Tímamótabreyting í lífeyrissjóðakerfinu 1. júlí 2017

Tímamótabreyting í lífeyrissjóðakerfinu 1. júlí 2017

Iðgjald atvinnurekenda í lífeyrissjóði fólks á almennum vinnumarkaði hækkar um 1,5% 1. júlí 2017 í samræmi við ákvæði kjarasamninga Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins frá því í janúar 2016.

Mestum tíðindum sætir samt að á sama tíma tekur væntanlega gildi breyting sem felur í sér að sjóðfélagar geti valið að setja allt að 3,5% skylduiðgjalds í lífeyrissjóði í séreignarsparnað. Til að það gangi eftir verður að breyta samþykktum tilheyrandi lífeyrissjóða og þeir boða af því tilefni til aukaársfunda 21.-27. júní næstkomandi.

„Þegar heimilað verður að setja hluta skylduiðgjalds í séreign hlýtur það að teljast ein stærsta breytingin í lífeyrissjóðakerfinu í áratugi. Þeir sem vilja fara þessa leið taka sjálfir um það upplýsta ákvörðun og verða að staðfesta hana skriflega gagnvart lífeyrissjóðum sínum,“ segir Þorbjörn Guðmundsson, stjórnarformaður Landssamtaka lífeyrissjóða.

Ekki „venjulegur“ séreignarsparnaður

Ástæða er til að vekja sérstaka athygli á því að þessi „tilgreinda séreign“, sem svo er nefnd, verður að ýmsu leyti ólík þeim séreignarsparnaði sem menn þekkja nú:

 • Tilgreindan séreignarsparnað verður unnt að byrja að taka út fimm árum fyrir hefðbundinn lífeyristökualdur en ekki þegar náð er sextugsaldri eins og gildir um annan séreignarsparnað.
 • Tilgreindan séreignarsparnað verður ekki unnt að nota til að safna skattfrjálst til húsnæðiskaupa eða til að greiða skattfrjálst niður húsnæðislán.

Tilgreind séreign verður erfanleg líkt og annar séreignarsparnaður. Sömuleiðis er gert ráð fyrir því að sjóðfélagar geti valið um ávöxtunarleiðir fyrir tilgreindan séreignarsparnað. 

 • Þá er ástæða til að vekja athygli launagreiðenda á því að breytingin hefur engin áhrif gagnvart þeim nema að því leyti að iðgjaldið hækkar. Ákvörðun um séreign eða ekki séreign er algjörlega á valdi hvers sjóðfélaga en útfærslan gerist í samskiptum sjóðfélaganna og lífeyrissjóða þeirra án aðkomu launagreiðenda á nokkurn hátt. 

Breytingin og ferli hennar í hnotskurn

 1. Í kjarasamningum á almennum vinnumarkaði í janúar 2016 var kveðið á um að atvinnurekendur hækkuðu iðgjald sitt í lífeyrissjóði úr 8% í 11,5% í þremur áföngum: 0,5% 1. júlí 2016, 1,5% 1. júlí 2017 og 1,5% 1. júlí 2018.
 2. Iðgjald launafólks yrði óbreytt áfram, 4%.
 3. Heildariðgjald í lífeyrissjóði yrði þannig komið í 15,5% um mitt ár 2018 (hlutur atvinnurekenda 11,5% + hlutur launafólks 4% = 15,5% af heildarlaunum).
 4. Í samkomulagi Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins var jafnframt kveðið á um að sjóðfélagar gætu sett viðbótariðgjaldið, 3,5%, í séreignarsjóði að hluta eða öllu leyti. Ef þeir létu hins vegar kyrrt liggja færi viðbótin þeirra öll í samtryggingarhluta lífeyrissjóðanna.
 5. Gengið var út frá því að breyta þyrfti lögum til að koma þessari breytingu á. Nýr fjármála- og efnahagsráðherra skipaði starfshóp til að semja lagafrumvarp sem hann myndi síðan leggja fyrir Alþingi. Lengri tíma tók að útfæra lagatextann en búist var við, enda skiptar skoðanir um málið. Drög að frumvarpi voru ekki tilbúin fyrr en um mánaðarmótin apríl/maí. Þá hafði augljóslega lækkað verulega í tímaglasinu gagnvart starfsáætlun vorþings við Austurvöll.
 6. Ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytisins viðraði um þetta leyti þá skoðun sína að fyrirhuguð breyting í lífeyrissjóðakerfinu rúmaðist innan gildandi laga en að lífeyrissjóðir fólks á almennum vinnumarkaði þyrftu hins vegar að breyta samþykktum sínum.
 7. Fjármálaeftirlitið var sama sinnis og samþykkti að málsmeðferðinni yrði beint í þennan farveg.
 8. Lífeyrissjóðirnir sem breyta þurfa samþykktum sínum boða til aukaársfunda núna 21.-27. júní til að fjalla um og bera undir atkvæði tillögur að nauðsynlegum breytingum.
 9. Fjármálaeftirlitið og fjármála- og efnahagsráðuneytið þurfa að staðfesta svo breyttar samþykktir lífeyrissjóða. Að fengnum grænum ljósum úr þeim áttum er ferlið á enda og breytingarnar í höfn.
 10. Lífeyrissjóðirnir búa sig undir að kynna og auglýsa breytinguna, hver í sínum ranni, en verða að bíða eftir að fyrir liggi samþykki aukaársfunda, Fjármálaeftirlits og fjármála- og efnahagsráðuneytis. 

