Norrænu forsætisráðherrarnir vilja hraða grænum efnahagsbata

Norrænu forsætisráðherrarnir vilja hraða grænum efnahagsbata

Fjárfestingar eiga að flýta fyrir grænni umbreytingu og þjóna loftslagsmarkmiðum Parísarsáttmálans. Áhrif loftlagsbreytinga eru augljós og brugðist hefur verið við en betur má ef duga skal.

Þetta er efnislegur kjarni máls í yfirlýsingu forsætisráðherra Norðurlanda og forystumanna landstjórna Grænlands, Færeyja og Álandseyja í tengslum við þing Norðurlandsráðs miðvikudaginn 28. október.

Þar segir ennfremur að nota skuli tækifærið í viðspyrnu vegna efnahagssamdráttar í heimsfaraldri COVID-19 til að veita fjármagn í sjálfbærar fjárfestingar og stuðla jafnframt að félagslegu réttlæti í samfélögunum.

Í máli Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra kom fram að íslensk stjórnvöld legðu mikla áherslu á að bregðast við samdrætti með því að skapa störf á grundvelli grænna lausna. Þá væri samvinna stjórnvalda, atvinnulífs og fjárfesta nauðsynleg til að ná þeim metnaðarfullu markmiðum sem sett hafi verið í loftslagsmálum.

Græn fjárfestingarmarkmið lífeyrissjóða

Í tengslum við norræna ráðherrafundinn lýstu forystumenn lífeyrissjóða á Norðurlöndum hver um sig markmiðum í grænum fjárfestingum. Þar vekur eftirtekt að lífeyrissjóðir í Danmörku skuldbinda sig til að fjárfesta grænt fyrir jafnvirði 50 milljarða Bandaríkjadala til ársins 2030. Þar er einkum um að ræða fjárfestingar í orkugeiranum, orkusparandi aðgerðir og fleira með grænum skuldabréfum og grænum hlutabréfum. Með þessari ákvörðun er fylgt eftir fyrri fjárfestingum danskra lífeyrissjóða á grænum nótum fyrir jafnvirði 19 milljarða Bandaríkjadala. 

Ríkisstjórn Danmerkur, lífeyrissjóðir og aðrir fjárfestar í opinbera geiranum og einkageiranum hafa stofnað sameiginlegan vettvang, The Climate Investment Coalition, til að stuðla markvisst að fjárfestingum til verndar loftslagi og umhverfi og í því skyni að fá hjól til að snúast hraðar í efnahags- og atvinnulífinu vegna COVID-kreppunnar.

  • Ólafur Sigurðsson framkvæmdastjóri Birtu lífeyrissjóðs og formaður nefndar Landssamtaka lífeyrissjóða um fjárfestingaumhverfi lífeyrissjóða, tók þátt í fjarfundi forystumanna norrænna lífeyrissjóða:

„Ég vísaði til þess að íslenskir lífeyrissjóðir hefðu á dögunum staðið að sameiginlegri viljayfirlýsingu ríkisstjórnar, fjármálastofnana, vátryggingarfélaga og fjárfestingarsjóða um fjárfestingar í þágu sjálfbærrar uppbyggingar. Þetta var gert að frumkvæði Festu – miðstöðvar um samfélagsábyrgð. Yfirlýsingar norrænna forsætisráðherra og lífeyrissjóða eru í svipuðum anda.

Ég geri ekki ráð fyrir öðru en að íslenskir fjárfestar taki vel í að stuðla að auknu norrænu samstarfi til stuðnings grænum fjárfestingum og horfi þannig á málið að í Skandinavíu geti orðið til verkefni sem íslenskum lífeyrissjóðum hugnist að fjárfesta í. Að sama skapi kunni lífeyrissjóðir í Skandinavíu að sjá sér hag í að fjárfesta í verkefnum sem stuðla að sjálfbærri þróun. Ég nefndi á fundinum að að orkuver sem nýttu vatnsafl eða jarðvarma væru dæmi um afar árangursríkar grænar fjárfestingar á Íslandi.“