Mistök að leggja af verkamannabústaðakerfið

Mistök að leggja af verkamannabústaðakerfið

„Lífeyrissjóðir styðja vel við húsnæðismarkaðinn og hafa lengi gert með því að fjármagna opinbera lánakerfið og í seinni tíð með því að veita sjóðfélögum afar hagstæð lán til að eignast húsnæði. Húsnæðisvandann á vissulega að leysa að einhverju leyti við samningaborð atvinnurekenda og launafólks. Ég held til dæmis að menn gætu dregið ákveðna lærdóma af þeim mistökum að leggja af verkamannabústaðakerfið.“

Þetta segir Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður stjórna Landssamtaka lífeyrissjóða og Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, í samtali við Lífeyrismál.is. Hún bendir á að sumir líti á það sem sérstaka keppnisgrein að tala lífeyrissjóðakerfið niður, þrátt fyrir að það hafi staðið af sér efnahagshrunið og greitt allan tímann út verðbættan lífeyri.

 „Lífeyrissjóðir töpuðu vissulega miklu en að hluta voru þær eignir pappírsfroða. Sjóðirnir hafa fyrir löngu unnið upp tapið og náð meiri styrk en nokkru sinni fyrr. Kerfið er í lagi og það virkar. Ýmislegt má bæta en ekki tala kerfið niður, hvað þá að leggja það í rústir.“

Guðrún kemur víða við í samtalinu, sem átti sér stað á vinnustaðnum hennar í Hveragerði, í fjölskyldufyrirtækinu Kjörís. Hún rifjar meðal annars upp dimma tíma í fjölskyldunni og í fyrirtækinu þegar faðir hennar féll skyndilega frá innan við sextugt og hún tók við sem framkvæmdastjóri, nýlega útskrifaður stúdent frá Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi.

Mannfræðingur með mörg járn í eldinum - nærmynd af Guðrúnu Hafsteinsdóttur