Ráðstöfun 3,5% viðbótarframlagsins verði valfrjáls.

Eitt helsta viðfangsefni forystusveitar aðila vinnumarkaðarins í augnablikinu er að útfæra hvernig 3,5% viðbótariðgjaldi í lífeyrissjóði verður ráðstafað. Fyrir liggur að hver og einn sjóðfélagi þurfi að taka upplýsta ákvörðun þar að lútandi.

Þorbjörn Guðmundsson, formaður Landssamtaka lífeyrissjóða, segir í nýútkominni Vefflugu, vefriti LL, að ráðstöfunin verði valfrjáls. Sjóðfélagar geti ákveðið að viðbótin renni í samtryggingarhluta lífeyrissjóða sinna eða að hún verði séreign að einhverju eða öllu leyti.

Í Vefflugunni er líka fjallað um óvissu sem haustkosningar til Alþingis hafa kallað yfir áform um að breyta aðferðafræði mats á tryggingafræðilegri stöðu lífeyrissjóða um næstu áramót. Mótvægisaðgerðir geta ekki komið til framkvæmda nema lögum verði breytt á Alþingi.