Meginkröfur OECD um lífeyrissjóði uppfylltar

Meginkröfur OECD um lífeyrissjóði uppfylltar

„OECD-rannsóknin staðfestir að íslenska lífeyriskerfið er sterkt í alþjóðlegum samanburði. Forsendur hennar eru alls staðar eins og við höfum því fengið í fyrsta sinn fengið niðurstöður sem eru fyllilega sambærilegar. Forystusveitir lífeyrissjóðanna munu rýna skýrsluna, ekki síst þar sem bent er á veikleika lífeyriskerfisins, í því skyni að gera gott kerfi enn betra,“ segir Gunnar Baldvinsson, formaður Landssamtaka lífeyrissjóða, um nýja skýrslu þar sem birtur er íslenskur hluti alþjóðlegs rannsóknarverkefnis vegna samanburðar á nægjanleika lífeyris fólks á aldrinum 35-64 ára á vinnumarkaði árið 2012.

„Í ljósi þess að í mannfjöldaspám á Vesturlöndum er gert ráð fyrir að lífeyrisþegum fjölgi en fólki á vinnumarkaði fækki hlutfallslega er mikil gæfa að Íslendingar hafi kosið að byggja upp lífeyriskerfi sem greiðir meirihluta eftirlauna. Mikilvægt er að hlú áfram að kerfinu og styrkja enn frekar.

Rannsóknarniðurstaðan er okkur hagstæð en tvennt ber að hafa í huga, skiptir máli til framtíðar. Í þessum samanburði er reiknað með að meðalævin verði óbreytt en reynslan sýnir að hún lengist og skuldbindingar lífeyrissjóða aukast að sama skapi. Sömuleiðis er reiknað með óbreyttum reglum um almannatryggingar en gangi eftir spár um gjörbreytta aldurssamsetningu þjóðarinnar getur það haft mikil áhrif á getu almannatrygginga til að greiða lífeyri.“ 


Hver kynslóð leggi fyrir í lífeyrissjóð

Rannsókn OECD um nægjanleika lífeyrissparnaðar beindist að því að leiða í ljós bæði styrkleika og veikleika lífeyriskerfa í ríkjum Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD, og bera saman niðurstöðurnar.

Kjarni máls í niðurstöðum er sá að lífeyriskerfið á Íslandi stenst ágætlega stefnumarkandi tilmæli OECD um uppbyggingu lífeyriskerfa.

Efnahags- og framfarastofnunin – OECD leggur áherslu á að þjóðir hagi lífeyrismálum sínum
þannig að hver kynslóð leggi fyrir í sjóð til að standa undir lífeyrisgreiðslum. Þannig sé dregið úr þörf á greiðslum úr ríkissjóðum vegna almannatrygginga.

Þetta er nákvæmlega sú leið sem Íslendingar hafa fetað. Í nýju OECD-skýrslunni er brugðið upp skýrri mynd af vægi sjóðsöfnunar í heildarlífeyrisgreiðslum á Íslandi, einum helsta styrks lífeyriskerfisins hér.

Tæplega fjórðungur lífeyris kemur sem sagt frá almannatryggingum en þrír fjórðu úr lífeyrissjóðum.


Helstu einkenni styrkleika kerfisins eru að

  • sjóðsöfnun er mikil. Þar sker Ísland sig úr að því að leyti að hátt í 77% lífeyrisgreiðslna munu koma úr sjóðum sem safnað hafa eignum til að greiða lífeyri.
  • öryggisnet almannatrygginga er mikilvægt fyrir lágtekjufólk, þ.e. lífeyrisgreiðslur Tryggingastofnunar skapa þeim öryggi sem fá lágan lífeyri úr lífeyrissjóðum vegna fjarveru af vinnumarkaði, lágra launa eða minni réttindaávinnslu á fyrstu áratugum almennu lífeyrissjóðanna.
  • lífeyrisþegar framtíðarinnar fá yfirleitt meiri lífeyri en nú er greiddur. Samanlagður lífeyrir frá sjóðunum og almannatryggingum verður að jafnaði um þriðjungi hærri en hjá þeim sem nýlega hófu töku lífeyris.
  • hlutur viðbótarlífeyrissparnaðar (séreignar) fer vaxandi í heildarlífeyri framtíðarinnar.