Hvers vegna þessi breyting, Þorbjörn Guðmundsson?

„Hugmyndin er annars vegar sú að styrkja samtrygginguna í lífeyrissjóðakerfinu, ábyrgðina sem við tökum hvert á öðru og verður sífellt mikilvægari þegar þjóðin eldist. Hins vegar geta þeir sem það vilja sett viðbótariðgjaldið í séreignarsparnað og þar með er komið til móts við kröfur þeirra sem vilja hafa þann kost í stöðunni.

Breytingunni er ætlað að styrkja lífeyrissjóðakerfið og afla meiri stuðnings við það sem slíkt og ég er henni mjög hlynntur.

Vissulega eru skiptar skoðanir um málið, sem er fullkomlega eðlilegt. Sumir vilja leggja áfram megináherslu á samtrygginguna en á hinum pólnum eru þeir sem vilja einfaldlega að einstaklingarnir eigi að ráða því sjálfir hvernig og hvar þeir ráðstafa viðbótariðgjaldinu til ávöxtunar.“

Gerið þið ráð fyrir því að margir sjóðfélagar velji að setja viðbótina í séreign?

„Það veit auðvitað enginn fyrr en á reynir. Aðalatriðið er að lífeyrissjóðirnir kynni málið og upplýsi vel í hverju breytingin felst og frammi fyrir hvaða kostum sjóðfélagar standa.

Valið er sjóðfélaganna og engra annarra. Þeir eiga að taka upplýsta ákvörðun og staðfesta hana með undirskrift sinni, velji þeir að setja viðbótina í tilgreinda séreign.

Þessi formlegu samskipti sjóðfélaga og lífeyrissjóðs eru afar mikilvæg því ákvörðunin getur haft gríðarleg áhrif á réttarstöðu viðkomandi í aðstæðum sem því miður geta komið upp síðar.“

– Hvað áttu við með því?

„Sá sem semur um að öll viðbótin, 3,5%, fari í tilgreinda séreign nýtur áfram örorkuverndar sem miðast við 12% iðgjald. Sá sem hins vegar velur að öll viðbótin fari í samtryggingarhlutann nýtur örorkuverndar sem miðast við 15,5% iðgjald.

Enginn gerir ráð fyrir að verða öryrki á besta aldri en það gerist því miður. Lífeyrisréttindi til 65 ára aldurs eru reiknuð út frá því hve mikið viðkomandi hefði að óbreyttu greitt í lífeyrissjóð starfsævina á enda. Þá munar miklu hvort viðmiðun við útreikning réttinda er 12% eða 15,5%. Þarna eru augljóslega fólgin mikil verðmæti fyrir ungt fólk en þau minnka þegar líður á ævina.

Þetta er dæmi um ákveðna hlið málsins sem lífeyrissjóðir eiga að  upplýsa um. Þegar öllu er á botninn hvolft er ábyrgðin hins vegar sjóðfélaganna sjálfra. Í sjálfu eðli væntanlegrar breytingar liggur að þeir afli sér upplýsinga, velti málum fyrir sér og ráði svo för sinni sjálfir.“

Skrifað 9. júní 2017.