3,5% núvirðingarprósenta er ekki sama og ávöxtunarkrafa

Að gefnu tilefni vilja Landssamtök lífeyrissjóða taka eftirfarandi fram.

Bankastjóri Arion banka blandar lífeyrissjóðum inn í umræðu um vaxtamun bankanna í viðtali í viðskiptablaði Morgunblaðsins í dag. Í viðtalinu lýsir bankastjórinn þeirri skoðun sinni að ávöxtunarviðmið lífeyrissjóðanna setji ákveðið vaxtagólf.

Ummæli bankastjórans byggjast á misskilningi og eru óheppileg. Núvirðingarprósenta lífeyrissjóða, 3,5%, sem notuð er til að núvirða eignir og skuldir í tryggingafræðilegum uppgjörum er ekki krafa um raunávöxtun. Ávöxtun lífeyrissjóða ræðst af ávöxtun eigna sjóðanna svo sem skuldabréfa, hlutabréfa og innlána. Sjóðirnir kaupa skuldabréf á markaði þar sem ávöxtunarkrafa ræðst fyrst og fremst af framboði og eftirspurn. Á undanförnum mánuðum hefur til dæmis ávöxtunarkrafa á löngum ríkisskuldabréfum lækkað niður fyrir 3% m.a. vegna takmarkaðs framboðs.

Í nýjasta tölublaði Vísbendingar (9. tölublað, 33. árgangur) er fjallað um 3,5% núvirðingarprósentuna. Í greininni er m.a. að finna eftirfarandi texta. ,,Alltaf skýtur upp kollinum umræðan um hvaða prósenta sé eðlileg þegar meta skal núvirði á skuldbindingum lífeyrissjóða. Reyndar er algengt að misskilningur ríki um þessa prósentu og hún kölluð ávöxtunarkrafa, en svo er ekki heldur er hún tilgáta um hvaða raunávöxtun sé líklegast að lífeyrissjóðirnir nái um langa framtíð.“ 

Þessi texti lýsir vel notkun á núvirðingarprósentunni sem er fyrst og fremst notuð til að meta eignir og skuldbindingar lífeyrissjóðanna og núvirða framtíðarréttindi sjóðfélaga í lífeyrissjóðum. Núvirðingarprósentan er ekki krafa um raunávöxtun og er því ekki vaxtagólf.