Helstu einkenni veikleika kerfisins eru að

  • lífeyrir er almennt séð talinn lágur um þessar mundir.
  • verulegur munur er á lífeyrisréttindum opinberra starfsmanna og fólks á almennum vinnumarkaði (almannatryggingar draga úr þeim mun).
  • tekjutenging almannatrygginga og lífeyristekna er mikil.
  • margir ná ekki viðmiði um 56% lífeyrishlutfall úr samtryggingarsjóðum (einkum vegna rofs í iðgjaldasögu).


Nær allir landsmenn eiga réttindi í almennu sjóðunum

Það kom sérfræðingum, sem unnu að OECD-skýrslunni um nægjanleika lífeyrissparnaðar, nokkuð á óvart hve fjölbreyttur og hreyfanlegur íslenskur vinnumarkaður er í raun ef horft er
til réttindaávinnslu landsmanna í lífeyrissjóðum sínum.
Eftir að gögnum hafði verið safnað og þau greind kom í ljós að nær allir Íslendingar eiga einhvern rétt í almennu lífeyrissjóðunum og tveir af hverjum þremur eiga einhvern rétt í opinberu sjóðunum.

Þegar öllu er á botninn hvolft er yfir ein milljón sjóðfélaga í lífeyrissjóðum á Íslandi, margfalt fleiri en sem nemur raunverulegum mannfjölda eða fjölda kennitalna. Margir eiga með
öðrum orðum lífeyrisréttindi í mörgum sjóðum, flestir vegna vinnu á námsárum á fleiri stöðum. Sömuleiðis kom sérfræðingunum á óvart hve margir erlendir ríkisborgarar eiga lífeyrisréttindi á Íslandi, fólk sem hefur staldrað hér við, unnið um lengri eða skemmri tíma og greitt í lífeyrissjóði.

OECD-rannsóknin miðaðist við árið 2012 og tók til fólks sem fæddist á árabilinu 1948-1977.
Heildarfjöldi í grunnúrtaki var hátt í 177.000 manns en af þeim voru einungis liðlega 120.000 búsettir á Íslandi í lok árs 2012.

Sérfræðingarnir tóku 1977-árganginn sérstaklega til athugunar. Það ár fæddust um 4.300 manns, þar af voru um 4.100 búsettir á Íslandi í lok árs 2012. Útgefnar kennitölur árgangsins voru hins vegar yfir 7.000, sem sýnir að nærri 3.000 manns af erlendum uppruna, fæddir 1977, hafa fengið úthlutað íslenskri kennitölu.



Fróðleiksmolar

  • Í árslok 2013 voru alls 27 lífeyrissjóðir á Íslandi.
  • Heildareignir sjóðanna voru 2,4 milljarðar króna í lok árs 2013 eða sem svaraði til 135% af vergri landsframleiðslu. Einungis lífeyrissjóðir Hollendinga áttu hlutfallslega meiri eignir innan OECD.
  • Lífeyrir úr samtryggingarsjóðum nam 62% af heildarlífeyrisgreiðslum á Íslandi í lok árs 2013, sem var hæsta hlutfall innan OECD líkt og nokkur ár þar á undan. Sambærilegt hlutfall í öðrum OECD-ríkjum er frá 52% niður í ekki neitt.
  • Umfang viðbótarlífeyrissparnaðar og eiginfjármyndun í íbúðarhúsnæði á Íslandi er mikil á alþjóðavísu og dregur úr líkum á að fólk þurfi að breyta verulega lífstíl sínum á eftirlaunaaldri.
  • Ef virði hreinnar eignar Íslendinga í íbúðarhúsnæði væri breytt í sjóð og dreift yfir þann tíma sem þeir eiga ólifaðan af meðalævi myndi lífeyrir hækka um 18 prósentustig.
  • Ísland er í langefsta sæti í OECD yfir atvinnuþátttöku í yngstu aldursflokkum (15-24 ára) og þeim elstu (55-69 ára).