Hús tekið á reynslubolta í Gildi

Hús tekið á reynslubolta í Gildi

„Kannski stuðlum við að því að fleiri sameiningarmál lífeyrissjóða komist á hreyfingu í framhaldinu. Það væri eðlilegt að sjóðunum fækki enn frekar og ég get alveg séð fyrir mér að þeir verði á endanum einungis fjórir eða fimm á almennum markaði og svo sjóðir fyrir starfsmenn ríkis og sveitarfélaga að auki. Hugmyndir um einn lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn eru hins vegar að mínu mati rangar og verða vonandi aldrei ræddar í alvöru. Það er heilbrigt að hafa samkeppni í lífeyriskerfinu eins og annars staðar. Sjóðirnir eru ólíkir á ýmsan hátt og eiga að vera það.“

Stjórnir Gildis lífeyrissjóðs og Lífeyrissjóðs Vestfirðinga hafa samþykkt samrunaáætlun og Árni Guðmundsson, framkvæmdastjóri Gildis, var þegar byrjaður að teikna upp næstu skrefin á kontórnum sínum þegar þetta spjall átti sér stað seint í september 2014. Innan tíðar er stefnt að því að sameina sjóðina tvo formlega í nafni Gildis. Eignir sjóðsins aukast þá úr um 350 milljörðum króna í 380 milljarða.

Árni byrjaði að starfa fyrir Lífeyrissjóð sjómanna 1982, þá nýútskrifaður lögfræðingur úr Háskóla Íslands. Haukur Hafsteinsson, framkvæmdastjóri LSR, útskrifaðist sem lögfræðingur á sama tíma. Hann fór nokkru síðar að vinna fyrir Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins og er þar enn starfandi.

Lífeyrissjóðir ríkisstarfsmanna og sjómanna voru á þessum tíma báðir í rekstri Tryggingastofnunar ríkisins en urðu síðar sjálfstæðir. Árni og Haukur störfuðu því undir sama þaki til að byrja með og voru auk þess báðir á kafi í íþróttum, Árni að keppa í knattspyrnu og körfubolta en Haukur að þjálfa í knattspyrnu.


Skrifleg rök fyrir því að leiðrétta rangfærslur

Gjarnan gustar um mann á efstu tindum. Þeir sem fara fyrir lífeyrissjóðum finna vel fyrir því og sæta stundum umtalsverðri ágjöf í opinberri umræðu. Slíkt telst nánast hluti af „geiminu“.

„Það þykir meira við hæfi að hrauna yfir lífeyrissjóði en tala vel um þá. Sjóðirnir eru gagnrýndir fyrir flest sem þeir gera eða gera ekki!“ segir Árni. „Auðvitað fær maður á sig skráp með tímanum en vissulega er ekki skemmtilegt til lengdar að heyra fullyrt aftur og aftur að stjórnendur lífeyrissjóða hugsi um flest annað en hagsmuni sjóðfélaga í starfi sínu. Mest fer samt í taugarnar að heyra þáttastjórnendur í útvarpi eða sjónvarpi fara hiklaust með staðleysur eða leyfa viðmælendum sínum að flytja alls kyns rangfærslur athugasemdalaust. Ég heyrði einu sinni þvílíka þvælu í Ríkisútvarpinu um Gildi að ekki var hægt að sitja þegjandi undir því og óskaði eftir að gera athugasemd. Það tókst á endanum en ég var fyrst látinn skila skriflegri greinargerð til að færa rök fyrir því sem mér fannst aðfinnsluvert! Þetta var alveg ótrúlegt og fjarri öllu sem heitið getur fagmennska.


4,5% réttindaskerðing verði fjárlagafrumvarpið samþykkt óbreytt

Viðfangsefni framkvæmdastjóra lífeyrissjóðs eru mörg, fjölbreytt og misjafnlega auðveld við að eiga eins og gengur. Sum snúa inn á við í sjóðunum, önnur út á við sem hagsmunagæsla fyrir sjóðfélaga eða jafnvel fyrir allt lífeyrissjóðakerfið.

Eitt stærsta átakaefnið nú á haustdögum varðar samskipti við ríkisvaldið og birtist í fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar á Alþingi. Það varðar örorkumál og framkvæmdastjóra Gildis hitnar strax í hamsi.

