Skipting ellilífeyrisréttinda milli hjóna

Skipting ellilífeyrisréttinda milli hjóna

Skipting ellilífeyrisréttinda skal vera gagnkvæm og jöfn.

Sjóðfélögum í lífeyrissjóðum er heimilt að skipta ellilífeyrisréttindum sbr. 3.mgr. 16. gr. laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Ákvæðið er valkvætt en ekki skylda.

Eftirfarandi skilyrði þurfa að vera uppfyllt:

1. Skipting ellilífeyrisréttindanna tekur til þeirra sem eru eða hafa verið í hjúskap eða óvígðri sambúð.  

2. Skipting ellilífeyrisréttinda skal fela í sér gagnkvæma skiptingu sem skal vera jöfn, þ.e.a.s. hvort hjóna eða sambúðarfólks skal veita hinu sama hlutfall réttinda sinna. Heimilt er að framselja til makans allt að helmingi ellilífeyrisréttindanna.

3. Skiptingin skal aðeins taka til áunninna réttinda meðan hjúskapur eða óvígð sambúð hefur staðið eða mun standa.

Ákvæði laganna um skiptingu ellilífeyrisréttindanna er þríþætt. Í fyrsta lagi er skipt samtímagreiðslu ellilífeyris. Í öðru lagi er skipting á þegar áunnum ellilífeyrisréttindum. Í þriðja lagi er um að ræða skiptingu þeirra ellilífeyrisréttinda sem munu ávinnast eftir að umrætt samkomulag er gert. Skiptingin getur því varðað réttindi í nútíð, fortíð og framtíð.

Verður nú gerð nánari grein fyrir þessari skiptingu og þeim atriðum sem gæta þarf að í framkvæmd.

Greiðsluskipting

Hér er eingöngu um að ræða skiptingu á núverandi ellilífeyrisgreiðslum milli maka og skal skiptingin vera gagnkvæm og jöfn. Við fráfall sjóðfélaga falla greiðslur til maka niður. Við fráfall maka fær sjóðfélaginn hins vegar greiddan allan ellilífeyrinn á ný.


Skipting áunninna réttinda

Þessi skipting þarf að eiga sér stað eigi síðar en sjö árum áður en taka ellilífeyris getur fyrst hafist. Það skilyrði er sett í lögunum að heilsa sjóðfélagans dragi ekki úr lífslíkum hans. Aðeins má skipta þeim réttindum sem áunnust meðan hjúskapur eða sambúð varði. Þá er enn fremur sett það skilyrði að heildarskuldbinding viðkomandi lífeyrissjóða hvorki aukist eða minnki við skiptinguna. Þetta þýðir að sá hluti ellilífeyrisréttindanna sem kemur í hlut makans verður annað hvort skertur eða aukinn og þá í samræmi við aldur og kyn hans. Þegar þessi skipting hefur farið fram er hún ekki afturkallanleg.

Skipting framtíðarréttinda

Hér er um að ræða skiptingu þeirra ellilífeyrisréttinda sem ávinnast í framtíðinni og þar til hjúskap eða sambúð er slitið. Ef um er að ræða samkomulag um skiptingu framtíðarréttinda bera aðilar hvor um sig ábyrgð á því að kynna það fyrir þeim lífeyrissjóðum, sem þeir kunna að hefja greiðslu iðgjalda til síðar.

Landssamtök lífeyrissjóða hafa látið útbúa samningseyðublað sem sjóðfélagar og makar þeirra geta nálgast á skrifstofum lífeyrissjóðanna eða á Lífeyrismál.is. Vert er að geta þess að þegar um er að ræða skiptingu á núverandi ellilífeyrisgreiðslum og framtíðarréttindum gerir samkomulagið ráð fyrir því að hvor samningsaðili geti sagt upp ákvæðunum með þriggja mánaða fyrirvara enda standi aðrir samningar eða fyrirmæli því ekki í vegi.