslitum um afkomuna þegar kemur að eftirlaunaskeiðinu.“

 

Reglulegur vinnutími í sjálfsmennskunni

„Ég stefndi alltaf að því að fara á eftirlaun þegar ég hefði öðlast réttindi til slíks og var andlega vel búinn undir breytinguna, sem vissulega var veruleg,“ segir Ólafur.

,,Raunar beið ég í áratugi eftir að hætta að vinna til að geta farið af fullum krafti í verkefni sem ég hófst handa við strax á námsárum í Háskóla Íslands, að safna efni og skrifa um Látrabjarg og Hvallátra, bæði náttúrufar, atvinnuhætti og mannlíf. Ég var í fimm sumur á Látrum, hjá Þórði Jónssyni og Sigríði Ólafsdóttur Thoroddsen, föðursystur minni. Það var dásamlegur tími og ég ætla mér eiginlega að borga fyrir uppeldið á Látrum með grúski og skrifum nú.

Þetta verður samvinnuverkefni okkar Gísla Más Gíslasonar, prófessors í líffræði og Látramanns að uppruna. Hann er að skrifa um Rauðasandshrepp fyrir Ferðafélag Íslands og kemur síðan inn í Látrabjargsverkefnið með mér.

Ég fékk inni hjá Akureyrarakademíunni og mæti þangað klukkan átta á virkum dögum og vinn fram eftir degi. Mér finnst mikilvægt að stunda sjálfsmennskuna eins og venjulega vinnu frá morgni til kvölds. Breytir engu þó ég starfi nú algjörlega á eigin vegum og haldi sjálfum mér gangandi í grúskinui, án styrkja eða fjárhagsstuðnings af neinu tagi.

Þegar öllu er á botninn hvolft stendur ný tilvera undir væntingum. Hið eina sem kemur á óvart er að ég skuli fá samviskubit ef vinnudagur fellur niður hjá mér af einhverjum ástæðum. Ég vil sem sagt halda sjálfum mér við efnið!“

 

Á upphafsreit að nýju – í Noregi

•	Í Kjarnaskógi vorið 2014. Þóra sextug og tímamótum var fagnað á viðeigandi hátt!

 

„Mig dreymdi alltaf um að prófa að vinna erlendis. Þegar ég hætti á Sjúkrahúsinu á Akureyri á síðasta ári ákvað ég að sækja um norskt hjúkrunarleyfi og hingað er ég komin,“ segir Þóra Ákadóttir í tölvusamtali frá Noregi.

Eftir áramót hóf hún sex vikna vinnutörn á hjúkrunarheimili fyrir aldraða í bænum Etne, skammt frá Haugasundi, miðja vegu milli Stafangurs og Björgvinjar.

„Ég gat fært mig yfir í A-deild Lífeyrissjóðs ríkisins árið 1997 en kaus að vera áfram í lífeyrissjóði  hjúkrunarfræðinga og ná að óbreyttu eftirlaunaaldri samkvæmt 95 ára reglunni í júní 2014. Sá tími var fjarlægur þá en hann rann upp!

Ég kaus að nýta mér réttinn til að fara strax á eftirlaun og breyta til eftir að hafa verið í nær 35 ár samfleytt í stjórnunarstöðu í heilbrigðisþjónustunni og í 10 af þeim árum jafnframt verið virk í pólitík, þar af 8 ár bæjarfulltrúi á Akureyri. Nú er ég komin „á gólfið“ aftur eftir öll þessi stjórnunarár og sinni fimmtán sjúklingum á hjúkrunarheimili fyrir aldraða og heimahjúkrun hér í Etne.

Ég fékk upphringingu frá Noregi og ósk um að koma með fimm  daga fyrirvara út og byrja að vinna. Það gerði ég og var orðin sjálfbjarga á vinnustaðnum fjórum dögum síðar. Ég þurfti að læra á tölvukerfið og kynna mér hvað ýmis lyf heita núna sem hétu eitthvað allt annað á árum áður. Ég var í meistaranámi í Svíþjóð á sínum tíma og á ekki í neinum vandræðum með að tjá mig við Norðmennina.

Svo var bara að hella sér út í vinnuna og mér býðst mun meiri vinna en ég kæri mig um. Það skortir hjúkrunarfræðinga víða í Noregi og launin eru ívið hærri en eru í boði á Íslandi. Núna er ég á hjúkrunarheimili en verð í sumar á heilsugæslustöð og hjúkrunarheimili í bænum Sauda hér skammt frá.

Draumurinn var sem sagt að starfa erlendis og auðvitað eru það forréttindi að geta látið hann rætast í skjóli lífeyrisréttinda sem hafa áunnist í starfi heima og viðbótarsparnaðar að eigin frumkvæði.“

Birtist í Vefflugunni í febrúar 2015