„Við höfum lögbundna skylduaðild að lífeyrissjóðum og fæstir eiga val um sjóði. Eðli máls samkvæmt er mun þyngri örorkubyrði hjá Gildi, lífeyrissjóði þar sem sjóðfélagar eru að stórum hluta verkafólk og sjómenn, en hjá sjóðum þar sem til dæmis skrifstofufólk er í meirihluta. Sá sem borgar í lífeyrissjóð með þunga örorkubyrði getur að óbreyttu ekki vænst þess að fá jafnmikil eftirlaun og sá sem borgar í sjóð með litla sem enga örorkubyrði. Þess vegna sömdu stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins árið 2005 um að ríkið greiddi alls þrjá milljarða króna á ári til að jafna þennan mun í lífeyriskerfinu.

Litið var á samkomulagið sem varanlega ráðstöfun en nú leggur ríkisstjórnin til að Alþingi afnemi jöfunarframlagið og skerði þannig lífeyrisréttindi í þeim lífeyrissjóðum sem málið varðar. Þetta jafngildir 4,5% skerðingu lífeyrisréttinda sjóðfélaga Gildis, hvorki meira né minna. Slíkum áformum hlýtur að verða mætt af mikilli hörku.

Þar við bætist að í fjárlagafrumvarpinu sést að ríkið ætlar sér enn einu sinni að koma sér hjá greiðslum í VIRK-starfsendurhæfingarsjóð sem Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins stofnuðu 2008.“

Gjaldeyrishöft til vandræða

Jöfnun örorkubyrðar brennur sem sagt á lífeyrissjóðunum nú um stundir og Árni nefnir líka gjaldeyrishöftin. Hann segir brýnt að koma hreyfingu á að losa um þau. Engin áform séu hins vegar sjáanleg sem sannfæri sig um að til tíðinda dragi í þeim efnum alveg á næstunni.

„Gjaldeyrishöftin eru eitt alvarlegasta vandamálið sem við stöndum frammi fyrir með hagsmuni lífeyrissjóða í huga. Við þurfum að dreifa áhættu og í hruninu kom sér nú aldeilis vel að sjóðirnir ættu hátt í 30% eigna sinna erlendis. Ef við ekki komumst með peninga úr landi keppa þeir um sömu fjárfestingarkostina hér heima. Það býður upp á ákveðna hættu og bólumyndun til lengri tíma litið. Ég hef ekki áhyggjur af slíku núna en frekar ef ástandið varir lengi.

Sumir orða það sem svo að ef gjaldeyrishöftum verður aflétt skuli lífeyrissjóðir vera með þeim síðustu sem fá að flytja fjármuni úr landi til fjárfestingar. Ég er því ósammála. Lífeyrissjóðirnir ættu að vera með þeim fyrstu sem fá að nýju fjárfestingarheimildir erlendis en það gæti gerst í ákveðnum skrefum.“


Hæfisreglur leiða til einsleitari hóps þeirra sem gefa kost á sér í stjórn

Árni Guðmundsson hefur verið lengi að í lífeyrissjóðakerfinu og man tímana tvenna. Margt er breytt og sumt mjög mikið, flest til góðs.

„Lífið var einfaldara þá en nú. Ég gegndi flestum störfum hjá Lífeyrissjóði sjómanna til að byrja með, reiknaði út lífeyri, innheimti iðgjöld og fjárfesti. Raunávöxtun eigna var oftast 8-9% á ári en síðan fóru menn að flækja hlutina með alls kyns fjármálaafurðum sem þurfti sérfræðinga til að skilja!

Árið 1992 var Lífeyrissjóði sjómanna heimilað að fjárfesta í innlendum hlutabréfum og 1994 fengu lífeyrissjóðirnir heimild til að fjárfesta í erlendum verðbréfum, sem var gríðarleg breyting. Stjórnkerfi og regluverk lífeyrissjóða hefur sömuleiðis breyst mjög mikið, einkum eftir hrun.

Stór hluti starfsins fer í að fylgjast með að reglum sé framfylgt og stjórnarfundum hefur snarfjölgað. Reglur hafa verið settar um hæfi stjórnarmanna og í sjálfu sér er til bóta að gera kröfur um hæfi. Í reynd kalla hæfisreglurnar og sérstaklega framkvæmd Fjármálaeftirlitsins á að stjórnarmenn sjóðanna verði steyptir í svipað mót. Þannig útilokum við breidd og mismunandi bakgrunn, fjölbreytta lífsreynslu og þekkingu. Það er miður. Hæfismat Fjármálaeftirlitsins fælir greinilega ýmsa frá því að gefa kost á sér til setu í stjórn sjóðanna. Sumir treysta sér ekki í hæfismatið og þá er skammt í að við sitjum uppi með eins konar atvinnumenn í stjórnum lífeyrissjóða.“


Beinar kosningar til stjórna? Nei!

