Birtufólk markar græn spor í starfsemina og tilveruna

Einar Hafsteinsson, varamaður í stjórn Birtu, Trausti Jóhannsson, skógarvörður á Suðurlandi og Ólafu…
Einar Hafsteinsson, varamaður í stjórn Birtu, Trausti Jóhannsson, skógarvörður á Suðurlandi og Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Birtu

Birtufólk markar græn spor í starfsemina og tilveruna

Birta lífeyrissjóður ætlar að rækta skóg á þremur hekturum lands í Haukadal. Sjóðurinn lýsir því jafnframt yfir að skógræktin sé stefnuyfirlýsing um „græn spor“í eigin rekstri og viðhorf sem einnig muni birtast út á við í starfseminni.

Hvað er að gerast í Birtu? Hvað er að gerast í Haukadal? Stefnir fjórði stærsti lífeyrissjóður landsins að því að framleiða timbur og selja greni til jóla þegar plöntur haustsins 2018 ná því að standa tignarlegar í stofum landsmanna, skreyttar og upplýstar?

Hanna Þórunn Skúladóttir, forstöðumaður skrifstofu- og rekstrarsviðs, og Ólafur Sigurðsson framkvæmdastjóri sitja fyrir svörum.

Jakob Tryggvason, formaður stjórnar Birtu, Trausti Jóhannsson, skógarvörður á Suðurlandi og Ingibjörg Ólafsdóttir, varaformaður stjórnar Birtu takast í hendur við undirritun samnings Birtu lífeyrissjóðs og Skógræktarinnar.„Samningi við Skógræktina, um að gróðursetja 7.500 plöntur af sitkagreni, alaskaösp og stafafuru á þremur árum, er ætlað að kolefnisjafna á móti eigin rekstri Birtu lífeyrissjóðs. Við munum verja 1,5 milljónum króna til verkefnisins. Skógræktin er samt einungis hluti af mun stærri mynd. Við munum innleiða grænt bókhald og stuðla í smáu og stóru að því að starfsemi sjóðsins verði í sátt við umhverfi og náttúru.

Ný umhverfisstefna Birtu lífeyrissjóðs mótaðist á undanförnum misserum. Hún var rædd efnislega á stefnumótunarfundi stjórnar og stjórnenda á Flúðum 20. september og staðfest formlega á stjórnarfundi 26. september 2018.

Við gerðum hlé á fundinum á Flúðum til að skrifa undir samninginn við Skógræktina og koma fyrir 500 fyrstu plöntunum í væntanlegu skóglendi sjóðsins. Þar ríkti gleði og stemning, reyndar ólýsanlegt tilfinning að sjá þessar ofursmáu plöntur fá vettvang til að vaxa og dafna og tilhlökkun að sjá í vor hvernig þeim hefur reitt af í vetur.“

Er meiningin að skapa sjóðnum „græna ímynd“?

„Svarið er alveg skýrt: Við hugsum skógræktina ALLS EKKI sem almannatengslatrix heldur táknræna staðfestingu á því að við höfum sett okkur umhverfisstefnu og valið henni heitið Græn spor Birtu. Sporin verða mörg, smá og stór. Þetta snýst um að breyta viðhorfum okkar sjálfra, auka þekkingu og skilning.

Við erum hvorki að fjárfesta í skógariðnaði né sölu jólatrjáa, það er ekki meiningin. Skemmtilegt er engu að síður að ávöxtunin í Haukadal verður metin í sentímetrum og metrum greina og trjástofna til kolefnisbindingar en ekki í peningum og prósentum! Kolefnisbindingin verður eign Birtu í 50 ár og hægt er að færa góð rök fyrir því að sú ráðstöfun muni skila sjóðnum ávinningi.“

– Snýr þetta þá fyrst og fremst að ykkur sjálfum í forystusveit og starfsmannahópi sjóðsins eða hvað?

„Til að byrja með, já. Í nýrri umhverfisstefnu er mælt fyrir um að auka stafræna þjónustu Birtu, spara orku á vinnustaðnum, minnka sóun, draga úr pappírsnotkun, leitast við að velja umhverfismerktar vörur til starfseminnar og draga úr notkun einnota aðfanga.

Sjóðurinn mun færa grænt bókhald og það þýðir að við mælum tiltekna rekstrarþætti og birtum upplýsingar um umhverfisáhrif af þeim í starfseminni. Þetta munu sjóðfélagar okkar sjá og og almenningur allur. Við erum sannfærð um að þetta muni leiða til hagræðingar í rekstri, draga úr kostnaði og hafa jákvæð áhrif á umhverfið.

Síðast en ekki síst ætlum við að stuðla að því að starfsfólkið velji umhverfisvæna samgöngumáta. Þannig minnkum við kolefnissporið og kolefnisjöfnum með því að gróðursetja tré í Haukadal.

Við erum í taktföstu lærdómsferli við að tileinka okkur sjálfbæra hugsun og útfærslu hennar. Þessa viðhorfs mun gæta líka í markmiði okkar um ábyrgar fjárfestingar Birtu. Við höfum skuldbundið okkur til að fylgja viðmiðum Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar og ef við sem þjóð viljum ná markmiðum Parísarsamkomulagsins vegna loftlagsbreytinga þurfa allir að sýna vilja í verki.“

– Hvernig þá? Fær fjárfestingarstefnan „grænt yfirbragð“?

„Í eignasafni sjóðsins eru mörg fyrirtæki sem komin eru langt og til fyrirmyndar á             margan hátt varðandi umhverfismál, samfélagsábyrgð og stjórnarhætti. Langtímahugsun og sjálfbærni skiptir öllu máli fyrir lífeyrissjóð og þá hugsun viljum        við rækta og styrkja í eignasafninu.

 Við drögum tvímælalaust úr rekstrarkostnaði sjóðsins og aukum arðsemi með því að tileinka okkur hugmyndafræði Grænna spora Birtu. Vissulega horfir svo sjóðurinn til kennileita ábyrgra fjárfestinga við mat á félögum sem bjóðast sem fjárfestingarkostir en á hinn bóginn eru líka fólgin tækifæri í því að fjárfesta í félögum sem EKKI hafa staðið sig vel gagnvart sjálfbærni, umhverfismálum og samfélagsábyrgð. Í slíkum tilvikum yrði það áskorun Birtu að stuðla að breytingum til batnaðar, til ávinnings fyrir viðkomandi félög, fyrir lífeyrissjóðinn og samfélagið.“

– Lífeyrissjóðum er ætlað að taka við iðgjöldum, ávaxta þau og greiða lífeyri. Telst kolefnisjöfnun til eðlilegra verkefna lífeyrissjóðs?

„Já, við teljum rökrétt og eðlilegt að kolefnisjafna starfsemi Birtu, enda ber okkur á grundvelli kjarasamnings Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins að taka mið af leiðbeiningumViðskiptaráðs um góða stjórnarhætti fyrirtækja þar sem kveðið er á um að stjórn skuli setja sér stefnu um samfélagsábyrgð. Slík stefna á að fjalla um þætti á borð við umhverfis- og loftslagsmál.

Þá má nefna að samkvæmt nýlegri breytingu á ársreikningalögum ber okkur að leggja mat á þróun, umfang, stöðu og áhrif lífeyrissjóðsins í tengslum við umhverfismál og gera grein fyrir því í skýringum í formi ófjárhagslegra upplýsinga.

Við lítum einfaldlega svo á að við séum með kolefnisjöfnuninni að uppfylla skyldur og kvaðir samkvæmt kjarasamningi og lögum.“