Málþing um áskoranir fyrir vinnumarkaðinn vegna hækkandi lífaldurs

Aðilar vinnumarkaðarins og lífeyrissjóðirnir standa fyrir málþingi þriðjudaginn 26. apríl kl. 13.00 - 16.00 á Grand Hótel þar sem áskoranir vegna hækkandi lífaldurs verða ræddar. Danski læknirinn og rithöfundurinn Henning Kirk flytur erindið "Longer Lives - Better Brains" þar sem hann veltir fyrir sér afleiðingum hækkandi lífaldurs á stefnumörkun varðandi atvinnuþátttöku eldra fólks, eftirlaunaaldur og lífeyri. Heldur hæfni heilans í við lengri lífaldur? Í erindinu verður leitast við að svara þessum spurningum ásamt því hvort vilji sé til þess á vinnumarkaði að nýta þekkingu og hæfni eldra fólks.

Stefán Ólafsson, prófessor við HÍ fjallar um stöðu eldra fólks á vinnumarkaði og þróunina næstu áratugina og eftir stutt kaffihlé mun Jakobína Hólmfríður Árnadóttir, hópstjóri ráðninga hjá Capacent segja frá reynslu sinni af ráðningum eldri starfsmanna. Áður en kemur að pallborði mun Þórey S. Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða, kynna hugmyndir um breytingar á lífeyrisaldri á næstu áratugum og auknum möguleikum til sveigjanlegri starfsloka. Í pallborði verða fulltrúar ASÍ, BHM, BSRB, fjármála- og efnahagsráðuneytis, KÍ, Sambands íslenskra sveitarfélaga og SA.

Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans stjórnar umræðunum.

Tilkynning um þátttöku berist Landssamtökum lífeyrissjóða á tölvupóstfangið radstefna@ll.is.

Auglýsing 26. apríl fyrir vef