„Viðraðar eru alls kyns hugmyndir sem sagðar eru miða að því að auka lýðræði í lífeyrissjóðum, til dæmis með því að taka upp beina kosningu til stjórna og útiloka jafnframt atvinnurekendur frá því að eiga fulltrúa í stjórnum sjóðanna. Ég hrífst ekki að beinum stjórnarkosningum og tel að slíkt ferli kalli á fleiri álitamál en því er ætlað að leysa.

Menn fara í gegnum ákveðið lýðræðislegt ferli í stéttarfélögum áleiðis í stjórn Gildis og fyrirkomulagið hefur sýnt sig vera gott. Samtök atvinnulífsins hafa svo sinn hátt á því að skipa sína stjórnarmenn.

Hvernig ætti að útfæra beinar kosningar til stjórnar í Gildi? Hér eiga yfir 180.000 manns lífeyrisréttindi, allt frá nokkrum krónum upp í mörg hundruð þúsund krónur á mánuði. Á allur sá hópur að eiga jafnan rétt í stjórnarkjöri? Á námsmaður í sumarvinnu fyrir áratugum að eiga jafnan rétt í stjórnarkjöri og skipstjóri sem greitt hefur í sjóðinn samfellt frá 1960?

Ábyggilega myndu heyrast hljóð úr mörgum hornum ef svona fyrirkomulag yrði tekið upp og það með réttu.

Fyrir lífeyrissjóðakerfið er mikill kostur að hafa atvinnurekendur með í stjórnum sjóðanna, það eykur breiddina og alhliða þekkingu innan stjórnar. Aðilar vinnumarkaðarins sömdu um að stofna lífeyrissjóðina á sínum tíma, bera ábyrgð á þeim og verja þá þegar á þarf að halda. Það skiptir gríðarlega miklu máli.

Þegar til dæmis koma nú fram að mínu mati afskaplega vanhugsaðar tillögur stjórnvalda, um að afnema framlag til jöfunar örorkubyrði lífeyrissjóða, er gott að vita til þess að aðilar vinnumarkaðarins gangi fram fyrir skjöldu til að verja hagsmuni sjóðfélaga og grunnstoðir sjálfs lífeyrissjóðakerfisins. Þetta kerfi reynist nefnilega mjög vel, þrátt fyrir allt það neikvæða og ómaklega sem um það er ítrekað sagt í dægurmálaumræðunni.“


Tilvera í svart-hvítu og bláu í bland

Árni Guðmundsson er og verður gegnheill KR-ingur, keppnismaður sem þolir illa að tapa en hefur þroskast talsvert með árunum. Fæddur inn í KR, keppti í meistaraflokki fyrir KR í þremur greinum íþrótta: knattspyrnu, körfuknattleik og handknattleik og fór lengst í körfunni. Þar varð hann tvisvar Íslands- og bikarmeistari. Í enska boltanum er hann harður stuðningsmaður Chelsea og synirnir tveir eru jafnvel enn harðskeyttari í þeim efnum. Eplin falla þétt upp við eikina.

Körfuna stundar hann enn á veturna en golfið á sumrin.

Íþróttafrík? Já, er svarið.

„Körfuboltinn er einstaklega skemmtilegur og göfugastur allra íþróttagreina. Ég hætti of seint í handbolta forðum til að einbeita mér að körfunni. Við KR-ingar urðum Íslands- og bikarmeistarar í körfubolta 1979, besta liðið sem ég spilaði í á ferlinum.

Ég spila enn körfu og íþróttirnar gera gagn á margan hátt. Hreyfingin er auðvitað holl sem slík en um leið afslöppun. Sportið er til góðs í daglegu amstri. Reyndar lít ég öðrum þræði á starfið sem keppni í að gera vel og helst betur en næsti maður. Sífellt eru á dagskrá viðfangsefni sem þarf að leysa og mörg kalla á vandlega umhugsun og vangaveltur.

Lífeyrismál geta verið býsna snúin og persónuleg. Gildandi reglur eru heldur ekki alltaf skýrar til að vinna eftir. Við starfsmennirnir verðum að hlusta á sjóðfélagana og stuðla að því að þeir njóti í hvívetna þess réttar sem þeim ber.

Ósjálfrátt koma ýmis álitamál upp í hugann utan vinnutíma, jafnvel á koddanum undir svefninn. Þannig er það og þannig verður það. Vinnan er eðlilega alltaf nálæg og þá er gott að hafa íþróttirnar til að kúpla sig út úr erli dagsins um stund.“

Birtist í Vefflugunni í október 2014