Fjárfestar rýna og ræða heimsmarkmið SÞ

Fjárfestar rýna og ræða heimsmarkmið SÞ

Fjárfestar rýna og ræða heimsmarkmið SÞ

„Ég vek athygli á óteljandi tækifærum og ómældum möguleikum sem felast í aðild Íslands að stórum, alþjóðlegum fjárfestinga- og þróunarbönkum. Þessir gríðarlega umsvifamiklu fjárfestar hafa hundruð milljarða króna til ráðstöfunar á hverju einasta ári og horfa mjög til verkefna sem tengjast heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Með því að fá bankana til liðs við sig skapast möguleikar til að flytja út íslenska þekkingu, stuðla að breytingum til góðs annars staðar í veröldinni og margfalda gildi fjárfestingarinnar.“

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra brýndi gesti í þéttsetnum sal Nauthóls til verka á morgunfundi IcelandSIF 10. janúar sl. Efnt var til samkomunnar til að ræða heimsmarkmið SÞ og virða þau fyrir sér af sjónarhóli fjárfesta.

Heimsmarkmiðin eru hvorki meira né minna en „framkvæmdaáætlun í þágu mannkynsins, jarðarinnar og hagsældar“. Áhrifa þeirra gætir meira, hraðar og víðar hérlendis en margan grunar. Það kom glöggt í ljós á Nauthóli.

Lífeyrissjóðir tóku þátt í að stofna IcelandSIF

Fundarboðandinn, IcelandSIF, er samtök sem stofnuð voru í nóvember 2017, „óháður vettvangur fyrir umræðu og fræðslu um ábyrgar og sjálfbærar fjárfestingar“. Stofnendur voru ellefu lífeyrissjóðir, fjórir bankar, þrjú tryggingafélög, fjögur rekstrarfélög verðbréfasjóða og eitt eignastýringarfyrirtæki.

Samtökin hafa þegar látið verulega til sín taka og efnt til áhugaverðra funda um margvísleg málefni tengd fjárfestingum, fjárfestingarpólitík, siðfræði, sjálfbærni og fleiri tengdum efnum. Þau hafa boðið fyrirlesurum erlendis frá hingað, til dæmis í Nauthól. Þangað mætti frá Hollandi Laura Bosch Ferreté, sérfræðingur í virku eignarhaldi hjá Robeco .

Fanney Karlsdóttir, formaður verkefnastjórnar íslenskra stjórnvalda um heimsmarkmið SÞ.Fanney Karlsdóttir, formaður verkefnastjórnar íslenskra stjórnvalda um heimsmarkmið SÞ, fjallaði um samhæfða vinnu í stjórnkerfinu um að hrinda tilteknum markmiðum í framkvæmd og samþykkt ríkisstjórnarinnar í þeim efnum, frá júní 2018. Hún stiklaði jafnframt á stóru um hvernig opinberar stofnanir, sveitarfélög, einkafyrirtæki og frjáls félagasamtök tileinka sér hugsun og aðferðafræði heimsmarkmiðanna og hrinda þeim markmisst og ákveðið í framkvæmd. Þar má nefna embætti landlæknis, Landspítala, Kópavogsbæ, Isavia, Mannvit, Landsvirkjun og skátahreyfinguna. Mörg fleiri dæmi mætti nefna en einmitt þessi bar á góma á fundinum.

Marel stuðlar að betri nýtingu matvæla

Þorsteinn Kári Jónsson, verkefnastjóri hjá Marel, lýsti því fyrir gestum í máli og myndum hvernig þetta öfluga, alþjóðlega hátæknifyrirtæki hreinlega „marinerar“ starfsemi sína í anda heimsmarkmiðanna, sem koma við sögu í stefnu, framleiðslu, samfélagslegri afstöðu og starfsemi yfirleitt heima og heiman. Marel er með 6.000 starfsmenn í 30 ríkjum og fæst við nýsköpun og þróun í matvælaiðnaði.

Fram kom að mannkyni myndi fjölga um þrjá milljarða á næstu þrjátíu árum og því þyrfti að auka matvælaframleiðslu í heiminum á sama tíma um 50-70% (!).

Vandamálin sem blasa við eru risavaxin: alltof stór landsvæði eru lögð undir landbúnað, alltof mikið af grunnvatni er notað til matvælaframleiðslu og alltof mikill matur fer til spillis, bæði hjá neytendum og í framleiðsluferlinu.

Marel horfir sérstaklega til þess að nýta matvæli betur með tækni sinni í framleiðslunni. Nefnt var sem dæmi að þegar fyrirtækið hóf starfsemi sína um 1980 var nýtingarhlutfall fiskflaks í vinnslu um 60% að jafnaði en er nú 80-85%.

FundargestirKjúklingur er sömuleiðis skorinn í hæfilega skammta með tæknibúnaði Marels til að mátulega mikið af kjöti sé eldað handa mannskapnum hverju sinni. Þar með dragi úr líkum á því að henda þurfi hluta hráefnis eða afgöngum.

Í Afríkuríkinu Gambíu hefur Marel tæknivætt kjúklingaframleiðsluna í samstarfi við stjórnvöld þar í landi og slegið margar flugur í einu höggi: skapað boðlegt vinnuumhverfi og mun hreinlegra framleiðsluferli á vinnustöðunum, heilnæmari og öruggari mat.

Um alla Gambíu eru nú seldar kjúklingamáltíðir sem framleiddar eru í tækjum íslenska fyrirtækisins.

Þannig birtist þankagangur heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna meðal annars í starfsemi Marels!

Heimsmarkmiðavefur Stjórnarráðs Íslands

Vefur IcelandSIF