Fréttatilkynning frá Landssamtökum lífeyrissjóða í kjölfar fullyrðinga um að lífeyrissjóðir eigi að lögsækja erlend matsfyrirtæki

Birt er grein í Fréttablaðinu í dag þar sem því er haldið fram að það sé „ekki bara skynsamlegt heldur líka skylda lífeyrissjóða“ að láta á það reyna til fulls að höfða mál á hendur matsfyrirtækjum fyrir dómstólum í New York. Greinarhöfundur hafði samband við forsvarsmenn nokkurra lífeyrissjóða í vetur og kom fram fyrir hönd erlendrar lögmannsstofu sem mun að eigin frumkvæði hafa lagt í 250.000 USD kostnað við að skoða fýsileika málaferla lífeyrissjóða fyrir erlendum dómstólum. Í minnisblaði um málið eru raktar ýmsar hindranir sem nauðsynlega þarf að yfirstíga til að sjóðunum verði fært að ná fram bótum á hendur matsfyrirtækjunum fyrir dómstólum í New York.

Í kjölfar þessa var ákveðið af hálfu Landssamtaka lífeyrissjóða að setja af stað hóp nokkurra sérfræðinga til að yfirfara málið og var m.a. leitað álits utanaðkomandi lögmanna. Málið hefur því fengið ítarlega og vandaða yfirlegu af hálfu lífeyrissjóðanna. Ákvarðanir um málaferli eru teknar af stjórnum einstakra lífeyrissjóða og er óhætt að fullyrða að þar eru hagsmunir sjóðfélaga hafðir að leiðarljósi.