Lífeyrissjóðir fái undanþágu frá höftum til árlegrar fjárfestingar erlendis

Fjölmenni á útgáfusamkomu bókarinnar, sem út kom á vegum Landssamtaka lífeyrissjóða.
Fjölmenni á útgáfusamkomu bókarinnar, sem út kom á vegum Landssamtaka lífeyrissjóða.

Brýnt er að lífeyrissjóðirnir fái sérstaka heimild eða undanþágu frá fjármagnshöftum til að fjárfesta erlendis minnst fjórðung þess sem iðgjöld skila sjóðunum eða um 10 milljarða króna árlega. Tveir dósentar við Háskóla Íslands, þeir dr. Ásgeir Jónsson hagfræðingur og dr. Hersir Sigurgeirsson fjármálafræðingur leggja þetta til í bók sem út er komin á vegum Landssamtaka lífeyrissjóða.

Ásgeir og Hersir hafa undanfarna mánuði unnið að fræðilegri greiningu á áhrifum fjármagnshaftanna á íslenskt samfélag og starfsemi lífeyrissjóðanna sérstaklega. Afraksturinn, bókin Áhættudreifing eða einangrun? – Um tengsl lífeyrissparnaðar, greiðslujafnaðar og erlendra fjárfestinga, var kynnt á samkomu sem Landssamtök lífeyrissjóða boðuðu til á Nordica Hotel Reykjavík.

Íslendingar velji „kínversku leiðina“ varðandi greiðslujöfuð
Þórey S. Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða, afhenti gestum bókina að útgáfuteiti loknu.

Tvímenningarnir telja margt benda til þess að höftin verði viðvarandi í einu eða öðru formi næstu árin. Óhjákvæmilegt sé engu að síður að heimila lífeyrissjóðum að fjárfesta árlega erlendis til að tryggja að hlutfall erlendra eigna þeirra lækki ekki meira en orðið er. Þetta hlutfall hafi farið lækkandi og sé nú 22% af eignum. Þannig megi draga úr áhættu og sporna gegn neikvæðum áhrifum þess að þjóðin eldist hlutfallslega næstu ár og áratugi.

Í öðru lagi verði unnið að því að auka hlutfallslega við erlendar eignir lífeyrissjóða með því að ráðstafa viðskiptaafgangi umfram 5% af landsframleiðslu í þessu skyni, þegar greiðslujöfnuður þjóðarinnar veiti svigrúm til slíks á næstu árum.

Í þriðja lagi fari Íslendingar „kínversku leiðina“ varðandi greiðslujöfnuð á þann hátt að þeir sækist eftir erlendum fjárfestingum. Ísland verði engu að síður „hreinn fjármagnsútflytjandi og með varanlegan viðskiptaafgang.“

Skýr þjóðarvilji, þverpóitísk samstaða

Í bókinni kemur fram að íslensk stjórnvöld hafi brugðist við bankahruni og fjármagnsflótta á liðinni öld með fjármagnshöftum árið 1931. Höftin hafi síðan varað til 1993 þegar EES-samningurinn tók gildi! Eftir það voru fjármagnsviðskipti einungis frjáls í 15 ár eða til 2008 þegar þáverandi stjórnvöld settu þau á að nýju.

Bókarhöfundar vekja athygli á að lítið fari fyrir því í íslenskri þjóðmálaumræðu að nauðsynlegt sé að „búa í haginn fyrir afnám hafta og endurkomu landsins á erlenda fjármálamarkaði.“ Forsenda afnáms hafta sé „skýr almennur þjóðarvilji“ og „þverpólitísk samstaða þar sem allir ábyrgir stjórnmálaflokkar verða að deila saman áhættunni.“ Þá geti verið nauðsynlegt að fá til dæmis Alþjóðagjaldeyrissjóðinn til að koma að málinu með landsmönnum.

Lífeyriskerfið má ekki koðna niður

Í lokaorðum bókarinnar er ítrekuð nauðsyn þess að opna lífeyrissjóðum leið til að fjárfesta erlendis, „þrátt fyrir að höftin séu ekki á förum í bráð.“ Og ennfremur segir þar:

„Ytri aðstæður á erlendum fjármálamörkuðum til afnáms hafta hafa ekki verið betri frá árinu 2007, íslenska hagkerfið hefur tekið aftur við sér og verðbólga hjaðnað. Það er því eftir engu að bíða. En kjósi landsmenn að bíða er mikilvægt að biðin verði ekki til þess að lífeyriskerfið koðni niður að baki hafta og uppsöfnun sparnaðarins verði ekki fóður fyrir þenslu og eignabólu.“

Bókin Áhættudreifing eða einangrun? er til í rafrænni útgáfu og öllum aðgengileg ókeypis á vef Landssamtaka lífeyrissjóða, ll.is.

Birtist í Vefflugunni í desember 2014