Áskoranir fyrir vinnumarkaðinn vegna hækkandi lífaldurs

Aðilar vinnumarkaðarins og lífeyrissjóðirnir stóðu fyrir málþingi á Grand Hótel þriðjudaginn 26. apríl þar sem umræðuefnið var hækkandi lífaldur fólks og þær áskoranir sem vinnumarkaðurinn stendur frammi fyrir vegna þess. Danskur læknir og öldrunarsérfræðingur Henning Kirk kom til landsins af þessu tilefni og flutti erindi sem hann kallar "Longer Lives - Better Brains". Stefán Ólafsson, prófessor við HÍ, fór yfir stöðu eldra fólks á vinnumarkaði og þróunina næstu áratugina og Jakobína Hólmfríður Árnadóttir, hópstjóri ráðninga hjá Capacent sagði frá reynslu Capacent af ráðningum eldri starfsmanna. Eftir kaffihlé tók framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða, Þórey S. Þórðardóttir, til máls og kynnti þær hugmyndir sem uppi eru um breytingar á lífeyrisaldri og auknum möguleikum til sveigjanlegri starfsloka. Í pallborði voru síðan fulltrúar frá Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi háskólamanna, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, fjármála- og efnahagsráðuneytinu, Kennarasambandi Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Samtökum atvinnulífsins. Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans stjórnaði umræðum.

IMG_3199

Hægt er að nálgast glærur framsögumanna hér:

Dr. Henning Kirk, Longer Lives - Better Brains
Stefán Ólafsson, Staða eldra fólks á vinnumarkaði og þróunin næstu áratugina.
Jakobína Hólmfríður Árnadóttir, Reynslan af ráðningum eldri starfsmanna
Þórey S. Þórðardóttir, Kynning á hugmyndum um breytingar á lífeyrisaldri á næstu áratugum og auknum möguleikum til sveigjanlegri starfsloka.